Mengunarvarnir í álverinu við Straumsvík
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur beint til mín fsp. á þskj. 151 sem hann hefur nú gert grein fyrir og hljóðar fsp. svo: ,,Hvernig er nú háttað framkvæmd og eftirliti mengunarvarna í álverinu við Straumsvík samkvæmt samkomulagi milli iðnrn. og heilbrrn. sem greint var frá í fréttatilkynningu 20. júlí 1988?``
    Samkomulag iðnrn. og heilbrrn. á sl. ári fól í sér að ráðuneytin settu til hliðar ágreining um gildi aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Limited. Enn fremur fól samkomulagið í sér eftirfarandi:
    1. Mál er varða mengunarvarnir álversins verði leyst innan 12. gr. aðalsamningsins.
    2. Heilbrrn. mun að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins gera tillögur til iðnrn. um framkvæmd og fyrirkomulag mengunarvarna.
    3. Ráðuneytin eru sammála um að Ísal geri allar eðlilegar ráðstafanir til að draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði.
    4. Heilbrrn. tilkynni Hollustuvernd ríkisins og Íslenska álfélaginu þessa skipan mála.
    Frá því að þetta samkomulag var gert hefur verið unnið í anda þess. Hollustuvernd ríkisins hefur skilað til heilbrrn. tillögum að starfsleyfi fyrir álverið í Straumsvík, sbr. tölul. 2 sem áður var getið. Heilbrrn. hefur yfirfarið tillögurnar og sent áfram til iðnrn. Sú útgáfa er nú til umræðu í starfshóp skipuðum fulltrúum Íslenska álfélagsins, iðnrn., heilbrrn. og Hollustuverndar ríkisins.
    Þar sem málin eru, enn sem komið er, á umræðustigi hefur lítil breyting átt sér stað á eftirliti með mengun frá álverinu í Straumsvík. Ekki hefur verið endanlega ákveðið hvaða útblástursmörk eða aðrar mengunarvarnakröfur
fyrirtækinu verða settar, né hvaða eftirlitsáætlun verður fylgt, en vonast er til að ekki þurfi að líða langur tími þar til ákvarðanir verða teknar.
    Óhætt er að fullyrða að þrátt fyrir að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun sé nú unnið markvisst að endurbótum á mengunarvörnum hjá álverinu við Straumsvík í góðri samvinnu við Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð og heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar.
    Að frumkvæði álversins hefur verið komið á ársfjórðungslegum fundum þessara aðila og Íslenska álfélagsins þar sem sjónarmið eru skýrð, staða mála rædd og framtíðarverkefni undirbúin. Eftirfarandi er dæmi um verkefni sem í gangi eru:
    1. Verið er að skipta um kerþekjur. Nýju þekjurnar opnast og lokast sjálfvirkt. Þessi sjálfvirkni gerir það að verkum að unnt á að vera að halda kerunum meira lokuðum en áður var, auk þess sem þekjurnar eru mun þéttari. Þetta skiptir verulegu máli fyrir þá loftmengun sem frá álverinu berst. Á fyrstu fjörutíu kerunum hafa nú verið teknar í notkun nýjar þekjur,

en gert er ráð fyrir að lokið verði að búa öll ker nýjum þekjum á árinu 1992.
    2. Verið er að gera tilraunir með nýtingu orku sem fólgin er í kerbrotum með því að brenna þau í ofni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi.
    3. Útskipti á tækjabúnaði sem inniheldur PCB hefur verið í gangi. Öllum slíkum búnaði hefur verið eytt erlendis í viðurkenndum eyðingarstöðvum. Gert er ráð fyrir að þessu verkefni ljúki á næsta ári. Auk þessa hefur verið safnað saman öðrum búnaði sem inniheldur hættuleg efni til þess að farga honum síðar á viðeigandi hátt í stað þess að farga honum á almennum sorphaugum eins og því miður hefur verið of algengt hér á landi.
    4. Verið er að kanna endurbætur á hreinsibúnaði álversins í því skyni að auka rekstraröryggið. Könnunin nær m.a. til eftirfarandi: Koma fyrir fleytiboxum til að jafna súrálsstrauminn í hreinsitækjum, jafna loftstraum milli síuhúsa, finna það afsog sem leiðir til bestrar hreinsunar, breyta tækjabúnaði þannig að hvarf milli súráls og útblásturslofts verði fullkomnara, taka í notkun betri mælibúnað til að flýta bilanaleit.
    5. Verið er að kanna hvar og hvernig best sé að mæla útblástur frá þaki kerskála til að fá sem öruggastar niðurstöður, m.a. með tilliti til úttektar á virkni hinna nýju kerþekja.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú reynt að gera grein fyrir því hver staða málsins er. Eins og fram kom í upphafi máls míns er ekki endanlega eða enn þá fullfrágengið samkomulag milli ráðuneytanna en að því unnið og einnig unnið að ýmsum þáttum mengunarvarna sem ég tel alla mjög mikilvæga og vænti þess að við getum fyrr en síðar náð endanlegu samkomulagi um það hvernig að þessu eftirliti verði staðið.