Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Í svari sínu gaf hæstv. fjmrh. tilefni til þess að ég stæði upp vegna þess að mér virðist hann tala út frá þeirri forsendu fyrst og fremst að hér muni rísa upp í framtíðinni stór verslunarfyrirtæki eins og í Danmörku þannig að það verði fjórar til fimm stórar heildverslanir. Hann mun eiga þar við heildverslanir á sviði matvæladreifingar.
    En það vill nú svo til að það er verslað með fleira en bara matvæli á Íslandi. Ég hef því miður ekki við höndina hver er veltuhraðinn í sölu matvæla hér á Íslandi, þ.e. annars vegar hjá heildsölu og hins vegar hjá smásölu, en ég tók eftir því að þegar hæstv. ráðherra talaði um greiðslufrest þá talaði hann um greiðslufrest miðað við 45 daga annars vegar, þ.e. stuttan greiðslufrest að hans mati, og svo lengri, þ.e. 45 daga og meira, hins vegar. Og hann vildi meta það þannig að þar sem um væri að ræða greiðslufrest sem væri 45 dagar og meir, þá gæti þetta haft óhagkvæm áhrif, frá 0,5--1%. En inn í þetta kemur auðvitað það atriði, hæstv. ráðherra, sem lýtur að veltuhraða. Þótt maður sé bæði heildsali og smásali í senn, þá er það meginatriði í þessu öllu saman hver veltuhraðinn er í sambandi við þá vörusölu sem við erum að tala um. Og ég er hræddur um að hún sé með þeim hætti í íslenskri verslun í dag að veltuhraðinn sé ekki eins og skyldi miðað við þær forsendur sem hið opinbera gefur sér í þeirri skattheimtu sem á að eiga sér stað í gegnum virðisaukaskattskerfið.
    Það er því skoðun mín og spá að ekki aðeins þau fyrirtæki sem hér eru þolendur muni eiga í erfiðleikum og muni þurfa að leita út á fjármálamarkaðinn eftir viðbótarlánum til þess að geta mætt virðisaukaskattheimtunni án greiðslufrests, sem auðvitað hefur í för með sér aukinn kostnað sem nemur þeim kostnaði sem er á fjármagninu, heldur muni það einnig koma í ljós að þegar ríkisvaldið ætlar nú að fara að innheimta þetta, þá muni það reynast örðugt. Þess vegna óttast ég það fyrir hönd þeirra
sem bera ábyrgð á þessu kerfi sem virðisaukaskattskerfið er að í þeirri kreppu, þeirri lægð sem íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf er í dag muni reynast erfitt að innheimta þennan skatt á fyrstu mánuðum næsta árs ef ekki allt árið. Ég er stórefins í því að þetta kerfi muni skila þeim tekjum sem ríkisvaldið gerir sér væntingar um.
    Mér hafa sagt þeir menn --- ég veit ekki hvort á að kalla þá sérfræðinga (Gripið fram í.) þessa menn sem verið er að vísa til og hæstv. ráðherra gerði hér áðan. Hvort þetta eru sérfræðingar eða ekki, það ætla ég ekki að leggja mat á. Ég mundi frekar segja að þetta væru kunnáttumenn um þessi atriði sem við erum að fjalla um. --- Mér hafa sagt kunnugir menn í verslun að þessi kerfisbreyting muni hugsanlega útheimta það að verslunin í heild þurfi að útvega sér til viðbótar 4--5 þús. millj. kr. til þess að geta raunverulega haldið áfram með svipuðum hætti og hún er rekin í dag og til þess að geta mætt breyttri stöðu vegna þessa kerfis. Ef það er rétt að verslunin þurfi

að útvega sér 4--5 milljarða kr. til þess að geta haldið áfram í eðlilegum rekstri, þá er þarna um gífurlegan fjármagnskostnað að ræða sem hlýtur að hafa verðhækkanir í för með sér. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það mun gerast í flestum greinum verslunar vegna þess að veltuhraðinn er ekki eins mikill í íslenskri verslun og þessir svokölluðu sérfræðingar hins opinbera gefa sér í þessum útreikningum.
    Ég vil svo segja það, virðulegi forseti, að ég vona það að ég upplifi ekki þann dag að það verði aðeins fjórir eða fimm stórir heildsalar á Íslandi. Ég segi: Guð hjálpi þá íslenskum neytendum. Þá erum við komnir í það kerfi þar sem þessir fjórir til fimm stóru geta notfært sér fámennisvald til þess að haga verðlagningu eftir því sem hentar þeim. Þetta kannast nú hæstv. fjmrh. vel við. Það var hér umræða um það og hann taldi fámennisvald á hvaða sviði sem væri mjög óæskilegt. ( Fjmrh.: Já.) Hann segir já, hann tekur undir það að ef á að þróa íslenska verslun þannig að hér verði fjórir til fimm stórir heildsalar í sölu og dreifingu á matvælum sé það hið versta mál.