Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 332 og einnig fyrir brtt. sem fluttar eru af okkur tveimur þingkonum Kvennalistans í Ed. á þskj. 333.
    Þær breytingar, sem þetta frv. boðar, varða fyrst og fremst undanþágur frá virðisaukaskatti, hækkun skattprósentu og refsiálags svo og ýmsar tæknilegar útfærslur á framkvæmd skattheimtu og skilum virðisaukaskatts.
    Annar minni hl. telur margt gagnrýni vert við frv. og fyrirhugaða gildistöku laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þann 1. jan. 1990. Vegur þar þungt hve vanbúið málið er og ekki síður að enn skuli ætlað að leggja skatt á nauðþurftir eins og matvæli. Því getur 2. minni hl. ekki unað og leggjum við þingkonur Kvennalistans fram brtt. um að fallið verði frá skattlagningu matvæla. Brtt. er á þskj. 333 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, og er við 1. málsl.:
    ,,Við 1. gr. A-liður orðist svo:
    1. málsl. 1. mgr. orðist svo:
    Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, sbr. þó 12. gr., nema matvöru sem er undanþegin virðisaukaskatti.``
    Ef sú brtt. nær ekki fram að ganga munum við þingkonur Kvennalistans leggja til að frv. verði fellt.
    Eins og áður hefur komið fram kom fjöldi manns til viðræðna meðan frv. var til umfjöllunar í fjh.- og viðskn. Voru þar á ferð um 50 fulltrúar ýmissa hagsmunaaðila sem kynntu erindi sín. Jafnframt bárust nefndarmönnum erindi vegna væntanlegrar gildistöku virðisaukaskatts frá fjölda annarra hagsmunaaðila. Ríkisskattstjóri, fulltrúar frá fjmrn. og frá Ríkisendurskoðun sátu síðan fundi nefndarinnar og veittu nefndarmönnum og gestum nefndarinnar þær upplýsingar sem þeir gátu veitt og óskað var eftir.
    Það kom fram hjá nær öllum gestum nefndarinnar að þeim þótti undirbúningur málsins ónógur fyrir þá viðamiklu skattkerfisbreytingu sem í vændum er. Gilti þá einu hvort menn aðhyllast virðisaukaskattinn eða ekki. Það er ljóst að þekkingu á framkvæmd virðisaukaskatts er mjög ábótavant meðal þeirra u.þ.b. 25 þúsund aðila sem verða skattskyldir um áramótin og á það ekki síst við um smærri fyrirtæki og einyrkja. Stærri fyrirtækin hafa eins og aðrir beðið eftir síðbúnum ákvörðunum stjórnvalda og eru almennt ekki farin að breyta t.d. tölvukerfum og forritum sínum í samræmi við gildistökuna en óvissan hefur tafið framkvæmdirnar mjög. Það er reyndar ámælisvert að tefja flóknar og viðamiklar kerfisbreytingar með pólitískri togstreitu um veigamikla þætti en steypa þeim síðan yfir þjóðina í tímaþröng. Og segja má að vantrauststillagan, sem flutt var hér í þinginu nú á dögunum, hafi e.t.v. verið sá hvati sem þessi ríkisstjórn þurfti til þess að koma sér að því að taka ákvörðun í málinu, þó ekki væri nema til að ákveða skattprósentuna.

    Það kom fram á fundum nefndarinnar að þekkingu margra þeirra sem kallaðir munu til ráðgjafar og leiðbeiningar, má þar t.d. nefna ýmsar stéttir eins og lögfræðinga og endurskoðendur þó að flestir séu reyndar farnir að undirbúa sig, er almennt einnig ábótavant. Það hefur í raun ekki tekist, að mati flestra sem við töluðum við, að miðla upplýsingum nema að mjög takmörkuðu leyti þrátt fyrir þá rúmlega 70 fundi, eða hvað þeir voru margir sem hæstv. ráðherra gat um að haldnir hefðu verið á vegum ráðuneytisins. Og þrátt fyrir mikið annríki starfsmanna hans, sem ég efa ekki að hafa allir lagt sig fram eftir bestu getu um að fræða menn, er þetta svo viðamikið verk að það verður ekki unnið á nokkrum vikum.
    Nú eru reyndar aðeins rétt rúmar tvær vikur til gildistöku laganna og enn eru reglugerðir ekki fullfrágengnar eins og komið hefur fram hér í umræðunum. T.d. vantar enn tölur í reglugerð um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna matvöru sem er endurgreidd að hluta. Margt er einnig óljóst um áhrif þessarar kerfisbreytingar, t.d. á verðlag og þróun niðurgreiðslna búvara á næsta ári, og urmull er enn af óskilgreindum markatilvikum sem varða rétt og stöðu fólks og jafnvel heilla greina gagnvart skattheimtunni.
