Álver við Eyjafjörð
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Fyrsta opinbera ályktunin um nauðsyn þess að álver rísi við Eyjafjörð var gerð á fundi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri árið 1965 á mjög vandaðri ráðstefnu sem þá var efnt til um stóriðjumál. Síðan hefur hugmyndinni verið haldið vakandi og ég get t.d. rifjað upp að í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fór með málefni iðnaðarmála, var ekki minnst einu einasta orði á þennan möguleika svo að ég tók málið á þeim tíma upp á Alþingi og benti á að þá væri uppi tillaga um kísiljárnverksmiðju við Reyðarfjörð, um pappírsverksmiðju á Húsavík og fleira en Akureyrar var að engu getið á þeim tíma. Var þá fallist á þá hugmynd, ekki vissi ég betur en að víðtækt samkomulag yrði um að ef hugmyndir kæmu á nýjan leik upp um að nýtt álver yrði reist hér á landi yrði kostað kapps um að slíkt álver risi við Eyjafjörð. Að undanförnu hafa verið uppi hugmyndir um að álverið í Straumsvík yrði stækkað og hef ég ekki gert athugasemdir við það. Nú er á hinn bóginn komin upp sú staða að líkur benda til að góðir möguleikar séu á því að hér rísi nýtt álver, um 200 þús. tonn, sem mundi falla vel inn í þá byggð sem nú er við Eyjafjörð. Við Eyjafjörð býr um tíundi hluti þjóðarinnar, frá Ólafsfirði til Húsavíkur. Þar er margvísleg þjónusta fyrir hendi þannig að margföldunaráhrif þeirra verka sem unnin yrðu við álverið mundu njóta sín til fulls. Slíkt álver mundi af þeim sökum hafa mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun á þessu svæði auk þess sem álver við Eyjafjörð mundi staðfesta þá ákvörðun að reynt yrði að efna til þess byggðakjarna við Eyjafjörð að hann gæti boðið Reykjavíkursvæðinu birginn.
    Það gladdi mig mjög mikið þegar ég las það í Degi hinn 30. nóv. sl. að einn þeirra manna sem sæti eiga í ráðgjafarnefnd um orkufrekan iðnað, Guðmundur G.
Þórarinsson alþm., lýsti því yfir að Eyjafjörður væri besti kosturinn fyrir 185 þús. tonna álbræðslu og gaf mér tilefni til að bera fram þessa fsp. til þess að fá það staðfest að hugur þeirra sem að stóriðjumálum vinna nú, standi til þess að næsta álver rísi við Eyjafjörð.
    Spurt er: ,,Hefur verið unnið að því að nýtt álver rísi við Eyjafjörð?``