Aðbúnaður þingmanna í þingsal
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég bið um orðið er sú að ég sit hér við hurð sem liggur að reykherbergi þingsins. Reykherbergið er mikið notað, þar er teflt, spjallað og horft. Hurðin er iðulega opin og það leggur þykkan mökk af reyk í þingsalinn. Oft er um að ræða bæði daunillt og ódýrt tóbak og fer þetta mjög fyrir brjóstið á mér þar sem ég hef nánast ofnæmi fyrir tóbaki og mundi gjarnan vilja fá að ráða mínum dauðdaga sjálfur eins nærri því og ég get komist. Þess vegna óska ég eftir því, hæstv. forseti, að þessari hurð verði lokað að staðaldri meðan þingfundir eru þannig að við sem ekki kærum okkur um tóbaksreyk getum fengið að sitja hér í þingsölum í friði, ellegar þá að tóbaksreykingar verði leyfðar í þingsalnum þannig að við getum flúið inn í tóbaksherbergið undan reyknum. Alla vega óska ég eftir því að dyrunum verði lokað á meðan þinghald stendur yfir þannig að þingmenn þurfi ekki að sitja undir þessum reykjarmekki.