    Það má sem dæmi taka dansinn sem nefndur var hér áðan. Til nefndarinnar komu fulltrúar frá Dansráði Íslands en dansinn er einmitt dæmi um það hversu oft er erfitt að finna mörkin og skilgreina. Ég skil vel vanda þeirra sem þurfa að gera það, en hins vegar er slíkt eitthvað sem þarf að eiga sér stað mun fyrr en það hefur gerst. List er undanþegin virðisaukaskatti að vissu marki, og er það vel, í frv. sem hér er til umræðu. Og það má segja að dansinn sé list, en hann er samt ekki undanþeginn. Íþróttir eru undanþegnar í þessu frv., t.d. almenningsíþróttir, og vissulega ber að lofa það, en segja má að dansinn sé einnig íþrótt en samt er hann ekki undanþeginn. Heilsuræktarstöðvar, líkamsrækt er undanþegin og vissulega er dansinn líka heilsurækt en samt er hann ekki undanþeginn. Þessi iðkun fellur því og verður utanveltu við það undanþágukerfi sem sett hefur verið upp, einungis á þeim forsendum að Dansráð
Íslands er ekki meðlimur í Íþróttasambandi Íslands, hefur ekki kosið að vera það. Þetta er dæmi um skilgreiningarvandann sem embættismenn og aðrir standa frammi fyrir og hafa haft mjög nauman tíma til að afgreiða.
    Annað dæmi sem taka má er t.d. um endurgreiðslu virðisaukaskatts í sambandi við mötuneyti sem var minnst á áðan, mötuneyti sem rekin eru á vegum vinnuveitenda. Ég tek líka dæmi af lögfræðiþjónustunni. Henni hefur ekki enn verið sinnt þó að ég hafi ástæðu til að ætla að það sé í athugun. Það hefur komið fram í máli manna hér áður að aðrar þjóðir, Norðurlandaþjóðirnar, hafa t.d. við upptöku virðisaukaskatts tryggt það að almenningur eigi aðgang að ódýrari lögfræðiþjónustu fyrir algengustu mál sem fólk þarf að reka fyrir rétti eða leita til lögfræðinga út af. Má sem dæmi nefna að Norðmenn hafa valið þá leið að undanþiggja lögfræðinga algjörlega

virðisaukaskatti af þessum
sökum. Danir leggja ákveðið fé til hliðar fyrir algeng mál, þ.e. til að kosta rekstur algengra mála í gegnum réttarhjálp sem kölluð er, svo að tryggja megi þessi grundvallarmannréttindi fyrir þá sem eru efnalitlir. Svíar hafa stofnað félagslegar lögfræðistofur þar sem ríkisstarfsmenn hafa unnið að þessum málefnum. Ég tel brýna nauðsyn bera til þess að skilgreina einmitt hvernig á að gefa fólki kost á ódýrari lögfræðiþjónustu fyrir öll algeng mál, sérstaklega þegar um efnalítið fólk er að ræða.
    Það er óhætt að segja að í þessu máli séu margir lausir endar og ótal spurningum enn ósvarað þó að ég hafi aðeins tekið hér fáein dæmi. En það er líka mikilvægt að tekið verði tillit til þess hve vanbúinn þorri manna er til að mæta virðisaukaskattskerfinu en refsiákvæði þess eru nokkuð ströng og lögð til herðing á þeim í frv., þau gefa lítið svigrúm. Það er því nauðsynlegt að leiðbeina mönnum fremur en að refsa þeim meðan byrjunarerfiðleikar eru mestir eða fresta beinlínis refsiákvæðum um nokkra mánuði. Reyndar væri ekki heldur vanþörf á að fresta málinu öllu.
    Ég vík nú næst að skattlagningu matvæla. Í frv. eru einungis lagðar til mjög takmarkaðar breytingar á skattlagningu matvæla sem er alvarlegur galli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Matarskatturinn kemur daglega niður á öllum Íslendingum og verst auðvitað á þeim lægst launuðu. Það er margvitað og margumrætt. En ég vil beina athyglinni að ferðamálunum, sem hér var minnst á áðan, því að ríkisstjórninni hefur einmitt tekist að fæla erlenda ferðamenn frá landinu eða gera þeim erfiðara um vik vegna hins háa matvælaverðs. Ég hef sjálf heyrt um það kvartað og mér hefur borist það til eyrna sérstaklega frá þeim sem sinna ferðamönnum að þeim þyki matur óheyrilega dýr á Íslandi. Þetta hefur einmitt komið sér mjög illa fyrir þá sem stunda veitingarekstur. Það heyrðum við líka á fundum nefndarinnar.
