Lausafjárkaup
Föstudaginn 15. desember 1989


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég ber hér fram frv. til laga um breytingu á lögum um lausafjárkaup, nr. 39/1922, um að ný svohljóðandi málsgrein bætist við 54. gr. laganna:
    ,,Kröfur vegna galla í steinsteypu, sem keypt var tilbúin frá framleiðanda, fyrnast á tíu árum frá afhendingu vörunnar, nema seljandi hafi skuldbundið sig til að ábyrgjast vöruna lengri tíma eða haft svik í frammi.``
    Frv. þetta er flutt að frumkvæði Húseigendafélags Reykjavíkur. Það felur í sér að fyrningarfrestur krafna, sem rísa kunna vegna galla í steinsteypu, lengist úr einu ári í tíu ár frá afhendingu. Tilgangur frv. er sá að auka vernd húsbyggjenda og annarra kaupenda steinsteypu gagnvart göllum er leynast kunna í steypunni og auka ábyrgð framleiðenda, verktaka og eftirlitsaðila að sama skapi.
    Á síðari árum hefur æ fleirum orðið ljóst að ákvæði 54. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 39/1922, er kveður á um eins árs fyrningarfrest krafna vegna galla á seldum hlut eða vöru sem meginreglu, er óeðlilegt og fresturinn of skammur hvað varðar galla á vissum vörutegundum, t.d. byggingarefni, þar sem vitað er að gallar, sem voru á vörunni er kaup fóru fram, geta hæglega dulist kaupanda þótt hann hafi beitt eðlilegri árvekni við kaupin og mjög langur tími liðið þar til þeir koma fram. Er þetta því bagalegra þar sem hér er oft um afar mikil verðmæti að ræða og gallinn getur hæglega valdið kaupanda illbærilegu tjóni ef honum reynist ókleift að rétta hlut sinn gagnvart seljanda. Einkum hefur tilbúin steinsteypa til mannvirkjagerðar komið til umræðu og athugunar í þessu sambandi, ekki síst í tilefni af kunnum málaferlum fyrir nokkrum árum þar sem mjög reyndi á ákvörðun fyrningarfrests vegna
alvarlegra galla á keyptri steinsteypu til íbúðarhússbyggingar. Varð niðurstaðan sú í dómi Hæstaréttar frá 27. júní 1983 að krafa húsbyggjandans var talin fyrnd samkvæmt ákvæði 54. gr. laga nr. 39/1922 um árs frest til kröfugerðar frá því að kaup tókust, en mörg ár liðu hins vegar þar til húsbyggjandinn varð gallans var sem hafði í för með sér stórtjón fyrir hann. Vakti þessi niðurstaða m.a. mikla umræðu í fjölmiðlum og kom fram í máli margra að niðurstaða í þessa átt gæti verið óréttlát gagnvart neytendum enda þótt ekki yrði vefengt að Hæstiréttur hefði einungis farið eftir gildandi lögum. Var tillögum til úrbóta jafnframt hreyft á Alþingi án þess þó að þar fengist nein niðurstaða um réttarbætur. Er þessu frv. því ætlað að leysa tiltekinn vanda á umræddu sviði ef að lögum verður.
    Þegar hugað er að breytingum á 54. gr. laga nr. 39/1922 í fyrrnefnda átt er ljóst að örðugt getur verið að ákvarða þær vörutegundir sem til álita kemur að setja um sérstakt ákvæði þar sem fyrningarfrestur sé lengdur til muna frá því sem algengast er í lausafjárkaupum. Hefur orðið að ráði að miða hér einungis við tilbúna steinsteypu, sökum þess að þar

