Fiskveiðasjóður Íslands
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir nál. á þskj. 312. Það er nál. um frv. til laga um viðauka við lög nr. 44 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, frá meiri hl. sjútvn. En í nál. segir:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Til viðræðna voru kallaðir Sveinn Finnsson frá Fiskimálasjóði, Þorsteinn Gíslason fiskimálastjóri, Kristján Ragnarsson frá LÍÚ, Már Elísson frá Fiskveiðasjóði og Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva. Í viðræðum þessum kom fram sú skoðun að nauðsyn bæri til að lán væru einnig veitt af deildinni til markaðsmála og að deildinni væri markaður ákveðinn tekjustofn til styrkveitinga. Hefur meiri hl. nefndarinnar ákveðið að flytja breytingartillögu þar um.``
    Þessi brtt. frá meiri hl. sjútvn. liggur fyrir á þskj. 313. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 1. gr. Greinin orðast svo:
    Við Fiskveiðasjóð Íslands skal starfa sérstök þróunardeild er hefur það hlutverk að veita lán til markaðsmála, rannsókna og þróunarverkefna á öllum sviðum sjávarútvegs. Deildinni er heimilt að veita styrki í sama tilgangi. Í því skyni er stjórn Fiskveiðasjóðs heimilt að leggja deildinni árlega til allt að 1% af eigin fé sjóðsins.``
    Meiri hl. nefndarinnar mælir sem sagt með samþykkt frv. með þessum breytingum. Fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. alþm. Halldór Blöndal en hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir skilar séráliti. Undir þetta nál. skrifa Stefán Guðmundsson, Karvel Pálmason, Guðmundur H. Garðarsson, Jóhann Einvarðsson og Skúli Alexandersson.