    Það er lagt til að endurgreiða skuli hluta virðisaukaskatts af nokkrum tegundum matvæla, þ.e. neyslumjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti þannig að skattgreiðslur verði sem næst 14% í stað 24,5%. Endurgreiðslur á svo að fjármagna með um 900 millj. kr. á næsta ári.
    Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Í athugasemdum með frv. er talað um að reikna megi með að til þessa þurfi um 1000 millj. kr. á heilu ári. Hins vegar er jafnframt sagt í frv. að á næsta ári verði varið 900 millj. kr. Hvernig má það vera að hæstv. ráðherra reikni með lægri tölu fyrsta árið en síðar kunni að verða? Ég fæ það ekki alveg til að ganga upp og vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra. Ég vona að hann stingi þessu bak við eyrað því að hann virðist ekki skrifa það hjá sér.
    Jafnvel ígildi 14% virðisaukaskatts er hærri skattlagning á matvæli en gerist hjá allflestum ríkjum Evrópubandalagsins. Og ég vil einmitt vegna þess sem hér hefur verið rætt áður telja upp skattprósentu á matvæli í þessum helstu löndum Evrópubandalagsins.

    Það er þá fyrst að nefna að í Belgíu eru nokkur skattþrep og hæsta skattþrepið er 25%, en matvörur eru með 6% virðisaukaskatt. Í Danmörku þar er skattprósentan 22% og matvæli eru skráð með 22% virðisaukaskatti, en vera kann að þar gangi niðurgreiðslur til þess að lækka matvæli eins og minnst var á hér áðan. Í Vestur-Þýskalandi er hæsta skattprósentan 14% en 7% á matvælum. Á Spáni er hún hæst 12% en 6% á matvælum. Í Frakklandi er hún hæst 28% en 5,5% á matvæli. Í Grikklandi er hún hæst 36% og 6% á matvæli. Á Írlandi er hún 25% hæst og ýmist engin eða 25% á matvæli og fer það eftir tegundum. Á Ítalíu eru nokkuð mörg skattþrep, hæst 38% en 4--9% á matvælum. Í Lúxemborg er hæst skattprósenta 12 en 3 eða 6% á matvælum. Í Hollandi er hæst skattprósenta 18,5 og 6% á matvælum. Í Portúgal er hæst skattprósenta 30% en ýmist engin eða 8% á matvælum. Og í Bretlandi er hæst skattprósenta 15 en engin á matvælum. Það eru því Danmörk og Írland sem hafa hæsta skattprósentu en hafa jafnframt niðurgreiðslur eða enga skattprósentu á sumum matvælum. Öll hin löndin hafa ýmist enga eða mun lægri skattprósentu á matvæli. Ég bið menn að íhuga þetta vandlega þegar verið er að taka jafnafdrifaríkar og hættulegar ákvarðanir, að mínu mati, um að skattleggja matvæli hér á landi. Hér leggst þessi skattprósenta nefnilega á matvælaverð sem er hærra en í flestum nágrannalöndum okkar.
    Kaupmáttarskerðingin hefur orðið talsverð á sl. ári eða allt að 13--14% og endurgreiðslurnar eru aðeins, og ég legg áherslu á það, af nokkrum tegundum matvæla. Aðrar bera fullan skatt eða 24,5% án tillits til hollustu. Má þar t.d. nefna ávexti og kornmat en vænta má að brauð sé stærri hluti en dilkakjöt af neyslu þeirra sem hafa lægri tekjur og því má gagnrýna þá neyslusamsetningu sem valin hefur verið til undanþágu. Sýna þessi dæmi hve fáránlegt er að velja úr vissar matartegundir til undanþágu en sleppa öðrum. Einnig má gagnrýna þá pólitísku neyslustýringu sem mismunar tegundum kjöts með skattlagningu eins og hér er lagt til. Slíkt getur orðið hvati að kröfum um innflutning á vissum landbúnaðarafurðum, t.d. kjúklingum og svínakjöti, til að lækka vöruverð, sérlega þegar kaupmáttarskerðing blasir við öllum almenningi. Það býður hættunni heim fyrir íslenskan landbúnað að opna þessa gátt og gæti leitt til innflutnings á fleiri landbúnaðarvörum.
