Álver við Eyjafjörð
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda. Ég tel mjög mikilvægt að efla atvinnulíf við Eyjafjörð og vil gjarnan sjá þar miklu blómlegri byggð en þar er, þó að ég telji hana að sjálfsögðu mjög blómlega og mikilvægt það atvinnulíf sem þar er en það hefði mátt efla það mikið meira. En ég get ekki hugsað mér Eyfirðingum svo illt að þar muni rísa álver eða annað stóriðjuver. Það væri mjög miður ef ímynd Eyjafjarðar yrði sú að þar mundi rísa stóriðjuver, kannski fleiri en eitt og fleiri en tvö. Það eru margar ástæður fyrir því að vera á móti stóriðju, að sjálfsögðu mengunarmálin eins og hv. síðasti ræðumaður talaði hér um, auk sjónmengunar og ýmislegs fleira. Mér finnst það mjög einkennilegt mat þegar hæstv. iðnrh. kemur hér fram og telur stóriðjumál vera eitt af brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar.