Vernd barna og ungmenna
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki fengið frv. í hendur frá endurskoðunarnefndinni, mun leggja það fyrir ríkisstjórnina strax og það er tilbúið. Svona er nú svarið í mjög stuttu máli en ég get vikið að fsp. með formlegum hætti og sagt: Það er spurt hvort ég muni leggja þetta frv. fram. Og ég legg það fram strax og ég fæ það í hendur.
    Í öðru lagi er spurt hvort ég muni leggja allt kapp á að leggja nýtt frv. til laga fyrir á yfirstandandi þingi? Svarið er auðvitað já.
    Ég fékk í hendur í apríl drög að frv. frá þessari nefnd, frumdrög sem nefndin lagði fyrir mig eftir að ég hafði gengið eftir því með talsverðum áýtingi. Nefndin taldið að frumvarpsdrögin eins og þau lágu fyrir þá væru ekki fullbúin af sinni hálfu. Ég óskaði engu að síður eftir því að frumvarpsdrögin yrðu á því stigi send til viðkomandi ráðuneyta til meðferðar, þ.e. félmrn. og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Nefndin féllst á það fyrir sitt leyti og ég lagði það fyrir ríkisstjórnina 20.--25. maí, eitthvað um það leyti, sl. vor. Ríkisstjórnin féllst á það og málið var sent til félmrn. annars vegar og dóms- og kirkjumálaráðuneytis hins vegar.
    Mér barst svar frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti seint í júlí og ráðuneytið gerði margvíslegar athugasemdir við frv. ( HBl: Nú er kominn annar ráðherra, hefur hann fengið það til umsagnar?) Ég reikna nú fastlega með því, því eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. veit er stjórnkerfið fjarska skilvirkt á flestum sviðum, ekki síst téð ráðuneyti.
    Síðan gerist það að formaður nefndarinnar kemur að máli við mig sennilega í septembermánuði og óskar eftir því að nefndin fái að halda áfram. Það var reyndar starfsmaður nefndarinnar, Sigríður Ingvarsdóttir, sem kom að máli við mig, en formaður nefndarinnar er Ingibjörg Rafnar, og þá er óskað eftir því að ráðherrann og ráðuneytið samþykki að nefndin fái að ráða sér starfsmann til að
ljúka við þetta sérstaka verk. Þeir starfsmenn sem boðið var að tækju verkið að sér voru nú ekki beint á Dagsbrúnarkaupi, þannig að það vafðist fyrir mér í nokkra daga að afgreiða málið, en ég gerði það samt. Og hef sem sagt lagt á það áherslu aftur og aftur að nefndin fari að skila af sér. Ég hef ekki viljað skipta um nefnd vegna þess að þetta fólk hefur náttúrlega verið að sinna verkinu og nefndarmennirnir hafa kynnt sér málin vel og víða og þess vegna hef ég talið eðlilegt að þrýsta á að hún skilaði til mín sínum endanlegu tillögum og það er enn. Það svar sem ég fæ frá nefndinni núna er að hún muni skila fullbúnum tillögum að frv. til laga um vernd barna og ungmenna í lok janúar. Ég skal svo gjarnan, ef málið verður þá ekki komið fram, svara fsp. enn á ný frá Kvennalistanum um málið í febrúar en ég vona að ekki verði þörf á því.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að ég hafi svarað fsp. eins og kostur er á miðað við aðstæður. Ég tel að hér sé um stórmál að ræða. Það sé mjög brýnt að

lausn fáist á þessu máli. Lögin um vernd barna og ungmenna eru úrelt að flestu leyti miðað við þær þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað. Þau eru frá 1966 og að stofni til frá 1947. Barnaverndarnefndir og það kerfi er í raun og veru afar gallað, afar ófullkomið og ræður ekkert við sín verkefni í mörgum tilfellum. Við fáum fjöldamörg dæmi inn til okkar þar sem barnaverndarnefndir í litlum byggðarlögum ráða ekki við málin af margvíslegum ástæðum, bæði fjárhagslegum ástæðum af því að barnaverndarnefndirnar hafa ekki fjárhagsleg úrræði og líka félagslegum ástæðum vegna þess að barnaverndarnefndirnar eru í návígi við það vandamál sem snertir viðkomandi barn eða fjölskyldu. Þetta er með öðrum orðum algjörlega úrelt kerfi og ég er reyndar sannfærður um það fyrir mitt leyti að það er í rauninni verra en að það sé úrelt og þar með sé þetta ónýtt pappírsgagn eins og lögin eru að talsverðu leyti. Málin eru svo alvarleg að margoft kemur það fyrir að ekki er hægt að veita viðkomandi börnum og unglingum viðhlítandi úrræði af því að ekki hefur verið tekið á málunum heildstætt með hliðsjón af öðrum lögum og reglum sem til eru í landinu m.a. um stofnanir sem eru til og hafa verið starfandi um nokkurt árabil. Löggjöfin hér á landi að því er varðar þjónustu við unglinga er afar götótt og ósamfelld. Að mínu mati ætti það að vera þannig að ráðuneyti eins og menntmrn., sveitarfélögin, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, heilbrrn., þessir aðilar allir tækju höndum saman varðandi þjónustu við unglinga sem eiga við margvísleg og flókin vandamál að stríða, ekki síst í þéttbýlissamfélaginu. Ég held satt að segja að þetta sé einn versti þátturinn í okkar stjórnkerfi hvað mönnum gengur illa að láta ráðuneyti og stofnanir vinna saman að lausnum sem snerta stóra þjóðfélagshópa. Það sannast vel í þessum málaflokki sem við erum hér að ræða.