Launaskattur
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 275 liggur fyrir álit meiri hl. fjh.- og viðskn. sem hefur fengið þetta frv. til umfjöllunar og fékk til viðræðna Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt. Meiri hl. skipuðu auk mín Þórhildur Þorleifsdóttir, Jón Bragi Bjarnason, Ragnar Arnalds og Þóra Hjaltadóttir.
    Sú lagabreyting sem hér er lagt til að gerð verði er að launaskattur verði framvegis innheimtur í hverjum mánuði líkt og gildir um staðgreiðsluskatta af launum, enda er skattstofninn svo að segja sá sami. Með þessu móti eru gjalddagar launaskatts tólf á hverju ári í stað sex. Þessi breyting á innheimtu launaskatts mun gera hann virkari og jafnframt auðvelda eftirlit.
    Það má gera ráð fyrir að við þessa breytingu batni greiðslustaða ríkissjóðs á næsta ári um 200 millj. kr. og jafnframt má benda á að þessi breyting er mikilvægt skref í þá átt að samræma stofn og innheimtukerfi launaskatts við stofn og innheimtukerfi staðgreiðslu.