Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Frv. þetta, sem fjallar um heimildir til aukinnar lántöku ríkissjóðs umfram það sem upphaflega var gert ráð fyrir á lánsfjárlögum, er til vitnis um það vanmat á aðstæðum og óraunsæi sem ríkir í fjármálastjórn. Svo ótraustar eru forsendur sem ætlað var að byggja fjármálastjórn á að þær breytast frá degi til dags. Til vitnis um það er fyrst frv. sjálft en að auki hafa verið lagðar fram stórfelldar brtt. við það tvisvar sinnum.
    Í umfjöllun efri deildar var flutt brtt. til hækkunar um 350 millj. kr. vegna heimilda til Byggðastofnunar til lántöku. Í gær lagði svo hæstv. fjmrh. sjálfur fram eina brtt. í viðbót. Mun hún eiga sér rætur í aukinni fjárþörf Lánasjóðs ísl. námsmanna. Er það skýrt með tekjufalli námslána annars vegar og hins vegar fjölgun námsmanna umfram það sem ætlað var. Það hlýtur að vera undrunarefni að þetta skuli fyrst hafa runnið upp fyrir hæstv. ríkisstjórn nú á allra síðustu dögum ársins.
    Ekki drögum við kvennalistakonur í efa fjárþörf Byggðastofnunar vegna gefinna lánsloforða né heldur aukna fjárþörf Lánasjóðs ísl. námsmanna og munum því ekki standa gegn þessum breytingum á frv. né því í heild þar sem einnig er tekið á málefnum Atvinnutryggingarsjóðs. Hins vegar getum við ómögulega borið ábyrgð á svo óljósu reikningshaldi sem breytist frá degi til dags, né heldur ótraustum áætlunum og vanmati ríkisstjórnar á aðstæðum og munum því sitja hjá við afgreiðslu málsins.