Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Í tengslum við síðustu kjarasamninga var hæstv. ríkisstjórn knúin til þess að lækka skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ástæðan var sú að vinnuveitendum og fulltrúum Alþýðusambandsins tókst að sýna ríkisstjórninni fram á að sá hugsunarháttur væri fyrir löngu úreltur og hafi raunar aldrei haft við rök að styðjast að hægt sé að leggja skatt á verslunina án þess að einhver greiði skattinn. Það er auðvitað hægt að hugsa sér það í eitt skipti eða svo í skamman tíma að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé borinn af eigendum húseignarinnar án þess að þessi skattur fari út í verðlagið. En til frambúðar er því ekki að heilsa. Til frambúðar er málið svo einfalt að verðlagsáhrifin af skattinum eru jafnmikil og þær krónur sem hæstv. ráðherra fær í ríkissjóð í gegnum skattheimtuna. Það eru þau verðlagsáhrif sem við erum hér að tala um.
    Hv. 5. þm. Reykv., formaður fjh.- og viðskn., hafði vonda samvisku hér áðan. Hann talaði um það að þessi skattur hefði verið fyrst lagður á árið 1979 og það er auðvitað alveg rétt að Alþfl. bjó til þennan skatt. Þegar ungu mennirnir komust á þing fyrir Alþfl. 1978 og stóðu að þeirri ríkisstjórn, sem var í stjórnarmeirihluta 1978--1979, var þetta ein af mörgum uppfinningum þeirra ungu manna sem komust á þing í þeirri miklu kratabylgju sem fór yfir landið í vorkosningunum 1978.
    Þessi kratabylgja og þessi mikli trúnaður sem þeir alþýðuflokksmenn fengu þá hefur verið þeim viðkvæmt mál síðan. Þeir lofuðu þá að lækka tekjuskattinn eða afnema hann en framkvæmdin tókst með þeim hætti að á sumrinu 1978 var í fyrsta skipti lagður á tekjuskattur tvívegis. Fyrst lagði skattstjórinn á á miðju sumri og síðan lagði skattstjórinn á öðru sinni um haustið og hæstv. sjútvrh. sem er mikill sérfræðingur í skattamálum --- ég man nú satt að segja ekki hvort hann sat á þingi þá --- en eins og hann hefur stundum talað efast ég
ekki um að hann hefði greitt þessu atkvæði sitt vegna þess að hann talar mikið um það að menn skilji það ekki að það þurfi skatta til þess að greiða ríkisútgjöldin. En það segir auðvitað ekki að það eigi að taka allar tekjur manna í skatta. Og þó svo hann hafi látið þessi orð einstaka sinnum falla hefur hann samt sem áður ekki fengist til þess að taka þátt í þeirri miklu skattaumræðu sem nú á sér stað hér í þinginu. Hann hefur ekki einu sinni fengist til þess að taka þátt í þeirri umræðu sem orðið hefur í sambandi við t.d. sjávarútveginn, við breytinguna frá virðisaukaskatti yfir í söluskatt. Ekki einu sinni um það. Heldur lætur hann sessunaut sinn, hæstv. fjmrh., um að svara fyrir okið.
    En nú skulum við í þessu samhengi, af því hæstv. sjútvrh. er þingmaður fyrir þá á Austurlandi, velta því fyrir okkur hvort þessi skattur sé mjög réttlátur skattur þar fyrir austan. Ætli það sé svo hjá ýmsum kaupfélögum fyrir austan og ýmsum verslunarrekstri

fyrir austan að þessi fyrirtæki standi mjög vel? Ætli veltan hjá þessum fyrirtækjum sé jafnhröð í versluninni þar fyrir austan og veltan hér í Reykjavík? Skyldi það geta verið svo að skattur sem lagður er á dauða steinsteypu sé tilfinninga ... (Gripið fram í.) Ég talaði um dauða steinsteypu, hæstv. fjmrh., að fyrir þeim skatti finnist meir ef veltan hjá viðkomandi fyrirtæki er lítil eða mikil. Auðvitað gefur það auga leið þar sem velta er lítil, þar sem fyrirtæki eru rekin með halla og sérstaklega þar sem hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt það hér í stólnum að ástæða sé til að líta sérstaklega með dreifbýlisversluninni og er að tala um það að hann sé að hugsa um að líta til með dreifbýlisversluninni, þá skyldi maður hafa haldið að þeir mundu stilla sig um þennan skatt, þennan rangláta skatt, sem ég man mjög vel að fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga talaði um af mikilli mælsku á fundi fjh.- og viðskn. í fyrra. Fulltrúinn að þessu sinni var að vísu ekki eins mælskur, en niðurstaðan var sú sama.
