Eftirlaun til aldraðra
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karvel Pálmasyni fyrir það sem hann sagði. Þetta er allt satt og rétt. En varðandi það hvort ætti að framlengja um eitt eða tvö ár, þá vil ég segja fyrir mitt leyti að ég átti aðild að því á sínum tíma ásamt öðrum úr verkalýðsforustunni að fara þessa leið. Og ég tók það skýrt fram hér áðan í minni ræðu að ég hef ekkert breytt um skoðun í þeim efnum. Það verður að halda áfram að styrkja það fólk sem hér um ræðir sem er í þeim sjóðum sem geta ekki axlað þetta sjálfir með þeim hætti efnislega sem frv. gerir ráð fyrir. En ég hefði talið, eins og ég sagði í minni ræðu, og tel að það hefði ekki átt að framlengja þessu lagalega séð í tvö ár, alls ekki. Þar fyrir utan hefði það verið algjör lágmarkskrafa af hálfu okkar sem stöndum í þessu að eitthvað hefði verið við okkur rætt um þessi mál áður en þetta frv. var lagt fram. Það var auðvitað ekki gert. Það var ekki talað við Lífeyrissjóð sjómanna. Það var ekki talað við Lífeyrissjóð verslunarmanna, það var ekki talað við Lífeyrissjóð samvinnustarfsmanna og ég get talið upp 2--3 sjóði í viðbót sem öxluðu 50--60% af allri greiðslubyrðinni. Nei, það var ekki gert. Og þrátt fyrir að menn vita það hér að þetta mál hefur yfirleitt alltaf fengið jákvæða umfjöllun hjá forustumönnum þessara sjóða vegna þess að þeir hafa viljað standa með sínum félögum. --- Hæstv. sjútvrh. er nú að færa sig til í salnum. Hann spurði áðan hvort þingmaðurinn vildi telja þá upp, átti ég að skilja það þannig að hann ætti við þá sem hefðu verið vinveittir verkalýðshreyfingunni eða óvinveittir eða tómlátir gagnvart henni? (Gripið fram í). Spursmálið er, hvað fólst í spurningu ráðherra. (Gripið fram í.) Ég skal segja ykkur það, þetta er afskaplega einfalt mál. ( HBl: 63 nöfn.) Það er að vísu ekki nóg að tala fyrir einhverju máli. Menn verða auðvitað að sinna því líka og fylgja því eftir úti á vettvangi og ég ætla þess vegna að svara þessu óbeint. Svo getur hæstv. sjútvrh. svarað mér ef hann vill: Hvað skyldu
vera margir hv. alþm. sem taka þátt í störfum verkalýðshreyfingarinnar og sinna henni með þeim hætti að hægt sé að tala um að þeir séu að tala hér yfirleitt máli verkalýðsins? Þá á ég sérstaklega við það fólk sem er úti á hinum almenna vinnumarkaði. Svo geta menn bara skoðað þingtíðindi og flett upp í málum og svarað sér sjálfir. Ég held að það séu því miður allt of fáir sem tala máli verkalýðshreyfingarinnar, hins almenna launamanns á Íslandi hér á hinu háa Alþingi. Ég stend við það og vísa til þeirra sönnunargagna sem liggja hér fyrir skjalföst.