birtist vandamálið í skýrustu ljósi og ætla má að gallar á því sviði hafi verið og séu allalgengir, sbr. umræðuna sem fram hefur farið um hinar svokölluðu ,,alkalískemmdir``. Er þá miðað við það í 1. gr. frv. að um þessa sérstöku vörutegund gildi tíu ára fyrningarfrestur sem reyndar er hinn almenni fyrningarfrestur samkvæmt lögum nr. 14/1905, nema annað sé sérstaklega tekið fram í þeim lögum. Jafnframt þykir eðlilegt að hafa sama fyrirvara og nú er í 54. gr. um sérstaka ábyrgð seljanda til lengri tíma en tíu ára og um svik seljanda, en um svik gildir þá að öðru leyti ákvæðið í 7. gr. laga nr. 14/1905. Rétt þykir hér einnig, til þess að taka af öll tvímæli, að miða upphaf fyrningarfrestsins við afhendingu vörunnar svo sem gert er í 54. gr. laga nr. 39/1922, en reglur laga nr. 14/1905 um það efni eru hins vegar ekki nægilega ljósar. Verður almennt að ætla að ákvæði um tíu ára fyrningarfrest á umræddri vöru muni hvort tveggja í senn verða framleiðendum sérstök hvatning til vöruvöndunar og nákvæms gæðaeftirlits og leiða til fullnægjandi réttarbóta fyrir neytendur í flestum tilvikum, þótt hins vegar séu dæmi þess, svo sem í fyrrnefndu dómsmáli, að frestur sé ekki nægilega langur sökum þess hve gallar í steinsteypu geta verið lengi að koma fram. Á hitt ber þó að líta að seljendur þessarar vöru sem annarrar hafa augljósa hagsmuni af því að reglur um fyrningarfrest séu glöggar og einnig að fresturinn verði ekki ákveðinn mjög langur, t.d. langt umfram tíu ár, því að það mundi skerða réttaröryggi þeirra um of.
    Meðal annarra Norðurlandaþjóða stendur nú yfir endurskoðun hinna almennu laga um lausafjárkaup og hafa sumar þjóðirnar nýlega lögtekið endurskoðaða lagabálka um það efni. Hefur þetta endurskoðunarstarf farið fram í norrænni samvinnu sem íslensk stjórnvöld hafa haft tækifæri til að fylgjast með þótt ekki hafi þar verið um beina þátttöku að ræða. Hefur verið leitast við að hafa sem mest samræmi milli texta hinna nýju norrænu laga á þessu sviði, en ljóst er þó að um algert samræmi verður þar ekki að ræða. Ætla verður að á næstu árum muni íslensk stjórnvöld hlutast til um endurskoðun núgildandi laga um lausafjárkaup. Má þá telja víst að í flestum efnum verði tekið mið af meginreglum hinna endurskoðuðu kaupalaga grannþjóða okkar, en jafnan verður þó
að taka nægilegt tillit til íslenskra séraðstæðna þar sem það á við. Ákvæði það um viðbót við núverandi 54. gr. kaupalaga, sem hér er borið fram í frumvarpsformi, mun tvímælalaust eiga fullan rétt á sér í endurskoðuðum lögum um lausafjárkaup, en ástæðulaust er að bíða þeirrar endurskoðunar hvað þetta ákvæði varðar sökum þess að um brýna réttarbót er að ræða sem verndar hag neytenda á mikilvægu viðskiptasviði.
    Flm. gera sér ljóst að ævinlega er vandasamt að kveða í löggjöf á um ábyrgð einstakra aðila að almennum viðskiptum. Verslun með steinsteypu er mjög mikilvægt svið viðskipta hér á landi þar sem iðulega eru ríkir hagsmunir í húfi enda ekki óalgengt að húsbyggjendur leggi aleigu sína að veði þegar

ráðist er í húsbyggingu. Því er brýnt að hugað sé að vernd þeirra sem neytenda, en þó þannig að gætt sé eðlilegs jafnvægis milli hagsmuna kaupenda og seljenda. Sala og meðferð steinsteypu er nú mun þróaðri tæknilega en áður var. Ljóst er og að ending steypu er ekki einvörðungu háð gæðum framleiðslunnar sem nú er venjulega dælt í steypumót úr flutningstæki, heldur einnig meðferð hennar á byggingarstaðnum. Því þarf að vega og meta hvernig ábyrgð á hugsanlegum göllum skuli skipt milli framleiðenda og annarra er að verkinu koma sem og eftirlits- og úttektaraðila.
    Flm. telja eðlilegt að í þingnefnd verði farið nánar í saumana á þessum atriðum og kallað eftir áliti tæknimanna á þessu sviði.
    Þess má að lokum geta að tvö þingmál nátengd þessu málefni voru flutt á Alþingi fyrir nokkrum árum. Annars vegar frv. á 107. löggjafarþingi sem Sighvatur Björgvinsson og fleiri fluttu og hins vegar till. til þál. á 106. löggjafarþingi, en það mál fluttu Birgir Ísl. Gunnarsson og fleiri.
    Flm., sem ásamt mér eru Geir H. Haarde, Ásgeir Hannes Eiríksson, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson, Jón Kristjánsson og Þórhildur Þorleifsdóttir, leggja til eftir umræðu í hv. deild að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn.