Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn., sem við skipum ég og hv. 1. þm. Vestf.
    Við viljum greiða fyrir því að þetta mál fái afgreiðslu sem allra fyrst. Það er eftir því beðið, m.a. af Byggðastofnun, sem þarf nauðsynlega að taka erlent lán vegna starfsemi sinnar og eins vegna hins, sem sést á brtt. hæstv. fjmrh., að Lánasjóður ísl. námsmanna þarf að fá 250 millj. kr. til sinna þarfa vegna útlána á yfirstandandi ári. Við teljum reyndar að sú till. hefði átt að koma fram í nefndinni og nefndinni þannig gefinn kostur á að flytja þá till. Hitt er svo annað mál að þetta er auðvitað matsatriði og smekksatriði hvort hæstv. ráðherra kýs að hafa þennan háttinn á fremur en annan.
    Það er athygli vert að í minnisblaði um lánsfjárþörf og lánsfjáröflun ríkissjóðs 1989, sem er dags. 11. des. 1989 og undirrituð af Halldóri Árnasyni sem er starfsmaður Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, koma fram nýjar upplýsingar sem eru ekki samhljóða þeirri áætlun sem kemur fram í athugasemdum sem birtast með sjálfu frv. eins og það var lagt fram í upphafi.
    Það kemur fram í þessu minnisblaði að erlendar lántökur ríkissjóðs hafi verið áætlaðar rúmir 6 milljarðar kr., þar af 5 milljarðar til að greiða yfirdráttarskuld ríkisins í Seðlabankanum vegna ársins 1988 og síðan 900 millj. kr. endurlán til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Efri deild Alþingis fjallaði um það mál og gerði síðan þá breytingu á lagafrv. að fella inn í frv. heimildina til að taka erlent lán fyrir Byggðastofnun. Nú hefur Lánasjóðurinn bæst við og leiðréttist þá frv. sem því nemur.
    Það er hins vegar athygli vert að síðar í þessu minnisblaði er því lýst hvað sagði í athugasemdum með frv. og þar kemur í ljós að ætlunin hafi verið að brúa innlenda lánsfjárþörf ríkissjóðs, sem svo er orðað, með þeim hætti að selja spariskírteini fyrir 6 milljarða kr., ríkisvíxla fyrir 3,8 milljarða kr.
og síðan yrði önnur lántaka 1500 millj. kr. en samtals gerir þetta 11,3 milljarða á innlendum lánamarkaði.
    Nýjustu upplýsingar, sem eru frá 6. des., segja hins vegar að heildarsala spariskírteina ríkissjóðs að nóvember meðtöldum --- og er þá einungis reyndar átt við þá sölu sem þegar er uppgerð við ríkissjóð og kann að liggja eitthvað í pípunum --- er 4,6 milljarðar en heildarinnlausnin á sama degi er 4 milljarðar og 150 millj. kr. Sala spariskírteina nægir því rúmlega til að mæta innlausn eldri skírteina.
    Fulltrúi Fjárlaga- og hagsýslustofnunar segir síðan að erfitt sé að áætla hver salan verði fram að áramótum en getur þess þó í minnisblaðinu að lífeyrissjóðum hafi verið gert tilboð um kaup á spariskírteinum fyrir um 1 milljarð kr. Ég vil þess vegna, virðulegur forseti, fá að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort frá þeim kaupum hafi verið gengið og hvort líklegt sé að lífeyrissjóðirnir eða

einhver annar stór kaupandi sé tilbúinn til þess að kaupa spariskírteini ríkissjóðs þannig að 1 milljarður seljist í þessum mánuði en þá mundi skakka mun minna en áætlað er í þessari nýju áætlun.
    Þá segir jafnframt í minnisblaðinu, virðulegur forseti, að gert sé ráð fyrir að nettósala ríkisvíxla á árinu nemi 3,8 milljörðum kr., en 7. des. var nettósalan 3,2 millj. og hafði þá lækkað um 800 millj. kr. frá lokum september. Það er einnig ástæða til þess, virðulegur forseti, að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að hægt verði að selja ríkisvíxla nú á síðasta mánuði ársins, hvort staða bankanna, sem hafa verið stærstu kaupendur ríkisvíxlanna, leyfi það.
    Síðan segir Halldór Árnason í minnisblaði Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að ljóst sé að erfitt verði að ná fram þeim áformun un innlenda lánsfjáröflun sem nefnd eru fyrr í minnisblaðinu og það sem kunni að vanta á þau áform verði fjármagnað með yfirdrætti hjá Seðlabanka Íslands eins og venja hefur verið.
    Þetta þýðir með öðrum orðum, virðulegur forseti, að taka verður niðurstöðutölur í frv. með talsverðri varúð. Í raun og veru er hér um áætlanir að ræða og vera kann að nokkrar breytingar verði á þeim tölum sem koma fram í frv. og þá verður gengið frá því sem út af stendur með hefðbundnum hætti. Það þýðir jafnframt, virðulegur forseti, að sú nýbreytni að leggja fram lánsfjárlög fyrir árið 1989 til leiðréttingar á lánsfjárlögum sem Alþingi hefur samþykkt fyrr nær ekki fyllilega tilgangi sínum og skilur mál eftir með nokkra lausa enda. Kannski er ómögulegt að setja fram nákvæmari áætlanir, en þó væri gagnlegt að á þessu stigi málsins eða á síðari stigum mundi hæstv. ráðherra upplýsa þetta mál.
    Ég vil taka fram að tækifæri gefst til þess, ef brtt. hæstv. ráðherra verður samþykkt, að gera það annaðhvort hér við 2. eða 3. umr. í neðri deild eða þá í þeirri umræðu sem fer fram í efri deild. En vonandi verður sú umræða ekki til þess að málið fái ekki afgreiðslu fljótt og vel eins og minni hl. vonast til að geti orðið.