    Spáð hefur verið verðlækkun á matvörum í janúar, jafnvel fram í febrúar, í kjölfar endurgreiðslu virðisaukaskatts. Hins vegar má búast við a.m.k. 5--6% hækkun á búvörum, umfram verðlag, vegna lækkunar niðurgreiðslna um 550 millj. á næsta ári. Þróun verðbólgu og margir aðrir óvissuþættir geta svo orðið þess valdandi að þær 900 millj. kr. sem ætlaðar eru í endurgreiðslur nægi ekki á næsta ári, jafnvel heldur ekki þó að þær yrðu 1000 millj. Allt er einnig óljóst um feril niðurgreiðslna á næsta ári og fengust engar áreiðanlegar upplýsingar um það í nefndinni, ekki síst vegna þess að ekki liggja fyrir ákvarðanir stjórnvalda í þessum efnum og öll þróun verðlags mjög óviss. Því

er ógerningur að segja nokkuð til um þróun matvælaverðs. Er þess skemmst að minnast að sú niðurgreiðsla sem ákveðin var á söluskatti af fiski hefur alls ekki haldist að raunvirði.
    Þegar núv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, var fjmrh. flutti hann frv. til laga um virðisaukaskatt og þá undir slagorðinu ,,einfalt, réttlátt og skilvirkt``. Sú aðferð sem hér er lögð til við skattlagningu og endurgreiðslu hluta skatts af matvælum er ekkert af þessu þrennu. Hún er hvorki einföld, réttlát né skilvirk og má búast við að endurgreiðslur skili sér alls ekki sem skyldi. Mun einfaldara, miklu réttlátara og sýnu skilvirkara væri að sleppa alveg skattlagningu matvæla. Afnám matarskattsins mundi skila sér til ríkissjóðs vegna annarrar neyslu. Það mundi líka létta verulega á heimilum landsins og skila sér þannig á jákvæðan hátt út í þjóðfélagið. Ég hlýt að leggja enn og aftur áherslu á að neysla matvæla er einn stærsti kostnaðarliður efnalítilla og barnmargra fjölskyldna og því í eðli sínu óréttlátur skattur eins og svokallaðir flatir skattar jafnan eru. Hæstv. fjmrh. má ekki gleyma því að það er ekki hægt að skattleggja hundraðshöfðingjann til jafns við ekkjuna. Það verður ævinlega að taka tillit til aðstæðna. Þetta er grundvallaratriði og einmitt þess vegna gengur skattur á matvæli ekki upp.
    Óhætt er að segja að mikil óvissa ríki í raun um heildaráhrif virðisaukaskatts á verðlag þó að ýmsir útreikningar bendi til hreinna lækkunaráhrifa á ákveðnum þáttum. Ekki er víst að þeir verði hemill á verðhækkanir að því marki sem menn áætla. Heildaráhrifin geta því allt eins orðið almennar verðhækkanir, en það hefur einmitt verið reynsla annarra þjóða sem taka upp virðisaukaskatt. Því er t.d. spáð að aukin fjárbinding fyrirtækja í verslun og iðnaði vegna skorts á gjaldfresti við innflutning (t.d. í tolli) muni leiða til hærra vöruverðs, a.m.k. um 2%, og er það viðurkennt bæði af fulltrúum verslunar og iðnaðar og einnig af fulltrúum fjmrn. En sumir spá jafnvel meiri hækkun, allt að 4%, og er ekki laust við að nokkurs kvíða gæti jafnvel og ekki síður hjá þeim sem mest hafa unnið að undirbúningi frv. Ríkisendurskoðun lét í ljós eftirfarandi álit á endurgreiðslu virðisaukaskatts af nokkrum tegundum matvæla sem ég vil vitna til, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér er ekki um sérstakt skattþrep að ræða að mati Ríkisendurskoðunar og er slíku reyndar hvergi haldið fram í frv. sjálfu. Endurgreiðslan er í eðli sínu skyldari niðurgreiðslu en sérstöku skattþrepi eða hefðbundinni skattundanþágu. Því verður að mati Ríkisendurskoðunar ekki hjá því komist að kveða með einhverjum hætti á um endurgreiðsluna í fjárlögum nái frv. fram að ganga. Í þessu sambandi sýnist tvennt koma til greina. Annars vegar að greina frá endurgreiðslunni í tekjuhlið fjárlaganna, þ.e. með því að sýna hana sem tiltekna fjárhæð, er dregst frá heildartekjum af skattinum, eða hins vegar að mæla fyrir um endurgreiðsluna á útgjaldahlið fjárlaga með líkum hætti og niðurgreiðslur en sérstaklega tilgreinda þó.`` Og fulltrúi Ríkisendurskoðunar segir áfram, og ég

vitna: ,,Hvernig svo sem framsetningu þessa liðar í fjárlögum yrði háttað er að mati Ríkisendurskoðunar engu að síður ljóst að stjórnvöld gætu ekki án lagabreytinga (verði frv. að lögum) vikist undan því að gera grein fyrir þessum fjárútlátum í fjárlögum með einhverjum hætti og endurgreiða skattinn í samræmi við raunverulega sölu á umræddri matvöru á því stigi þar sem endurgreiðslan fer fram.``
    Þykir 2. minni hl. mikilvægt að þessi athugasemd verði tekin til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar ef frv. verður samþykkt.
