Bifreiðagjald
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það er nú eiginlega svo komið að manni fer að verða orðfátt yfir öllum þeim skattahækkunum sem hér dynja yfir og öllum þessum skattaumræðum á hverjum degi. Nýjasti skatturinn er hér til umræðu, það er skattur á bifreiðar. Ef tekjuskattur er ekki hækkaður og virðisaukaskattur hækkaður, þá er það skattur á bifreiðar eða eitthvað annað. Mér finnst þessi skattpíning öll saman orðin hið mesta hneyksli. Ég verð nú eiginlega að segja að mér finnst þetta jaðra við að fara að verða hálfgert skattaofbeldi. Manni blöskraði hér fyrir ári síðan að horfa á allar skattahækkunarhugmyndirnar, horfa á þegar átti að fara að redda atvinnulífinu, að sagt var, og síðan var dengt óheyrilegum hækkunum á sköttum yfir þjóðina upp á 7 milljarða, bæði á launþega og fyrirtæki. Enn keyrir um þverbak. Það er enn verið að hækka skatta. Í fyrra átti að hækka skatta til þess að leysa rekstrarvanda ríkissjóðs og reka hann með 650 millj. kr. tekjuafgangi. Niðurstaðan er ekki orðin ljós enn þá, en það er alla vega ljóst að gatið í ár verður ekki undir 10 milljörðum. Það er nú allur hagnaðurinn, þetta er nú búskapur í lagi. Þeir sem stjórna landinu um þessar mundir hafa gert sér grein fyrir því að fiskistofnar eru takmörkuð auðlind. En þeir eru ekki enn þá komnir á það stig að gera sér grein fyrir því að á heimilum og í fyrirtækjum er líka um takmarkaða auðlind að ræða. Þessi skattpíning, sem ég kalla skattaofbeldi, er komin á það stig sem kallast rányrkja, hreinræktuð rányrkja. Og nú á að siga fógetanum á fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum. Það mun koma í ljós eftir áramót þegar verður farið að herða allt með enn þá frekari innheimtuaðgerðum, þegar fógetanum verður sigað á peningalaus fyrirtæki og launþegar þeirra fyrirtækja mega labba heim eftir að búið er að innsigla. Það er nú eiginlega alveg stórkostlegt að menn skuli hafa geð í sér til þess að leggja í hann, á þessum vettvangi. Það verð ég að segja.
    Eignaupptaka sem kemur í kjölfarið á svona skattahækkunum leiðir náttúrlega óhjákvæmilega til þess að það verður að loka fjölda fyrirtækja og heimili boðin upp. Þetta snýst kannski ekki endilega um að loka þessum fjárlagahalla sem fyrirsjáanlegur er. Ákvörðunin snýst kannski um það hvort á að reka ríkissjóð með meiri halla eða hvort á að reka fyrirtækin með meiri halla og loka þeim í kjölfarið. Það þykir ekki búmannlegt að blóðmjólka kýrnar en það er nú það sem er að gerast hér og verður gert í vaxandi mæli ef svo fer sem horfir.
    Auðvitað er hægt að spara og hagræða víða í rekstri hjá ríkissjóði. Það er enginn að tala um að það eigi að gera neitt neikvætt og ég ætla ekki að fara að nefna einhver sérstök dæmi. En þegar kerfið ætlar að fara að skoða sjálft sig til þess að spara, það er það asnalegasta sem maður verður vitni að. Flugleiðir fá sér einkafyrirtæki utan úr heimi til þess að hagræða í sínum rekstri. Þeir eru ekki að naflaskoða sjálfa sig. Það gera engin fyrirtæki sem ætla að spara og

hagræða í alvöru. Fyrirtæki sem þora að láta skoða sig fá sér ráðgjafa í vinnu og reyna að ræða við starfsfólkið og taka jákvætt á málunum, auka framleiðni, spara og hagræða á þann hátt með jákvæðum árangri. Það er það sem þarf að gera. Það er nú borin von að það verði gert með svona aðgerðum. Mér finnst bara vera verulegt álag að horfa upp á svona bölvaða vitleysu. Það hlýtur að vera aldeilis mikil orka í þeim mönnum sem hafa geð í sér til þess að leggja í hann, það verð ég að segja. Eða þeir skilja bara ekkert hvað þeir eru að gera. Auðvitað verður maður að gefa sér þær forsendur eins og ég hef sagt hér áður. Það er raunverulega ekki hægt að ætla nokkrum svo illt að þeir hafi hugmynd um hvað þeir eru að gera. Það er alls ekki hægt.