Álver við Eyjafjörð
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. lagði mér hér orð í munn. Ég ætla að stytta það svolítið sem hann vitnaði til mín. Það sem ég lagði höfuðáherslu á er að nýtt álver rísi. Það er málið. Staðsetningin, svo mikilvæg sem hún er, kemur í annarri röð. Ég get tekið undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram að það sé einnig ákaflega mikilvægt byggðamál hvar slíkt álver verður staðsett. En ég ítreka þá skoðun sem ég lýsti fyrr að í þessu máli þurfi að hugsa stærra, taka meira fyrir til þess að sætta byggðasjónarmiðin í málinu og til þess að ná þeirri breikkun á framleiðslugrundvelli þjóðarbúsins sem við þurfum svo sárlega nú.
    Ég hlýddi með athygli á þau sjónarmið sem hér komu fram, m.a. hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. og 1. þm. Norðurl. e., einkum hversu mikilvægt byggðasjónarmiðið er í málinu. Þá eru áskoranir frá verkalýðsfélögum og samtökum við Eyjafjörð vissulega ekki óheyrðar. Á þær er grannt hlustað. En þetta er mál sem við þurfum að nálgast fyrst og fremst með þjóðarhagsmuni fyrir augum. Staðarvalið er þar mjög mikilvægt mál en ekki málið allt.
    Ég vildi vegna þess sem fram kom hér hjá hv. 2. þm. Austurl. um þjóðhagslega hagkvæmni þessarar fyrirhugaðrar framkvæmdar geta þess að síkt mat hefur farið fram, verður senn gert heyrinkunnugt. Þetta mat er reyndar vel þekkt í sínum meginstærðum. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hér. Og eins vil ég segja vegna þess sem fram kom í athugasemd hv. 6. þm. Norðurl. e., þar sem hann sagði að það væru ekki tæmandi upplýsingar til um áhrif á umhverfi Eyjafjarðar frá álveri sem þar yrði staðsett, þá er það rétt hjá hv. þm. En það er unnið kappsamlaga að slíkri könnun og ég tók sérstaklega eftir því að hv. 5. þm. Norðurl. e., bóndinn frá Eyjafirði sem réttilega var hér nefndur, lagði á það áherslu í sínu máli.