    Í frv. er lagt til að sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem
þýddra, verði undanþegin virðisaukaskatti. Er það vel og geta þingkonur Kvennalistans stutt þá tillögu enda í samræmi við brtt. sem við fluttum við frv. til laga um virðisaukaskatt vorið 1988. Þá er sá galli á gjöf Njarðar að þessu ágæta ákvæði er ekki ætlað að taka gildi fyrr en 16. nóv. 1990. Það kemur illa niður á námsfólki sem þarf að kaupa námsbækur sínar í september eins og margoft hefur komið fram. Að vísu má endurnýta sumar bækur og lána og kaupa á skiptimarkaði. Hins vegar er þó ávallt tekið upp nýtt námsefni og nokkuð ört þannig að hætt er við því að margir nemendur og einkum þá þeir efnaminni bíði með bókakaup þar til eftir miðjan nóvember. 2. minni hl. telur að slíkt muni spilla námi skólafólks og leggur því fram brtt. um að flýta þessu ákvæði fram til 1. sept. 1990. Samkvæmt grófum áætlunum frá fulltrúum fjmrn. má ætla að tap ríkissjóðs vegna þessarar skattheimtu, þ.e. að flýta ákvæðinu fram til 1. sept., verði í mesta lagi 40--50 millj. kr. þó að það sé allsendis óvíst því að ekki liggja fyrir neinar ákveðnar tölur um það hverju þetta nemi í raun á þessum ákveðnu mánuðum. Hins vegar eykst bóksala mjög þegar nær dregur jólum. En við munum draga þessa brtt., eins og aðrar, aftur til 3. umr. í þeirri von að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin íhugi vandlega hvort hún getur ekki komið til móts við þessar hógværu kröfur og sýnt þann skilning að flýta ákvæðinu þannig að skatturinn falli úr gildi 1. sept. 1990.
    Í lögum nr. 50/1988 er skatthlutfall virðisaukaskatts 22%. Því er óspart haldið fram að hlutfallið hafi lækkað með þessu frv. þar sem það er 24,5% eins og komið hefur fram. Sannleikurinn er hins vegar sá að hlutfallið hefur í raun hækkað miðað við þann virðisaukaskatt sem samþykktur var og því skulum við ekki gleyma. Þetta skatthlutfall er enn með því hæsta sem gerist meðal Evrópubandalagsþjóða eins og glögglega mátti sjá af þeim tölum sem ég las upp hér áðan. Það er hætta á því að hár virðisaukaskattur leiði til skattsvika og neðanjarðarstarfsemi eða svartrar vinnu eins og hún hefur verið kölluð á slangurmáli. Bentu mjög margir gestir nefndarinnar einmitt á mörg tilvik þar sem bein líkindi væru fyrir því að ákveðin starfsemi mundi færast yfir á svartan markað og yrði þannig svikin undan skatti og er hæstv. fjmrh. örugglega enginn akkur eða ávinningur í því. Þess vegna væri auðvitað mun skynsamlegra að setja viðunandi reglur sem tryggðu það að skattur skilaði

sér og mönnum væri gert viðunandi að vinna sín verk á heiðarlegan hátt.
    Það hefur einnig komið fram að sú aðferð að nota kostnaðarverð en ekki söluverð bygginga sem skattstofn gerir framkvæmd virðisaukaskatts í byggingariðnaði mjög flókna og stundum nær óframkvæmanlega. Er það ekki síst þegar miðað er við þann stutta tíma sem gefist hefur til undirbúnings þessa máls. Er talið mun skynsamlegra að miða skattstofninn við söluverð húsbygginga en kostnaðarverð. Óljós mörk og skilgreiningar á því hvað er viðhald eða viðgerð og hvað eru endurbætur á húsi munu síðan leiða til vanda sem erfitt er að sjá fyrir endann á. Endurbætur má endurgreiða en viðhald hins vegar ekki samkvæmt þeim reglum sem settar hafa verið. Þó fást endurbætur ekki greiddar nema kostnaður vegna vinnu við þær nemi 7% af fasteignamati, og ég legg áherslu á að hér er einungis um vinnukostnað að ræða. Algengt fasteignamat einbýlishúsa á Reykjavíkursvæðinu var okkur gefið upp í nefndinni af fulltrúa fjmrn. að væri 9--10 millj. og er fátítt að fólk geri við hús sín fyrir fjárhæðir sem samsvara um það bil 500--700 þús. kr. Það eru því í raun fáir sem geta nýtt sér þessar endurgreiðslur en því er spáð að viðgerðarstarfsemi verði einmitt ein þeirra atvinnugreina sem verða reknar út í svokallaða svarta vinnu eða svartan markað.
