Álver við Eyjafjörð
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra hans svör. Ég leyfi mér að skilja þau svo að hann muni leggja höfuðáherslu á að næsta álver rísi við Eyjafjörð. Ég skildi hann svo að hann ætlaði að taka það mál upp við þá aðila sem nú er verið að ræða við. Ég er líka þakklátur fyrir það að nú skuli önnur athugun fara fram á því hvort mengunarhætta stafi af slíku álveri. Sú fyrri leiddi í ljós að svo sé ekki og ég er ekki í vafa um að hin síðari muni gera það líka.
    Til viðbótar því sem síðasti ræðumaður sagði, hv. 1. þm. Norðurl. e., má minna á að bæjarstjórn Akureyrar hefur gert mjög ákveðnar ályktanir um þessi efni og ég fullyrði að vonir Eyfirðinga og Norðlendinga standi nú til þess að næsta álver rísi við Eyjafjörð, ef maður sleppir hv. 6. þm. Norðurl. e., Stefáni Valgeirssyni, sem er orðinn einfari upp á síðkastið.
    En um leið og þýðingarmikið er fyrir okkur að álver rísi við Eyjafjörð --- og ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, við stóðum með Reyðfirðingum um það að minni gerð stóriðju, kísilmálmverksmiðja, kæmi við Reyðarfjörð, en töldum á móti að það væri sjálfgert að Austfirðingar stæðu með okkur um svo stórt álver sem nú er verið að tala um, þá tel ég ástæðulaust að vera eitthvað að rugla málið þannig. Um þetta hafði tekist samstaða milli fjórðunganna, óformleg að vísu, þannig að ég hygg að Reyðarfjörður sé ekki í myndinni að þessu sinni. Ég lít svo á.
    Þá vil ég minna á að annað mikið hagsmunamál Norðlendinga bíður nú afgreiðslu í ríkisstjórninni. Hæstv. utanrrh. lýsti því yfir fyrr á þessu ári að ákvörðun yrði tekin um það nú fyrir áramót að hagkvæmniathugun yrði leyfð á varaflugvelli hér á landi á kostnað Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins.
    Ég geng út frá því að staðgengill hæstv. utanrrh. geti staðfest það hér og nú að þetta leyfi verði veitt nú í desembermánuði. Þessi mál bæði eru mikil
hagsmunamál fyrir okkur Norðlendinga og ég lýsi ánægju minni yfir að ég skildi hæstv. iðnrh. svo að full samstaða væri um það innan ríkisstjórnarinnar að álver gæti risið í Eyjafirði ef samningar tækjust um það. Alþb. hefði fallist á það. Ég væri á hinn bóginn mjög þakklátur ef iðnrh. gæti gefið samsvarandi yfirlýsingu varðandi Mannvirkjasjóðinn.