Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. fjvn. fyrir hennar mikla starf að því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Það hefur komið fram í framsöguræðu formanns fjvn. að þessar vikur hafa verið óvenjulegur annatími fyrir fjvn. Það stafar af því að á þessum haust- og vetrardögum hefur fjvn. í senn haft til umfjöllunar frv. til fjárlaga fyrir næsta ár og frv. til fjáraukalaga fyrir árið sem nú er að líða. Það eru eins og fram hefur komið hér á Alþingi um 70 ár síðan það hefur gerst. Jafnframt hefur fjvn. haft ríkisreikning liðins árs til hliðsjónar við yfirferð yfir þetta fjárlagafrv.
    Ég vil þess vegna í upphafi máls míns árétta það sem ég lýsti yfir fyrir nokkru síðan hér á Alþingi, að það er markviss stefna núverandi ríkisstjórnar að breyta ýmsum vinnubrögðum varðandi fjárlagagerð og stjórn ríkisfjármála til að auðvelda fjvn. að geta á raunhæfan hátt farið yfir framlög til ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja og margvíslegra málaflokka og geta betur metið með sjálfstæðum hætti þau gögn sem lögð eru fram, bæði af hálfu fjmrn. og annarra ráðuneyta og ríkisstofnana. Það er þess vegna ánægjulegur vitnisburður um þessa nýju möguleika að fjvn. hefur þrátt fyrir skamman tíma lagt mikla vinnu í það að fara yfir fjárlagafrv. og meta með sjálfstæðum hætti þau fjölmörgu atriði sem þar koma til álita.
    Ég þakka fjvn. sérstaklega fyrir þessa vinnu vegna þess að ég veit að hún er mikið verk við mjög erfiðar kringumstæður. Verkið er enn meira vegna þess að við lifum á miklum erfiðleikatímum í okkar þjóðarbúskap. Árið 1990 verður þriðja samdráttarárið í röð. Slíkt hefur ekki gerst í röskan aldarfjórðung í hagsögu okkar Íslendinga. Það nemur röskum 30 milljörðum sem þessi þrjú ár hafa tekið út úr þjóðartekjum okkar þjóðar svo að það er eðlilegt að það sé snúið og erfitt verk að meta fjárþörf og fjárframlög til margvíslegra verkefna og ríkisstofnana á slíkum erfiðleikatímum. Ég veit af eigin reynslu að það
hefur örugglega verið mikill þrýstingur frá fjölmörgum á fjvn. að hækka framlög og bæta inn nýjum liðum eins og fram kom í framsöguræðu formanns fjvn.
    Ég vil þess vegna í upphafi míns máls láta í ljósi sérstakar þakkir til fjvn. fyrir það verk sem hún hefur skilað hér inn. Innan fárra daga mun hún einnig skila hér inn frv. til fjáraukalaga til 2. umr. Það verður nokkuð einstakur atburður í okkar þingsögu að fjvn. hafi á sömu vikunum lokið slíku verki.
    Ég lýsti í sumar, og síðan í framsöguræðu minni fyrir því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu, að ég teldi að nauðsynlegt væri að breyta tímasetningum og starfsháttum varðandi fjárlagagerð. Ég nefndi í því sambandi annaðhvort breytingar á fjárlagaári frá almanaksári yfir til annars tímabils eða að þingið tæki til starfa fyrr á haustin til að hafa lengri tíma til að fjalla um bæði frv. til fjárlaga og frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár.
    Ég er sammála þeirri skoðun sem hefur komið

fram, bæði hjá formanni fjvn. og fleiri fjárveitinganefndarmönnum, í þessari umræðu að það sé æskileg skipan að fjvn. starfi allt árið og er reiðubúinn að styðja breytingar á þingsköpum í þá veru. Verk fjvn. er slíkur grundvallarþáttur, ekki aðeins í stjórn ríkisfjármála heldur í hagstjórninni sjálfri, að óhjákvæmilegt er að þeir þingmenn sem í þá nefnd veljast hafi aðstöðu til þess allt árið að vinna úr þeim gögnum og móta þau viðhorf sem þeir vilja fylgja í sínu starfi.
