Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Þar sem brtt. á þskj. 322 voru samþykktar við 2. umr. reyndi ekki á hvort þingdeild gæti fallist á að viðmiðun í sambandi við endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu manna við endurbætur á íbúðarhúsnæði yrði lækkuð. Í brtt. sem lá fyrir frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. var viðmiðun 3,5% og jafnframt tekinn inn viðhaldskostnaður.
    Í ræðu minni í dag innti ég hæstv. fjmrh. eftir því hvaða skoðun hann hefði á því hvort eðlilegt væri að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu manna sem ynnu að meiri háttar viðhaldi á húseignum sem gæti skipt hundruðum þúsunda og fékk að sjálfsögðu ekki svar við því, enda kom hann ekki hér upp í stólinn við 2. umr. til þess að svara þeim fyrirspurnum sem einstakir þingmenn beindu til hans nema þegar honum sýndist. En það liggur fyrir að viðmiðunin er svo há og
þröng að stjórnarmeirihlutinn gengur fram vitandi vits með opin augun og vill með sínum tillöguflutningi stuðla að því að svört vinna verði almennari hér á landi en verið hefur, vill stuðla að undandrætti frá skatti með tillögu sinni sem er þvert ofan í þann opinbera tilgang sem hæstv. fjmrh. þykist hafa með sinni stjórn á fjármálum ríkisins. (Gripið fram í.) Það er augljóst að almenningur mun ekki sætta sig við það að 24,5% skattur verði nú skyndilega lagður á vinnu þess fólks sem vinnur við endurbætur á híbýlum manna. Fólk mun ekki taka þennan skatt á sig. Fólk mun neita þessu. Og það mun koma fram í því að það verður meira af svokallaðri svartri vinnu hér á landi.
    Þetta er auðvitað mjög dapurlegt vegna þess að samtök byggingarmanna hafa lagt á það þunga og ríka áherslu á undanförnum árum að reyna að lagfæra löggjöfina þannig að dragi úr slíkri vinnu. Þeir hafa rökstutt mál sitt mjög glöggum rökum og skýrum og enginn vafi er á því að hæstv. fjmrh. fellst á það sjónarmið mitt að viðmiðunin sé það há að hún stuðli að svartri vinnu. Enginn vafi á því. Það er enginn vafi á því að hann veit að sú breyting að leggja virðisaukaskatt á viðhaldsvinnu í heimahúsum dregur úr því að slík vinna komi fram.
    Við í 1. minni hl. gerum litla tilraun til að lækka viðmiðunina, leggjum til að miðað verði við 3,5% og það séu ekki aðeins endurbætur heldur einnig viðhald sem megi felast í þessari fjárhæð, viðhald eins og að skipta um glugga, viðhald eins og að setja parket á gólf, viðhald eins og að skipta um eldhúsinnréttingu, viðhald eins og að skipta um þak ef nauðsyn krefur, viðhald eins og t.d. að gera ráðstafanir til þess að hús séu betur einangruð og fari betur með fólk o.s.frv., að öll slík vinna verði tekin inn í viðmiðunina. Ég vildi gjarnan fá að heyra hvað hæstv. fjmrh. hefur um þetta að segja.