Skuldir ríkissjóðs við sveitarfélög
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem ég ber hér fram var lögð fram í sameinuðu þingi 28. nóv. og hafði ég reyndar vænst þess samkvæmt reglum í þingsköpum að hún yrði tekin á dagskrá sl. fimmtudag hér í Sþ., þ.e. 7. des. Eins og fram hefur komið í umræðu um fjárlagafrv. eru óvenjumargir og stórir óvissuþættir í því enn þá. Eitt það mikilvægasta er hvernig staðið verður að uppgjörsþættinum í verkaskiptalögunum við sveitarfélögin.
    Uppgjörið er ófrávíkjanlegur hluti af heildarsamkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa nú lengi verið í óvissu um þessi mál og flugufregnir hafa borist af því að verið sé að hugleiða lengingu uppgjörstímabilsins og jafnvel að láta það niður falla á komandi ári. Hvorki við 1. eða 2. umr. fjárlaga komu fram neinar tölur um þá fjárhæð sem ætluð er til uppgjörsins og var það ástæða fsp. minnar til hæstv. fjmrh. sem er að finna á þskj. 215.
    Nú hefur hv. formaður fjvn. lýst því yfir við 2. umr. um fjárlög að ekkert verði tekið á þessum uppgjörsmálum fyrr en við 3. umr. Ég vil samt spyrja hæstv. fjmrh. hvers vegna tölur varðandi uppgjörið voru ekki birtar á fyrri stigum í umfjöllun fjvn. og þingsins um fjárlagafrv.