    Fjárlagafrv. er grundvallarþátturinn í hagstjórn íslenska ríkisins og það hefur því miður oft borið á því að menn líti á fjárlagafrv. eins og hvert annað þingskjal og spyrji síðan að því samþykktu: Hvenær koma efnahagsaðgerðirnar? En í því hagkerfi sem við viljum stefna að, í þeim stöðugleika í efnahagsmálum sem við viljum ná, mynda fjárlög og lánsfjárlög fyrir hvert ár kjarnann í efnahagsstefnunni og þess vegna er eðlilegt að sú nefnd sem um það fjallar starfi allt árið.
    Ég tel reyndar að það komi líka til álita að gera fleiri breytingar á þingsköpum. Þær gætu falið það í sér að frv. til fjáraukalaga væri einnig afgreitt í sameinuðu þingi svo að sú nefnd sem fjallar um fjárlögin fjalli einnig um frv. til lánsfjárlaga og að lánsfjárlagafrv. sé lagt fyrir í sameinuðu þingi og afgreitt þar samhliða fjárlagafrv. og verkið unnið af sömu mönnum sem um fjárlagafrv. fjalla.
    Enn róttækari breyting á þingsköpum, sem vissulega kæmi einnig til álita, væri að breytingar á skattalögum færu einnig fram í sameinuðu þingi. Það er ekki eðlilegt að meðferð útgjaldahliðar fjárlaganna og meðferð tekjuhliðar fjárlaganna sé skilin svo í sundur eins og gert hefur verið frá því að Alþingi fékk fjárveitingavald. Við sjáum það m.a. á þessari umræðu hér í dag. Hér hefur nánast eingöngu verið vikið að útgjaldahlið fjárlaganna, mjög ítarlega og í löngu máli ræddir margir þættir í útgjöldunum og fjölmargar tillögur í því efni settar fram en næsta lítið, eins og eðlilegt er, vikið að tekjuhliðinni. Þær eru þó tvímælalaust nátengdar því að meðferð um útgjöldin ein saman án þess að gera sér grein fyrir tekjurammanum skekkir alla mynd og getur leitt menn í ógöngur í ríkisfjármálum eins og þróunin á þessum áratug
hefur sýnt okkur. Allt frá árinu 1984 hefur þróun ríkisfjármála verið með þeim hætti að útgjöldin hafa farið fram úr tekjunum ár af ári.
    Virðulegi forseti. Ég vildi í þessari umræðu víkja nokkuð að þessum þáttum því ég tel að sú umræða sem hér fer fram sé með nokkrum hætti sérstök eins og fram kom hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, formanni fjvn., og fleiri þingmönnum í þessari umræðu.
    Það er skiljanlegt að í þessari umræðu hafi komið fram fjölmargar tillögur og ábendingar um aukin ríkisútgjöld. Fjvn. hefur lagt fram ýmsar tillögur í þeim efnum og ýmsir ræðumenn hafa vikið að fleiri tillögum. Hins vegar verðum við að horfast í augu við það að mikill samdráttur er í okkar hagkerfi og ef

ríkisfjármálin eiga að stuðla að nýjum stöðugleika í íslensku efnahagslífi verðum við að takmarka hallann á fjárlögum ríkisins á næsta ári. Núverandi stjórnarflokkar mótuðu þá stefnu á haustdögum að fjárlagafrv. ætti að afgreiða með um þriggja milljarða halla. Sú stefna stjórnarflokkanna er enn óbreytt. Rökin fyrir henni eru þau að þriggja milljarða halli á fjárlagafrv. eða halli á bilinu 3--3,5 milljarðar sé viðráðanlegur með innlendri lánsfjáröflun á næsta ári. Halli umfram það fari að kalla á erlendar lántökur með þeim afleiðingum sem þær kunna að hafa fyrir efnahagslífið í landinu.
