Nefndastörf
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það liggur fyrir að við í fjh.- og viðskn. Ed. þurfum að skila inn nál. og brtt. sem þurfa að vera tilbúnar í síðasta lagi á föstudagsmorgun. Var samkomulag um það í nefndinni í dag að við í stjórnarandstöðu mundum reyna að fylgja þeirri tímaáætlun þó svo að ýmsar upplýsingar hafi ekki borist nefndinni, m.a. útreikningar á því hvaða bagga ríkisstjórnin er að binda sveitarfélögunum eins og frá virðisaukaskattsfrv. er gengið.
    Í samræmi við þingvenju þegar um mjög erfitt og flókið mál er að ræða óska ég eftir því að þeir nefndarmenn stjórnarandstöðunnar sem þurfa að skila nál. á morgun, í síðasta lagi á föstudagsmorgun, geti treyst því að ekki verði boðaður fundur í þeim nefndum í fyrramálið sem þeir eiga sæti í. Ég óska eftir því að fundir í þvílíkum nefndum verði allir sem einn afboðaðir. Ef á hinn bóginn verður tregða í þessum efnum, þá er það auðvitað yfirlýsing stjórnarflokkanna um að það eigi að níðast á langlundargeði stjórnarandstæðinga þegar þeir koma til móts við ríkisstjórnina eins og í þessu máli, virðisaukaskattsmáli, sem hefur verið mjög illa undirbúið fyrir þingið. Hefur nánast sagt orðið að draga upp úr stjórnarliðum þær upplýsingar sem áttu að liggja fyrir um leið og frv. var sent deildinni. Ég vil taka sem dæmi að þegar málið var hér til 1. umr. hét hæstv. fjmrh. því að við mundum fá fyllstu upplýsingar og sérstaklega yrði hugað að framkvæmd reglugerðar um
endurgreiðslu á matvælum. Þessi reglugerð hefur ekki verið lögð fram í nefndinni enn með endanlegum tölum og við höfum ekki fengið upplýsingar t.d. um það atriði á hvaða vinnu, sem áður var undanþegin söluskatti, hjá sveitarfélögunum virðisaukaskattur verður endanlega lagður og hvenær virðisaukaskattur verður endurgreiddur af slíkri vinnu. Nefndarmenn sem ekki hafa fengið fyllri upplýsingar en þetta í nefndinni hljóta að verða að afla sér þeirra upplýsinga á venjulegum skrifstofutíma embættismanna á morgun. Ég vil því mælast til að forseti sjái til þess að hægt sé að hafa hér þau venjulegu vinnubrögð þegar um stórmál er að tefla að tóm gefist til þess að undirbúa brtt. og tóm gefist til að athuga upplýsingar sem fram hafa komið og skrifa greinargerð um málið.