Bifreiðagjald
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Í fyrsta lagi er verið að gera breytingu milli beinna og óbeinna skatta og sú tillaga sem felst í þessu frv. er liður í þeim breytingum. Heildaráhrifin af þeim á bifreiðaeigendur verða þau að skattbyrðin á bifreiðaeigendur verður lægri á næsta ári en í ár. Skýringin er fólgin í því að virðisaukaskattur leggst ekki á tryggingariðgjöld af bifreiðum en söluskattur hefur verið greiddur af tryggingariðgjöldum og það eru, eins og hv. alþm. vita, umtalsverðar upphæðir ef bifreiðar eru t.d. í fullri tryggingu. Í öðru lagi mun bensíngjald ekki hækka eins og fullar heimildir eru fyrir, eins og hér hefur verið gagnrýnt af einum hv. þm. að ekki væri gert. Og svo í þriðja lagi, eins og hér kemur fram, hækkar bifreiðagjaldið á móti. Það er þó alveg ljóst að sú hækkun er minni en þær breytingar sem annars vegar verða frá því að söluskattur er aflagður af bifreiðagjöldum og tryggingariðgjöldum og virðisaukaskattur ekki á þær lagður og breytingarnar í bensíngjaldinu. Það er þess vegna ekki rétt að á næsta ári verði dýrara fyrir einstaklinga að eiga og reka sínar bifreiðar á Íslandi en það er í dag. En það er hins vegar rétt að hutfallið í skattategundunum breytist.
    Ég varði nokkru máli til þess að útskýra það hér fyrr í þessari hv. deild að með markvissum hætti er verið að breyta hlutfalli milli beinna og óbeinna skatta stig af stigi og sú breyting kemur auðvitað fram í því að einstakir beinir skattar hækka. En þá verða menn líka, til þess að gæta allrar sanngirni, að horfa á það að óbeinu skattarnir lækka, verðlagsskattarnir lækka. Og ég veit að þegar hv. þm. skoða þetta í rólegheitum sjá þeir að það er sanngirnismál að líta á þetta í samhengi. Það væri t.d. ekki rétt að halda þannig á málum, ef t.d. virðisaukaskatturinn væri stórlega lækkaður en
tekjuskatturinn hækkaður eitthvað á móti, að fara að halda mikla messu hér á Alþingi um einhverja gífurlega skattahækkun ef heildaráhrifin væru skattalækkun á fólkinu í landinu.
    Í öðru lagi var spurt að því hvaða vísitöluáhrif þessar breytingar kynnu að hafa. Ég er nú því miður ekki með þau gögn hér við höndina og vil ekki svara því nákvæmlega á þessu stigi. Það er þó ljóst að hækkunin á bifreiðagjaldinu á venjulega bifreið, vísitölubifreiðina, er í kringum 3000--4000 kr. á bifreið eftir því hvaða tegund er nákvæmlega tekin eða sem samsvarar rúmlega 1--2 bensínáfyllingum á viðkomandi bifreið. En ég tel rétt að í nefndinni verði lagðar fram nákvæmar upplýsingar um þetta atriði.
    Í þriðja og síðasta lagi var það hér gagnrýnt af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni að ekki væru nýttar heimildir að fullu til þess að hækka bensíngjald. Ég vil vekja athygli á því að í tíð ríkisstjórnarinnar sem hér sat 1987--1988 var það langt í frá að möguleikar til þess að hækka bensíngjald væru nýttir þannig að tekjustofnar Vegagerðarinnar voru, með

röksemdafærslu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, þar með verulega skertir í tíð þeirrar ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sem hér sat 1987--1988.