Stofnun og slit hjúskapar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Mér finnst kannski gæta misskilnings í þessu máli, ekki síst hjá hv. 13. þm. Reykv. Mín tilfinning eftir að hafa unnið í nefndinni og hlustað á rök í þessu máli er fyrst og fremst sú að hér eru menn að auka líkurnar á sáttum og breikka möguleikana á þeim því að hér segir í frv. skýrt og skorinort:
    ,,Áður en mál er höfðað til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar eða beiðst er leyfis til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar skal leita um sættir með hjónum og kanna grundvöll að framhaldandi sambúð. Prestar leita um sættir með hjónum eða löggiltir forstöðumenn trúfélaga. Nú er annað eða bæði hjóna utan trúfélaga eða hvort heyrir til sínu trúfélagi, og má þá yfirvald leita um sættir.``
    Eins og ég skildi þetta mál hafa verið lagðar niður sáttanefndir sem skipaðar voru með lögum og menn hafa viljað eiga þarna möguleika og tryggt að í öllum tilfellum væri leitað sátta og telja að dómarar og sýslumenn hafi bæði sýnt það í störfum sínum og skuli leita sátta eins og hér hefur svo glögglega komið fram. Mér finnst málið þess vegna mjög einfalt. Við erum aðeins með þessari lagasetningu að tryggja það að sátta verði leitað. Fyrst eru það prestarnir sem menn munu leita til eins og lög kveða á um í dag. Eigi þeir ekki aðgang að prestinum eða hjónin deila um trúfélag og eru í sitt hvorum söfnuðinum eignast þau þarna möguleika sem eru sýslumenn eða dómarar. Ég treysti þeim vel til að fara með þetta þó að ég sakni þess auðvitað að sáttanefndirnar gömlu séu lagðar niður því að þær unnu oft ágætt starf í þessu sem öðru. Þess vegna styð ég málið eins og það liggur fyrir og hef skrifað undir nál. allshn.