Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Ekki var það mín ætlan að fara að setja hér á neinar lengri umræður. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann fór hér yfir í seinni ræðunni.
    Ég hef aldrei verið sérstaklega trúaður á sérfræðinga eða þeirra speki. Brjóstvitið er nú best, hæstv. fjmrh., og þekkingin í lífinu er sú besta sem menn geta, held ég, tileinkað sér. Og hverju sem menn spá, þá óttast ég þetta og ég held, hæstv. ráðherra, að ef þetta er rétt sem sérfræðingarnir segja, að þetta muni ekki gerast, menn þurfi ekki að hafa ótta af þessu, er þá ekki hægt að segja hér úr ræðustól, hæstv. ráðherra, að komi þetta til, komi til þess að vöruverð hækki vegna þess að það er ekki veittur gjaldfrestur í tolli og að verslun í dreifbýli skaðist við það, er þá ekki hægt að lýsa því yfir hér við umræðu að þá verði gripið í taumana?
    Það ætti að vera hægt ef menn eru sannfærðir um að þetta gerist ekki, það er kannski verra að gera það ef menn óttast að hlutirnir komi til. Og ég er einn af þeim sem óttast að þetta kunni að gerast. Ég vil ekki vera með neinar fullyrðingar, ég þekki þetta ekki nógu vel, ég vil ekki vera með neinar hrakspár. Þetta óttast ég og þó að hæstv. ráðherra hafi að mínu viti í seinni ræðunni svona ýjað að þessu, að þetta yrði skoðað, athugað. ( Fjmrh.: Ég meira en ýjaði að því. Ég sagði að þetta yrði skoðað.) Nú, þá tek ég ræðu hæstv. ráðherra á þann veg að ekki komi til greina að þetta verði gert. Það verði ekki látið yfir ganga að verðhækkanir eigi sér stað vegna þessa og að dreifbýlisverslun skaðist vegna þessa. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra getur haft ástandið eins og það er. Hann getur veitt undanþágur. Það er á valdi stjórnvalda hverju sinni. Það er búið að veita eina fyrir iðnaðinn. Það er líka hægt að veita aðra. Ég tek þá ræðu hæstv. ráðherra á þann veg að hann ætli sér að grípa inn í ef til þessa kemur. Hans svar sé það hér á Alþingi að hann muni beita þá teygjureglustiku til að grípa inn í þessa tvo þætti ef þetta leiðir til þess sem ég er hér að tala um.