Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Frsm. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):
    Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir nál. á þskj. 314 um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla. En í nál. segir:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Umsagnir bárust frá útvegsmannafélögum Austfjarða, Norðurlands, Reykjavíkur, Snæfellsness, Suðurnesja og Vestfjarða, Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, verkalýðsfélögunum á Snæfellsnesi og Alþýðusambandi Suðurlands. Til viðræðna voru fengnir Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands, Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Kristján Ragnarsson frá LÍÚ, Karl Steinar Guðnason frá Verkamannasambandi Íslands, Logi Þormóðsson frá Fiskmarkaði Suðurnesja og Brynjólfur Bjarnason frá Granda hf.``
    Eftir mjög gagnleg skoðanaskipti milli viðmælenda og innan nefndarinnar leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir nál. rita Stefán Guðmundsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Jóhann Einvarðsson, Halldór Blöndal, Skúli Alexandersson, Karvel Pálmason og Guðmundur H. Garðarsson.