Álver við Eyjafjörð
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér á framfæri örfáum sjónarmiðum í þessu máli sem að vísu er miklu stærra en svo að hægt sé að fjalla um það í fyrirspurnatíma. Ég ætla fyrst að vitna til orða hæstv. iðnrh. á fundi sem hann vitnaði til norður á Akureyri í haust þar sem hann lagði málið upp þannig að fyrsta stig yrði stækkun álversins í Straumsvík. Þegar kæmi að sjálfstæðu nýju álveri yrði rætt um aðra staðsetningu og hann nefndi þar sérstaklega Eyjafjörðinn. Ég treysti því að iðnrh. standi við þessi orð sín, að þetta sé sá möguleiki sem verði skoðaður nú þegar forsendur hafa breyst þannig að ekki er lengur verið að ræða um stækkun á álverinu í Straumsvík.
    Hæstv. iðnrh. segir að þetta sé fyrst og fremst landsmál. Vissulega er það rétt, við verðum að leita nýrra leiða til að auka okkar landsframleiðslu. Hitt er það að á því viðkvæma byggðaþróunarstigi sem okkar þjóðfélag er núna þá gæti staðsetning nýs 200 þús. tonna álvers í Straumsvík haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í byggðamálum.
    Ég ætla að leyfa mér að vitna hér til ummæla eins virtasta sveitarstjórnarmanns á höfuðborgarsvæðinu, Sigurgeirs Sigurðssonar, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, þar sem hann segir að það sé mesta hagsmunamál, ekki bara landsins heldur höfuðborgarsvæðisins, að það takist á næstunni að efla Akureyri og Norðausturland sem verðugt mótvægi gegn höfuðborgarsvæðinu.
    Ég ætla, hæstv. forseti, að leyfa mér að syndga örlítið upp á náðina og minna hér líka á hugmynd sem Guðmundur G. Þórarinsson hefur hreyft í álviðræðunum núna, að við breyttar aðstæður komi Íslendingar inn sem eignaraðili á móti sænsku og hollensku fyrirtækjunum meðan leitað sé nýrra aðila. Það þýðir að mínu mati það að við hefðum meira vald á staðsetningu slíks orkuvers.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá legg ég á það mikla áherslu að athugunum á umhverfismálum í Eyjafirði, varðandi mengunarvarnir, verði hraðað sem mögulegt er því það er lykillinn að því að við getum rætt um staðsetningu þar.