    Hæstv. fjmrh., það stendur í kvæði einu: ,,Tunga steinsins kviknaði.`` Það kemur stundum fyrir að jafnvel steinar hafa líf. ,,Steinar tali og allt hvað er`` stendur í ljóðinu. Og það má vel enda svo hjá þessari óvinsælu ríkisstjórn að það verði ekki aðeins hinir lifandi menn sem æpi fullum rómi á móti ríkisstjórninni heldur hollvættir landsins. Það kæmi mér ekki á óvart þótt steinar allir hér á landi fái tungur tvær og tali sama rómi með báðum til þess að fordæma þessa ríkisstjórn, fordæma það miskunnarleysi sem þessi ríkisstjórn sýnir í skattheimtunni og fordæma þá fyrirlitningu sem þessi skattheimta nú sýnir gagnvart þeim mönnum úti í atvinnulífinu sem eru að reyna að ná samkomulagi um það hvernig eigi að mæta þeirri miklu kjararýrnun sem hér hefur orðið án þess að komi til nýrrar verðbólguholskeflu, hvernig á að standa í varnarbaráttu núna þegar þjóðartekjurnar hafa dregist saman frá ári til árs, þriðja árið í röð, og þegar við sitjum uppi með fjmrh. sem segir: Það munar svo sem ekki neinu þó við tökum svo sem 2 kr. í viðbót úr hægri vasanum á fólkinu, 2 kr. úr vinstri vasanum, seilumst síðan í brjóstvasann og förum líka í þann vasa sem geymir peningana fyrir skólabókunum á næsta hausti.
    Það gefur auðvitað auga leið að fólkið í landinu skilur að þeir menn sem
þannig stjórna eru ekki að hugsa um það að deila minnkandi þjóðartekjum heldur sitjum við uppi með ríkisstjórn sem kann sér ekki hóf, ríkisstjórn sem ekki skilur að það eitt að hækka tekjuskattinn nú ofan í aðrar álögur um áramótin er það sama og að slá hvern einasta vinnandi mann í landinu utan undir með blautum sjóvettlingi. Og þessi skattur hér er eitt af mörgu.
    Formaður fjh.- og viðskn. sagði hér áðan að við sjálfstæðismenn hefðum greitt atkvæði með þessum skatti á sínum tíma. Það er að vísu rétt, okkur tókst að lækka hann niður í 1,1%. Nú verður fróðlegt að sjá hvort formaður fjh.- og viðskn., hvort hæstv. umhverfisráðherrann, sem var mjög mikið á móti

þessum skatti í fyrra, hvort þeir vilja standa með okkur um það að koma þó skattinum niður í 1,1%. Það verður fróðlegt að sjá það. Auðvitað munu þeir ekki gera það. Auðvitað vita þeir að þjóðin verður að borga tollinn af því að taka þá inn í ríkisstjórnina og auðvitað verða þeir að taka þátt í hækkunum á sköttum sem því nemur og gott betur því hæstv. fjmrh. selur sig dýrt og þarf ekki að hafa fjölmörg orð um það.
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort það er ástæða til að tala öllu lengur um þetta. Það skiptir auðvitað engu máli hvernig talað er hér um þessar nýju álögur sem er verið að leggja á. Það skiptir engu máli hvort hæstv. fjmrh. er spurður efnisspurninga eins og kom fram þegar við ræddum um virðisaukaskattinn, við fáum ekki skýringar. Það skiptir engu máli þótt þingnefnd biðji um upplýsingar um eitt og annað, það er undir hælinn lagt hvort hún fær þessar upplýsingar.
