Stofnun og slit hjúskapar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Á fundi nefndarinnar í morgun var lítillega minnst á þær ræður sem voru haldnar hér þegar frv. var tekið til 1. umr. Bæði minntust menn á ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og ekki síður ræðu hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar sem var nú að vísu ekki á nefndarfundinum. Við ræddum ekki sérstaklega um hæfileika lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli til að tala milli hjóna, en okkur þótti ekkert ólíklegt að það fyndust kannski fleiri jafngóðir Friðjóni í stétt dómara og lögreglustjóra sem hefðu þennan hæfileika.
    En ég ætla aðeins að nefna það hér að ágætur kennari minn í lögfræði á sínum tíma minntist á það að sennilega væri engin fræðigrein sem tæki eins ríkulegt tillit til mannlegra sjónarmiða og einmitt lögfræðin. Ég er þess vegna ekki sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um að þessir aðilar séu alls vanhæfir til þess að annast þessi viðkvæmu mál.
    Ég hef svo sem ekki meira um þetta að segja en sé enga ástæðu til þess að nefndin fari að taka þetta mál til einhverrar nýrrar yfirvegunar.