Nefndastörf
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Um þetta ætla ég ekki að hafa mörg orð. En ég hef þá farið villur vegar og misskilið alvarlega það sem fór fram á nefndarfundi í morgun ef ég skildi það ekki rétt að samkomulag var um að halda fund kl. 10 í fyrramálið þar sem fram kæmu, að ósk stjórnarandstæðinga, þær brtt. sem meiri hl. nefndarinnar mun flytja við frv. þannig að hv. stjórnarandstæðingar gætu séð þessar brtt. í fyrramálið. Ég hélt að um þetta hefði verið gott samkomulag og það kemur mér satt að segja svolítið á óvart ef svo er ekki. Mér fannst að vísu eðlilegt að við gætum séð líka hvaða brtt. stjórnarandstæðingar mundu flytja við frv. en það þótti nú ekki eðlileg ósk og um það skal ég ekkert meira segja. En ég fór svo af þessum fundi í morgun að ég skildi að um þetta væri samkomulag, málið kæmist til umræðu á föstudag hér í þessari hv. deild en að nefndarmenn hittust í fyrramálið kl. 10 þar sem fram yrðu lagðar og kynntar þær brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur við frv. En vera má að allt sé þetta mikill misskilningur og ekkert samkomulag hafi verið gert. Það verður þá að koma í ljós.