Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt út af þeirri brtt. sem hér hefur verið lögð fram. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. að auðvitað á að reyna eftir mætti að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi. Spurningin er einungis sú þegar um slíkt er að ræða og það mál sem hér hefur verið til umræðu, hvar mörkin eigi að liggja. Eiga þau að liggja í 5%, 7% eða 10%? Hvenær á að endurgreiða? Ég er nú kominn á þá skoðun að það verði að vera um verulegar viðgerðir að ræða svo að þeirri reglu sem í virðisaukaskattslögunum er verði framfylgt. En það má eflaust deila um þetta eins og margt annað. ( HBl: Það eru ekki viðgerðir, það eru endurbætur.)
    En aðalástæðan fyrir því að ég kom hér upp er sú að þegar hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir atkvæði sínu hér áðan við 2. umr., þá fannst mér hann ráðast að ríkisskattstjóra og halda því fram að undirbúningur allur væri illa á veg kominn. Ég held þvert á móti að embætti ríkisskattstjóra hafi unnið þrekvirki á þeim tíma sem liðinn er frá því að lögin voru samþykkt og fundið leiðir til þess að framfylgja þessum skatti sem við megum vera --- kannski ekki stolt af en sem falla vel að íslensku þjóðfélagi. Og það er ekki honum eða embættismönnum í fjmrn. að kenna að ýmislegt hefur farið aflaga heldur frekar okkur þingmönnunum að komast ekki að niðurstöðu á réttum tíma um hvaða ákvarðanir skyldi taka.
    Það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði og rangtúlkaði orð ríkisskattstjóra, um það að skatteftirlitið ætti að vera í upphafi næsta árs til þess að leiðbeina en ekki til þess að gagnrýna, verður ekki túlkað þannig að ríkisskattstjóri líti þannig á að hann hafi undirbúið málið illa, heldur er þetta nauðsynlegt til þess að hjálpa aðilum sem eru ekki komnir almennilega inn í kerfið, aðstoða þá í bókhaldi og framtölum. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram. Ég vil einnig lýsa því yfir hér að ríkisskattstjóri og tveir starfsmenn hans sátu með nefndinni í langan tíma og greiddu vel úr þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar. Vil ég lýsa mikilli ánægju með störf þeirra í nefndinni og hve greiðlega gekk að finna og fá gögn frá þeirri stofnun.