Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú ekki að taka hér til máls aftur en ég tel rétt að gera það í kjölfar ræðu hæstv. fjmrh. og þakka honum fyrir það sem hann sagði, taka mér í munn orð annars fjarverandi stjórnmálamanns sem sagði eitthvað á þá leið að það sem þessi hæstv. ráðherra sagði við það tækifæri hefði getað verið eins og mælt af hans munni. Ég held að flest af því sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. nú eigi stuðning a.m.k. þess sem hér stendur. Hann hefur beitt sér fyrir því, hæstv. fjmrh., að breyta hér mjög vinnubrögðum í fjárlagagerð á Alþingi. Hann hefur rætt um nokkrar hugmyndir til viðbótar um breytingar og endurbætur á þeim vinnubrögðum, tekið undir hugmyndir fjvn. þar um og varpað fram nokkrum öðrum athyglisverðum hugmyndum sem menn hafa einnig rætt. Ég held að flest af því sem hæstv. ráðherra sagði um það efni sé skynsamlegt og flestir ef ekki allir fjárveitinganefndarmenn muni taka undir margt ef ekki allt sem hann gerði að tillögu sinni þar um.
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að vandi fjárlagagerðar er vandi Alþingis en ekki bara ríkisstjórnar. Sé það rétt sem ég var að reyna að draga upp mynd af hér áðan að líkur séu á því að reynsla undanfarinna ára frá tíð fjölmargra ríkisstjórna bendi til þess að viðvarandi hallarekstur sé að skapast í ríkisbúskapnum, þá skulum við hafa það í huga alþm. sem við höfum oft sagt, að fjárveitingavaldið er Alþingis og skattlagningarvaldið er Alþingis og það er Alþingi sem verður að horfast í augu við þetta vandamál en getur ekki vísað því frá sér yfir á ríkisstjórnina. Sé sú niðurstaða rétt sem menn hafa verið að leitast við að draga í þessum umræðum, að um slíkan viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði kunni að vera að ræða, þá er það misskilningur ef menn halda að það sé vandi ríkisstjórnar þeirrar sem situr á hverjum tíma. Henni ber auðvitað skylda til að reyna að ná samstöðu um
tillögugerð til að leysa þann vanda. Sé það rétt sem þingmenn halda fram, og auðvitað er það rétt, að Alþingi hafi fjárveitingavaldið og Alþingi hafi skattlagningarvaldið, þá er það vandi Alþingis sem Alþingi verður að horfast í augu við hvernig nú kann að vera komið og hvernig mál kunna að hafa þróast á umliðnum árum.
    Auðvitað er það rétt hjá hæstv. fjmrh. að best fer á því að þeir sem ákvarða útgjöldin séu líka ábyrgir fyrir tekjuöfluninni. Og ef svo væri, þá yrði kannski umræðan um tekjustofna ríkisins hér á Alþingi um annað en undanþágurnar.