Stofnun og slit hjúskapar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég má til að koma hér og taka undir með hv. 13. þm. Reykv. Ég tel að þurft hefði að víkka út þann hóp sem fólk hefur möguleika á að leita til um sættir. Eins og lögin eru núna verður fólk að leita til presta sem mér fannst mjög takmarkað því að það eru margir sem vilja gjarnan leita eitthvað annað. Ég tel að þessi breyting sé til bóta, en ég hefði talið eðlilegra að fólk gæti leitað til annarra, eins og t.d. félagsráðgjafa. Fólk á að geta valið um það hvort það leitar til presta, til sýslumanna og bæjarfógeta eða einhverra annarra. Við kvennalistakonur höfum hins vegar talið rétt að styðja frv. en vonumst til þess að sú endurskoðun sem er talað um að eigi sér nú stað á þessum lögum verði til þess að sá hópur verði stærri sem fólk hefur möguleika á að leita eftir sáttum hjá.
    Ég held ekki að fólk deili yfirleitt um lögfræðileg atriði þegar það er að skilja, heldur önnur atriði, þó ég sé síst að draga úr gildi þess að fólk geti leitað til sýslumanna, og sjálfsagt eru margir sýslumenn ágætir í að sætta hjón og ég efast ekki um að margir hafi gert það. Hv. þm. Friðjón Þórðarson lýsti því hér yfir í fyrri umræðu að hann hefði gert það og ekki efast ég um að það sé rétt. En ég lít ekki á það sem vantraustsyfirlýsingu á þetta fólk þó að maður telji að einhverjir aðrir ættu að vera færari um að sinna þessum málum.