    Það er einnig hætt við því að svo lítið verði endurgreitt samkvæmt þessari aðferð að það mundi leiða til hækkunar framfærsluvísitölunnar þar sem ekki væri hægt að taka tillit til þessarar endurgreiðslu við úteikning hennar, en þessi atriði koma einmitt inn í útreikning framfærsluvísitölunnar, og þá stuðlar þetta að sjálfsögðu að hækkuðu verði. Því er nauðsynlegt að lækka þessa viðmiðun verulega, t.d. í allt að 3% af fasteignamati. Það er einnig nauðsynlegt að endurgreiða vinnu manna við viðgerðir eða viðhald húseigna til að koma í veg fyrir skattsvikin og flytur einmitt 1. minni hl. brtt. þess efnis.
    Margir eru mjög ósáttir við ákvæðið um skuldajöfnun sem felur það í sér að sá sem skuldar ríkissjóði opinber gjöld eða skatta fær ekki endurgreiðslu virðisaukaskatts. Óánægjan er einkum sprottin af því að það eru mörg dæmi þess að ríkissjóður eða ríkisstofnun skuldi fyrirtæki mun hærri upphæð eða dragi greiðslu til fyrirtækis á mun hærri upphæð en viðkomandi fyrirtæki sjálft skuldar ríkinu. Fyrirtækið á þó ekki kost á að skuldajafna skatta sína og fær yfirleitt heldur ekki greidda dráttarvexti þó að því beri að greiða ríkinu dráttarvexti. Þetta þykir mönnum að sjálfsögðu óréttlátt og telur 2. minni hl. að á þessum vanda þurfi að finna sanngjarna lausn. Því flytjum við þingkonur Kvennalistans brtt. þess efnis að í stað þess að skuldajafna skuli, eins og segir í frv., sé heimilt að skuldajafna, enda eigi viðkomandi fyrirtæki ekki á sama tíma kröfur á ríkissjóð fyrir seldar vörur eða þjónustu.
    Það mætti einnig í þessu sambandi víkja að vanda lánsviðskipta af ýmsu tagi
sem eru mjög algeng hérlendis og geta valdið

alvarlegri keðjuverkun fyrir atvinnu manna víðs vegar. Nægir að nefna dæmið um loðdýraeldhúsið sem hv. 2. þm. Norðurl. e. tók. Þetta er lykilatriði fyrir loðdýraræktina, að búin geti fengið reglubundið og tryggilega fóður frá svokölluðum loðdýraeldhúsum. Ef þessi eldhús geta ekki staðið í skilum með sínar greiðslur jafnvel þó svo að viðkomandi loðdýrabú geri það geta hrunið mjög mörg loðdýrabú einmitt vegna skulda óviðkomandi aðila eins og þessa loðdýraeldhúss. Það er mjög mikilvægt að líta á málin einmitt í þessu samhengi þegar ákveðnar eru reglur um refsiákvæði og hvernig eigi að taka á vanda eins og þessum þar sem keðjuverkun getur orðið. Einnig má vísa til þess sem kom fram í máli frsm. 1. minni hl., hv. 2. þm. Norðurl. e., um olíukaup útgerðarmanna og um skil sláturleyfishafa til bænda. Þetta eru sambærileg dæmi.
    Síðan vík ég að atriði sem varðar aukna skattheimtu á sveitarfélög og einnig hefur verið minnst á. Það sem kynnt var fyrir sveitarfélögum á sínum tíma sem skattkerfisbreyting, og þá á ég við virðisaukaskattinn, hefur nú snúist upp í beinan tekjuskatt á sveitarfélögin í þeim mæli sem forsvarsmenn þeirra áttu ekki von á. Þegar fjallað var um tekjustofna sveitarfélaga í nefnd í tengslum við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var ljóst að breytt verkaskipting mundi koma fjárhagslega verst niður á minni sveitarfélögum og var því leitað að leiðum til úrbóta fyrir þau. Ekki virðist þó hafa verið gætt samræmingar við þá skattkerfisbreytingu sem einnig var í undirbúningi, virðisaukaskattinn. Málin virðast beinlínis hafa verið hugsuð og framkvæmd í ólíkum hólfum innan Stjórnarráðsins þannig að forsvarsmenn fjmrn., sem sátu fundi nefndarinnar, treystu sér ekki til að svara um áhrif verkaskiptingarfrv. og sérstaklega áhrif á tekjustofna sveitarfélaga. Það er vissulega mjög ámælisvert að svona veigamiklar kerfisbreytingar skuli vera unnar af aðskildum aðilum án samræmingar, án vitneskju um gerðir hvers annars. Síðan bitnar þetta á almenningi, á sveitarfélögum sem ósamræmdar aðgerðir og leiðir til mun þyngri byrða en þyrfti að vera, einmitt vegna þess að samræmis hefur ekki verið gætt.