    Nú er það ljóst að fjvn. hefur lagt hér fram brtt. sem nema útgjaldaauka um 1100 millj. kr. Margar af þessum tillögum eru sjálfsagðar og eðlilegar. Ýmsar fela í sér að verið er að bæta við útgjöldin skv. óskum ýmissa stofnana og samtaka úti í þjóðfélaginu þótt alltaf megi hafa á því mismunandi skoðanir hvort hafi átt að verða við þeim óskum. Hitt er hins vegar ljóst að milli 2. og 3. umr. verður síðan að móta tillögur til að draga úr útgjöldunum á öðrum sviðum og taka tillit til endurskoðunar nokkurra þátta í tekjuáætlun og tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári svo að niðurstaðan verði halli á ríkissjóði í kringum 3 milljarðar eins og áætlað var. Það er þess vegna sameiginlegt verkefni ríkisstjórnar, meiri hluta Alþingis og vonandi þingsins alls, því ég vænti þess að ekki séu margir hér inni sem vilji auka hallann á ríkissjóði enn meir, að ná samstöðu um það á næstu dögum að skera niður ríkisútgjöld á móti á öðrum sviðum þannig að heildarniðurstaðan verði sú sama sem við ætluðum í upphafi.
    Að undanförnu hefur á vettvangi ríkisstjórnar og í samvinnu ráðherra og fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í fjvn. verið unnið að mótun tillagna í þessum efnum og við höfum átt sérstaklega góða samvinnu við formann fjvn. á þessu sviði. Við munum næstu daga kynna þessar hugmyndir og tillögur þannig að við 3. umr. þessa frv. liggi fyrir tillögur til lækkunar á útgjöldum sem nemur röskum milljarði króna ásamt breytingum á tekjuhlið sem geri okkur kleift að vega upp þann útgjaldaauka sem kann að koma við 3. umr. einnig af eðlilegum ástæðum og þann útgjaldaauka sem koma mun við afgreiðslu þeirra tillagna sem nú liggja fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki hér í þessari umræðu að ræða efnahagsmálin vítt og breitt eða þróun ríkisfjármálanna. Ég gæti sagt margt um það sem hér hefur verið vikið að í þeirri umræðu. Það væri mjög fróðlegt að gefa sér góðan tíma hér á Alþingi eftir áramótin til þess að ræða þróun ríkisfjármála á Íslandi. Ég hef haft í huga að leggja fyrir Alþingi skýrslu um þróun ríkisútgjalda á undanförnum árum svo að hægt sé að skoða þá þróun hér í þinginu og draga af henni ályktanir. Þá gefst tækifæri til þess að rýna betur í orsakir þess vanda sem við eigum nú við að glíma.
    Ég vildi nota þetta tækifæri hér í fyrsta lagi til að þakka fjvn. fyrir mjög gott starf við erfiðar aðstæður, til þess að lýsa stuðningi við þær hugmyndir um

breytt vinnubrögð og breytta skipan og sess nefndarinnar í þingsköpum sem og að bæta nokkrum viðbótarhugmyndum við það tillögusafn. En fyrst og fremst kvaddi ég mér hér hljóðs til þess að lýsa því skýrt og eindregið að milli 2. og 3. umr. verður að móta tillögur um niðurskurð útgjalda a.m.k. á bilinu 1--1 1 / 2 milljarður og síðan aðra tekjuþætti en við höfum rætt til þessa svo heildarútkoman við afgreiðslu fjárlagafrv. við 3. umr. verði halli sem ekki fari fram úr sem neinu nemur þeirri tölu sem sett var á fjarlagafrv. í upphafi. Ástæðan er skýr og einföld. Fjárlagafrv. má ekki afgreiða með meira en rúmlega þriggja milljarða halla til þess að efnahagslegum markmiðum ríkisstjórnarinnar verði ekki raskað. Ég treysti á góða samvinnu við þingið allt til að ná þessum markmiðum.