Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð vegna þess að ég vék ítarlega að þessu máli í minni ræðu áðan. Þetta mál er e.t.v. tvíþætt. Í fyrsta lagi er einungis um endurgreiðslu að ræða af endurbótum, ekki af viðgerðum og það er einungis um að ræða endurgreiðslu af kostnaði við vinnu, ekki af efniskostnaði.
    Það kom fram í umræðum í nefndinni að algengt fasteignamat á Reykjavíkursvæðinu eru 9--10 millj. á einbýlishúsum. Það kom líka fram í nefndinni að um væri að ræða viðgerðarkostnað fyrir vinnu sem næmi frá 500 og upp í 800 þús. kr. Það kom fram hjá iðnaðarmönnum og fulltrúum byggingariðnaðarins sem sóttu fund nefndarinnar að slíkar stórviðgerðir væru fremur fátíðar þannig að mjög fáir ættu í raun kröfu á endurgreiðslu vegna slíkra endurbóta.
    Síðan kemur hinn þáttur málsins. Hann er sá að fulltrúum byggingariðnaðarins fannst að þetta fyrirkomulag mundi bjóða upp á svarta vinnu. Sá frumskógur sem fylgir því að reyna að skilgreina og skilja á milli endurbóta annars vegar og viðgerða hins vegar er illur viðureignar. Það væri næstum því ógerlegt að gera slíkt. Nokkur dæmi voru tekin í nefndinni sem gáfu glöggt til kynna hversu erfitt þetta hlýtur að vera. Þeir töldu það víst að þetta mundi reka þessa starfsemi hiklaust yfir í svokallaðan svartan vinnumarkað sem þýðir auðvitað að hæstv. fjmrh. fær ekki skatta af þessari vinnu af því að hún verður falin. Í þessu liggur vandinn aðallega og ég tók einmitt mjög vel fram tölur og dæmi í mínu máli hér áðan. Þetta er raunverulegur vandi. Hins vegar er allt annað mál hvort stjórnvöld kjósa að horfast í augu við hann eða ekki. Ég hélt að hæstv. fjmrh. væri ekki síst að leggja fram þetta frv. til þess að geta tryggt sér örugga skattheimtu, skilvirka hét hún einu sinni. Hvort hún er einföld eða réttlát, það er allt annað mál.