    Vil ég þá víkja að því sem stjórnvöld hafa á undanförnum árum gert sig sek um æ ofan í æ. Það er að beita stjórnvaldsaðgerðum og oft víðtækum kerfisbreytingum sem í sífellu raska áformum almennings og fyrirtækja eða stofnana. Allar áætlanir breytast, þær sem þegar hafa verið gerðar innan þekktra ramma efnahagslegrar getu sem menn hafa sannanlega miðað við, reglur og lög hins opinbera sem þá gilda. Síðan er reglum og lögum sífellt breytt en óstöðugleikinn og óvissan kippa grundvellinum undan framkvæmdum manna. Þetta er mjög alvarlegt og hefur leitt til þess að einstaklingar sem áður töldu sig ábyrga fyrir sínum málum standa uppi sem óskilamenn og heilu fjölskyldurnar bíða bæði fjárhagslegt og félagslegt tjón. Jafnvel heilu byggðarlögin.
    Það má segja að reiknimeistarar og stjórnmálamenn

séu sífellt að gera stórfelldar tilraunir á síðustu árum þar sem manneskjur eru í raun viðfangsefni eða tilraunadýr. Það versta er að mennirnir virðast ekki læra af reynslunni heldur ana þeir út í næstu kerfisbreytingu þótt undirbúningur sé takmarkaður og áhrif ófyrirséð. Þetta er einmitt dæmigert mál sem við ræðum hér nú og gæti hentað þeirri mynd sem ég hef dregið upp.
    Varðandi sveitarfélögin kemur einmitt í ljós að sá ávinningur sem talinn var mikilvægur fyrir sveitarfélögin þegar verkaskiptafrv. var samþykkt og þau áttu að njóta af því nýja fyrirkomulagi og nýjum lögum um tekjustofna verður í raun mun minni en gert var ráð fyrir og minnstur fyrir smærri sveitarfélögin. Samband ísl. sveitarfélaga áætlar nú allt að 900 millj. kr. í hækkun á rekstri sveitarfélaganna á næsta ári vegna áhrifa virðisaukaskattsins. Um 15 ára reynsla Dana af því að skattleggja sveitarfélögin hefur leitt til þess að lögum þeirra um virðisaukaskatt hefur nú verið breytt þannig að lögbundin skylduverkefni sveitarfélaga eru undanþegin skatti. Þetta kom fram á fundi nefndarinnar í morgun. Að þessu þarf að huga og ég vil brýna það fyrir hæstv. fjmrh. að alveg ástæðulaust er fyrir okkur að endurtaka, að endurtaka í sífellu mistök og bitra reynslu annarra.
    Hér voru til umræðu í fyrra lög um málefni aldraðra. Þar kom í ljós að Íslendingar voru 10, 15, 20 árum á eftir nágrannaþjóðum sínum í stefnumörkun um málefni aldraðra. Við höfum leikið okkur að því að gera sömu skyssurnar og sömu mistökin og aðrir hafa gert á undan okkur, en hefðum þó haft nægan tíma til að læra af þeim. Ekki til að apa eftir þeim vitleysurnar óbrenglaðar heldur einmitt til að stytta okkur leið og varast að falla í sömu gryfjur en aðlaga reynslu annarra að okkar aðstæðum.
    Ég vil nú víkja aðeins að þeim brtt. sem meiri hl. bar fram og vil í stuttu máli segja að þær eru allar til bóta og er ánægjulegt að sjá að þær skuli hér bornar fram. 1. brtt., um að bæta íslenskum kvikmyndum við þá liði sem teljast til undanþágu og varða listir og menningu, er auðvelt fyrir kvennalistakonur að styðja. Það er einmitt eitt af því sem við settum á okkar undanþágulista þegar virðisaukaskattur var hér til umræðu. Gild rök liggja til þeirra brtt. sem hér eru gerðar og komu þau fram í nefndinni og hafa þegar verið skýrð.