    Við sitjum núna uppi með stjórnarmeirihluta sem er svo aðkrepptur að það verður að semja um allt inni í lokuðum herbergjum og best líður þeim ef rafmagnið bilar og það er í kolniðamyrkri sem þeir tala saman. Svo þegar þeir koma hér fram fyrir þessi björtu ljós hér í þinginu og mæta björtum glampa stjórnarandstöðunnar fá þeir ofbirtu í augun og geta ekki sagt eitt einasta orð, þora ekki að hreyfa sig. Þora ekki að hreyfa sig. Auðvitað þýðir ekkert að tala við þessa menn á fundum fjh.- og viðskn. Auðvitað skiptir engu máli með hvaða rök þetta fólk kemur sem við erum að kalla á okkar fundi.
    Hvaða máli haldið þið að það skipti hvað forseti Alþýðusambands Íslands segir? Hvaða máli haldið þið að það skipti hvað Ögmundur Jónasson segir? Við ætlum að biðja Ögmund Jónasson að koma á fund nefndarinnar á morgun út af þeirri skerðingu sem á að gera á framlögum ríkisins til Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Haldið þið, hv. þm., að það skipti einhverju máli hvaða rök fulltrúar opinberra starfsmanna bera fram á þessum fundi? Er einhver hér inni sem heldur að það skipti máli? Er ekki búið að ákveða þetta allt saman niðri í herbergjunum? Eru ekki fulltrúar þessara fimm stjórnarflokka búnir að kreppa svo að sínu fólki að þeir þora ekki að gefa eftir á einum einasta punkti því að þá eru þeir hræddir um að stíflan springi? Og hverjir eru það sem eiga að gefa eftir núna? Hverjir eiga að gefa eftir til þess að þetta geti gengið pínulítið lengur? Það á að svíkja skuldbindingar í sambandi við Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Við munum sjá það þegar kemur að því að afgreiða lánsfjárlög fyrir næsta ár, við 2. umr., hvort kirkjan verður látin í friði. Það mun koma í ljós þá. Ætli það sé einhver hér inni sem heldur að kirkjan verði látin í friði? Mikið blessað barn yrði sá sem héldi að kirkjan fengi að vera í friði. Það er auðvitað ekkert heilagt. Ekkert heilagt nema myrkrasamkomulagið. Og þó það sé svo um sumt sem roðnar á morgnana þá stafar ekki birtu frá fjmrh. þegar hann kemur inn í svarta herbergið. Það verður enn dimmra þar inni á eftir. Og minnst er þó ljósið í fjh.- og viðskn. þegar við erum að reyna að tala við

fulltrúa hæstv. fjmrh. um sanngjarna hluti og við finnum að fulltrúum stjórnarmeirihlutans er alveg sama, hjartanlega sama, skiptir engu máli hvað sagt er. Enginn metnaður að reyna að vera sanngjarn eða taka tillit til eins né neins, ekki má breyta stafkrók, ekki einu sinni prentvillum.
    Þannig er nú ástandið á þeim bæ. Þess vegna verður það svo að þetta frv. verður samþykkt, þessar skattaálögur verða samþykktar. Hæstv. fjmrh. mun líða eins og honum líður núna, eins og púkanum á fjósbitanum. Hann verður glaðari og glaðari við hvern nýjan pinkil sem hægt er að setja á þjóðina eins og púkinn fitnaði af blótsyrðum fjósamannsins. Svo er nú ástandið hérna.
    Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess í sjálfu sér að hafa þessa tölu lengri. Við sjálfstæðismenn munum hittast á fundi fjh.- og viðskn. í fyrramálið. Við munum reyna að hafa áhrif á stjórnarmeirihlutann eins og við getum. Við munum ekki bregðast því. En ég á satt að segja ekki von á að það verði tekið mark á því fremur en orðum Ögmundar Jónassonar eða Ásmundar Stefánssonar eða annarra þeirra sem ganga á fund nefndarinnar.