Mengunarvarnir í álverinu við Straumsvík
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Austurl. kom aðeins inn á þá umræðu sem verið hefur um skipulagsmál á því svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar sem næst liggur álverksmiðjunni í Straumsvík. Ég ætla ekki að fara út í þá umræðu sérstaklega en reyna að svara honum og hv. 12. þm. Reykv. varðandi frekari kröfur, t.d. um brennisteinsdíoxíð svo og útblástursmörk. Ég verð að svara því að ég vænti þess að um þetta sé fjallað í því samkomulagi sem nú er til umræðu milli ráðuneytanna og Hollustuverndar ríkisins annars vegar og álversins hins vegar en hef því miður ekki tiltækar upplýsingar hér fyrir hv. þm. og fyrirspyrjendur til þess að geta svarað þeim spurningum hér og nú af neinni nákvæmni.
    Ég get tekið undir það sem fram kemur hjá hv. 12. þm. Reykv. að þetta hefur tekið langan tíma og auðvitað lengri tíma en æskilegt hefði verið. Það er rétt að ný mengunarvarnareglugerð tekur gildi núna um áramótin og verður auðvitað að skoða málin í því ljósi. En ég vísa þó aftur til þess samkomulags sem gert var í fyrra milli ráðuneyta um að ágreiningsefni skyldu lögð til hliðar og tekið á þeim sérstaklega svo sem áður hefur verið frá greint og hefur komið fram hér í þinginu áður.
    Varðandi hugmyndir um fleiri álver vil ég segja það við hv. þm. að ég tel að þá verði að standa öðruvísi að mengunarvörnum en gert var þegar það álver var reist sem við erum nú að fjalla um hér í þessari fsp. Verður þá auðvitað tekið tillit til allra þeirra viðmiðunarmarka sem við hljótum að telja nauðsynleg og eðlileg til þess að tryggja að mengunarvarnir séu fullnægjandi og mengun frá slíku iðjuveri ekki meiri en það sem við getum sætt okkur við skv. gildandi lögum og reglum.