Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að starfsmaður þingsins hafði við mig samband í gær um það hvort ég sætti mig við að þessari fsp. yrði ekki svarað í dag og ég sagðist ekki sætta mig við það.
    Ég vil í annan stað taka fram að svarið við fsp. á að liggja fyrir í fjmrn. Ég bað starfsmann Alþingis um að afla tiltekinna upplýsinga í fjmrn. Starfsmaðurinn gaf mér þessar upplýsingar. Ég fer fram á það með þinglegum hætti að hæstv. ráðherra staðfesti að upplýsingarnar séu réttar þannig að það er ekki tímaskortur sem veldur þessu. Þessar upplýsingar liggja fyrir í ráðuneytinu. Ég get því miður ekki kallað vitnaleiðslu hér í þingsalinn. Starfsmenn þingsins hafa ekki málfrelsi hér og eru ekki skyldugir til að koma hér í beina yfirheyrslu, en ég hef svarið undir höndum.
    En vegna þess að þetta mál varðar tvo ráðherra, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., og af því að ég hef knúið fram yfirlýsingu í Ed. um að þessar greiðslur eigi að endurgreiða samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar og af því að ég hef fengið loforð um það í Ed. að þær verði endurgreiddar, það var hlutur í samkomulagi sem gert var á sl. vori um vinnubrögð í þinginu, þá fer ég fram á það að þessu verði svarað nú fyrir jólin. Ég get ekki séð annað en ef t.d. væri gefið bara 10 mínútna fundarhlé til þess að ráðherrann gæti sent sendisvein upp í ráðuneyti eftir upplýsingunum, þá liggja þær fyrir. Þetta er ekki flóknara mál heldur en það. Ég ítreka því það sem ég sagði: Þá er fokið í flest skjól ef þingmenn geta ekki einu sinni fengið svar við einföldum spurningum með þinglegum hætti.