Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ræða hæstv. fjmrh. veldur mér vonbrigðum. Í fyrsta lagi var yfirlýsing hans varðandi sveitarfélögin ekki nógu afdráttarlaus. Ég hafði vænst þess að hann mundi lýsa því hér yfir að hann mundi ekki geta sætt sig við það að skattkerfisbreytingin kæmi þannig út að hún upphæfi með öllu þann árangur sem við þóttumst hafa náð hér í þinginu á sl. vori með því að samþykkja ný lög um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hafði búist við því að hann mundi lýsa því hér yfir að hann mundi beita sér fyrir þeim breytingum á framkvæmd virðisaukaskattsins á næsta ári að sveitarfélögin mundu halda sínum hlut.
    Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í minni ræðu minntist ég á mikla framkvæmd sem verið er að ráðast hér í á Reykjavíkursvæðinu upp á 2 milljarða vegna skolplagnar. Auðvitað er það fáránlegt að ríkið skuli taka til sín hálfan milljarð af framkvæmd eins og þessari og vék ég sérstaklega í því sambandi að ýmsum þeim skylduframkvæmdum á vegum sveitarfélaga sem lúta að heilbrigðis- og mengunarmálum og hafði vænst þess að hæstv. ráðherra mundi taka undir sjónarmið mín í þeim efnum.
    Í öðru lagi fundust mér mjög ófullnægjandi þau orð sem hann lét falla í sambandi við greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli varðandi svo fjárfreka þætti eins og veiðarfæri og olíu, brennsluolíu fyrir fiskiskipaflotann sem hvort tveggja eru rekstrarvörur undirstöðuútflutningsatvinnuvegar okkar, sjávarútvegsins, og get satt að segja ekki skilið hvernig á því megi standa að hæstv. ráðherra getur ekki fallist á að hið sama eigi að gilda um veiðarfæri eins og brennsluolíu, að nokkur greiðslufrestur sé liðinn. Ég gagnrýndi áður að greiðslufrestur á brennsluolíu er svo skammur, aðeins tveir mánuðir, þegar fyrir liggur að olíufélögin liggja með birgðir í þrjá og hálfan mánuð að jafnaði vegna öryggissjónarmiða m.a. Ég get tekið sem dæmi að nú kom ís mjög
nærri landinu. Hann var kominn mjög austarlega nú fyrir skömmu sem auðvitað undirstrikar nauðsyn þess yfir veturinn að á þessum þekktu hafíssvæðum séu meiri olíubirgðir heldur en yfir hásumartímann og þá er ekki eðlilegt að birgðahald af því tagi verði að tekjupósti fyrir ríkissjóð sem auðvitað hlýtur að leggjast á aðra olíusölu í landinu.
    Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að undirstrika fleiri atriði í máli mínu nú. Ég vil aðeins vekja athygli á því að það er kominn jólahugur í menn. Menn hafa nógu að sinna heima hjá sér og af þeim sökum verður umræðan hér í deildinni styttri en ella mundi. Samt sem áður lít ég svo á að hæstv. fjmrh. eigi að svara betur þeirri aðfinningu sem fram hefur komið hér í umræðunni í dag og þá vil ég sérstaklega víkja að einu atriði til viðbótar. Ég hélt því fram í minni ræðu að ákvæði frv. um niðurgreiðslu á

virðisaukaskatti vegna matvæla væri alveg afdráttarlaus og að skilningur ráðherrans á þeirri grein væri rangur. Ég vil ítreka þessa skoðun. Mér þótti satt að segja illt að ráðherrann skyldi ekki gera grein fyrir sínum sjónarmiðum varðandi það atriði, en vænti þess að hann muni búa sig betur undir þá umræðu þegar málið kemur til Nd.