Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. meiri hl. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur gert grein fyrir þeim brtt. sem hann flytur við frv. Veigamestu brtt. eru við 4. og 5. gr. og síðan 32. gr. Það er rétt að þetta frv., eins og það er úr garði gert og eins og það hefur verið samþykkt frá Ed., gerir ráð fyrir allvíðtækum heimildum tölvunefndar en það hefur komið fram í skýrslu nefndarinnar að þessum heimildum hefur verið beitt mjög varlega.
    Frv. er að sjálfsögðu í þá átt og það er tilgangur þess að vernda einstaklinginn fyrir þeirri nýju tækni sem komin er. Það er nú svo að sú tækni er komin fram úr okkur að mörgu leyti og heimild tölvunefndar, sem hún fær í 32. gr., til eftirlits án dómsúrskurðar með skráningu er tilkomin vegna þess að afar auðvelt er að eyða gögnum og skrám sem skrásetjarinn hefur undir höndum. Það er afar auðvelt að eyða þeim með einu handtaki og í einu andartaki. Þessi heimild er fyrir hendi í nágrannalöndunum þar sem svipað er háttað um og hún er talin nauðsynleg til aðhalds en þessari heimild hefur mjög lítið eða jafnvel ekki verið beitt. En þetta er talið nauðsynlegt aðhaldsákvæði.
    Hv. 12. þm. Reykv. bar fram fyrirspurnir varðandi 4. og 5. gr. um í hvaða tilfellum undanþágur hefðu verið leyfðar. Ég hef ekki undir höndum skrá um sérstök tilvik. Það hafa mjög fáar undanþágur verið leyfðar. Þá hefur það verið í þeim tilvikum að um vísindarannsóknir sé að ræða sem hafi ótvírætt gildi fyrir samfélagið og framfarir, m.a. í læknavísindum. Sem dæmi um slík tilvik má nefna skráningar Krabbameinsfélags Íslands, sem eru þáttur í rannsóknum á þessu sviði m.a. og heyrir það undir 5. gr. Skráningar og rannsóknir Vinnueftirlits ríkisins á heilsufarsástæðum ýmissa starfsstétta
hafa verið taldar nauðsynlegur þáttur í framförum og bættum aðbúnaði þessara stétta. Það er eingöngu í slíkum tilvikum sem þessar undanþágur hafa verið leyfðar, en ég ítreka það að ég hef ekki undir höndum ítarlega skrá um einstök tilvik að þessu leyti. En þessar undanþágur eru eigi að síður mjög fáar.