Tæknifrjóvganir
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Félmn. leggur fram svofellt álit varðandi þáltill. um tæknifrjóvganir:
    ,,Nefndin hefur rætt tillöguna og sendi hana til umsagnar landlæknis og Tryggingastofnunar ríkisins (tryggingaráðs). Mæla báðir þessir aðilar með samþykkt tillögunnar.
    Þá hafði nefndin samband við Ólaf W. Stefánsson, formann nefndar sem skipuð var 28. júlí 1986 vegna ályktunar Alþingis frá 25. mars 1986 um réttaráhrif tæknifrjóvgana. Hlé hefur orðið á starfi þeirrar nefndar, en á vegum hennar hefur verið aflað gagna um stöðu mála, m.a. í nágrannalöndum, og álitaefni sem komið gætu að gagni við undirbúning að lagasetningu.
    Með hugtakinu ,,tæknifrjóvgun`` er átt við bæði tæknisæðingu og glasafrjóvgun.
    Ráðgert er að hefja á árinu 1990 glasafrjóvgun á Landspítalanum, en frá ársbyrjun 1988 hefur verið í gildi samningur til þriggja ára milli Tryggingastofnunar og Bourn Hall Clinic á Englandi um að Íslendingar geti leitað þangað um glasafrjóvganir. Með tilkomu aðstöðu hérlendis má búast við að þeim fjölgi til muna sem leita eftir tæknifrjóvgun. Af þeim sökum m.a. telur nefndin æskilegt að hraðað verði lagasetningu og undirbúningi að reglum um tæknifrjóvganir og að frv. um það efni verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en haustið 1990.
    Nefndin mælir með samþykkt till. með breytingu sem tillaga er um á sérstöku þskj.``
    Undir þetta rita allir hv. nefndarmenn félmn.
    Á þskj. 301 er svofelld brtt. frá félmn. við þáltill. um tæknifrjóvganir:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja hið fyrsta fyrir Alþingi frv. til laga um tæknifrjóvganir, m.a. að því er varðar réttarstöðu og tryggingamál þeirra sem hlut eiga að máli.``