    Það fór ekki mikið fyrir sannfæringu um gildi virðisaukaskatts hjá hv. formanni fjh.- og viðskn. þegar hann mælti fyrir nál. meiri hl. fyrr í dag. Hann notaði drýgstan hluta tíma síns í ræðustólnum til að lýsa hinum fjölmörgu óvissuþáttum sem uppi eru um áhrif virðisaukaskatts, bæði á efnahagslífið og á almennt verðlag, ekki síst matvæli. En það hlýtur að vera stærsta áhyggjuefni allra í raun, hvernig svo sem þeir gylla, fegra og láta. Í máli hans kom m.a. fram að þær endurgreiðslur sem ætlaðar eru til að lækka verð á nokkrum tegundum matvæla munu e.t.v. alls ekki skila sér sem lækkun til neytandans, eins og ég hef einmitt bent á hér í mínu máli. Jafnframt gat hann

þess að mesta óvissan ríkti þó um annað vöruverð, þ.e. á innfluttum matvælum. Hann minntist á að Verslunarráð Íslands hefði reiknað út að ríkissjóður hagnaðist um 1,2 milljarða á meðan hagdeild fjmrn. metur sína útreikninga svo að ríkissjóður tapi 500 millj. við gildistöku virðisaukaskatts. Taldi hv. formaður útreikninga Verslunarráðs byggjast á bjartsýni en hagdeildarinnar á svartsýni. Segir þetta e.t.v. eitthvað um grundvöll útreikninga hæstv. ríkisstjórnar? Eru þeir byggðir á --- við getum sagt huglægum gildum og hugtökum eins og svartsýni?
    Ég verð að segja að mér blöskrar oft, ekki bara í þessu máli heldur í mjög mörgum öðrum málum og vík ég þá ekki máli mínu til neinna einstakra þingmanna heldur til löggjafarsamkundunnar allrar, mér blöskrar oft hve metnaður löggjafans er stundum óskaplega lítill. Stjórnarþingmenn láta hafa sig í að vera handbendi fyrir framkvæmdarvaldið. Þetta gerist ár eftir ár. Stjórnarliðar hverrar stjórnarinnar á fætur annarrar hlaupa eins og snatar á eftir fjárhópi við að reka mál ríkisstjórnarinnar og jafnvel embættismanna gagnrýnilaust gegnum þingið og virðast oft engin takmörk fyrir því hvað mál mega vera gölluð og vanbúin. Allt skal það í gegn. Að þessu hefur margoft verið fundið og þetta hefur margoft verið gagnrýnt, ekki síst vegna biturrar reynslu, vegna þeirrar reynslu að málin eru svo vanbúin að meiri hluti sumars fer í að reyna að hnýta lausa enda. Jafnvel þó að þeirra bíði það hlutskipti að lenda í einhvers konar milliþinganefnd er ekki almennilega unnið að þeim yfir sumartímann fram að næsta þingi eins og reyndin hefur orðið á um þetta mál. Það er svo vanbúið að jafnvel þeir sem eru að reyna að hrinda því í framkvæmd bera einna stærstan kvíða fyrir áhrifum þess á þjóðlífið og gera sér grein fyrir því að áhrifin eru í raun byggð á spám sem enginn veit hvort munu standast.
    Kvennalistakonur voru aldrei þeirrar skoðunar að kostir virðisaukaskatts væru fleiri eða stærri en gallar hans fyrir svo fámenna þjóð sem Íslendinga og greiddu þess vegna atkvæði gegn honum. Engar nýjar forsendur hafa komið fram til að breyta þeirri afstöðu. Honum fylgir meiri skriffinnska. Hann býður upp á dýrara og mun flóknara skattheimtukerfi þannig að ársverkum embættismanna og almennings fjölgar verulega vegna skattheimtunnar. Langt er frá að þetta kerfi bjóði upp á verulega bætt skattskil, heldur eru mörg dæmi nú þegar augljós og eflaust mun fleiri hulin þar sem beinar líkur eru á svokallaðri svartri atvinnustarfsemi. Ekki verður séð að kostirnir, sem m.a. felast vissulega í styrkingu útflutningsatvinnuveganna og ber síst að vanmeta, vegi þyngra, einkum þegar litið er til alvarlegasta og stærsta galla laganna um virðisaukaskatt sem er matarskatturinn illræmdi. En hann er í raun enn til staðar þótt smávægilegar breytingar hafi verið gerðar til að milda hann.
    Við þingkonur Kvennalistans teljum það hættulegt fyrir afkomu hinna tekjuminni í þjóðfélaginu hve margir virðast hafa misst þrek sitt til andstöðu við

þennan skatt og látið yfir sig ganga fremur en sætt sig við þessa óréttlátu skattheimtu af nauðþurftum. Samtök launþega lýsa sig þó enn andvíg matarskattinum og kvennalistakonur hafa aldrei hvikað frá andstöðu sinni við þessa skattheimtuleið. Henni ber að mótmæla og vísa á bug.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.