Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki halda því fram, eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan, að ekkert þýði að reyna að tala við þessa herra. Það er einmitt grundvallaratriði að tala við þá og tala þannig við þá að þjóðin skilji betur hvers konar herrar eru á ferðinni. Þ.e. hvers konar valdamenn þetta eru sem hafa hrifsað völdin til sín hér á Íslandi, gerðu það haustið 1988. Þess vegna held ég að það sé brýnt og æskilegt og nauðsynlegt að tala við þessa herra, að segja sannleikann, fara ekki í gegnum sjálfan sig, eins og sumir gera margsinnis þegar þeir koma annaðhvort í sjónvarpið (Gripið fram í.) eða ... Ég var ekki að tala um hv. þm. Halldór Blöndal, ég var að tala um þá herra sem hrifsuðu völdin til sín á Íslandi haustið 1988, hv. þm. Skúli Alexandersson. Og hv. þm. var ekki allt of kátur yfir því þegar sú ríkisstjórn var mynduð eins og hv. þm. muna af umræðum hér á þingi haustið 1988. ( SkA: Það var nú minni ...) Það er annað mál að ég hef fulla samúð með hv. þm. Skúla Alexanderssyni að þurfa að styðja þessa ríkisstjórn vegna þess að ég veit að í hjarta sínu vildi hann vera laus við það og færi betur að hann framkvæmdi það þannig að greiða ekki þeim frv. atkvæði sem hér eru til umræðu, m.a. þessu frv.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að koma með fsp. til hæstv. fjmrh., vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hann muni skýra satt og rétt frá því sem ég ætla að spyrja hann um núna. En áður en ég kem að minni fsp. ætla ég að ítreka tvennt. Í fyrsta lagi minntist hv. þm. Halldór Blöndal á það hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn ætlar að vega að --- ég vil segja samningshagsmunum opinberra starfsmanna í sambandi við lífeyrissjóð þeirra. Þó opinberir starfsmenn búi við betri kjör en aðrir í sambandi við sín lífeyrisréttindi er það á grundvelli samninga og samningar eiga að standa. Í þeim efnum hefur hæstv. fjmrh. gengið of langt að mati formanns BSRB. Hann hefur
haldið því fram opinberlega að samningar hafi verið brotnir á opinberum starfsmönnum og ríkisvaldið hafi gengið of langt í því að skerða stöðu lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Fyrir það verður hæstv. fjmrh. auðvitað látinn svara m.a. gagnvart þeim fulltrúum BSRB sem mæta á fundi í fjh.- og viðskn. Ed. á morgun.
    En það er hitt atriðið sem er enn þá svívirðilegra og það er að hæstv. ríkisstjórn hefur keyrt hér í gegnum efri deild frv. til laga um að skattleggja iðgjaldatekjur lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambandsins, skattleggja lífeyrissjóði verkafólks, lífeyrissjóði sem eru með öfugan höfuðstól. Það er svívirðilegt athæfi að skattleggja aðila sem þannig er ástatt um og starfa samkvæmt samningum og reglugerðum sem sjálfur hæstv. fjmrh. eða fjmrh. á undan honum hafa undirritað. Ég efast um að það standist fyrir dómstólum að hægt sé að skattleggja aðila sem getur ekki staðið við greiðsluskuldbindingar sínar skv. þeim reglugerðum og lögum sem gilda varðandi lífeyrissjóðina í landinu. En

þetta hafa nú hv. þm. gert, keyrt hér í gegn þessa skattlagningu, 2% af iðgjaldatekjum lífeyrissjóða þessa láglaunafólks. Það er um 300 millj. kr. árið 1990. Þetta er keyrt í gegn á síðustu stundu þannig að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar eða aðilar fyrir hönd lífeyrissjóðanna fá ekki svigrúm til að láta í ljós skoðun sína vegna þess að þau lög sem nú eru í gildi renna út um áramótin.
    Hæstv. fjmrh. hlýtur að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að skattleggja fyrirtæki sem eru gjaldþrota. Í nóvember 1988 lýsti hæstv. fjmrh. yfir því hér í efri deild að Samband ísl. samvinnufélaga yrði gjaldþrota mjög fljótlega eða eigi síðar en eftir 14 mánuði. ( Gripið fram í: Nei.) Sagði hæstv. ráðherra ekki 14 mánuðir, innan 14 mánaða? ( Gripið fram í: Yfir 14.) Sagði hæstv. ráðherra ekki 14 mánaða, innan 14 mánaða? Nú er það 14--16 mánaða. ( Gripið fram í: Yfir 14.) Átta, átján? ( Gripið fram í: Nei, tíu, tuttugu.) Þetta er ágætt, þetta er alveg í takt við það sem kom fram í sjónvarpi nýlega, virðulegur forseti, þegar þeir voru að ræða saman hæstv. fjmrh. og borgarstjóri. Það var eftirtektarvert að hæstv. fjmrh. breytti bara um skoðun eftir því sem það hentaði honum. Ég minnist þess að hæstv. fjmrh. sagði um 14 mánuði, um 14 mánuði. Ég heyrði hann aldrei segja 18 mánuði. ( EKJ: ... 10 til 14.) Það minnir mig, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. En við skulum skoða þingskjöl um þetta efni. Það er ágætt einmitt. Nú höfum við loksins alveg sannanleg dæmi um að þegar vísað er til fyrri ræðu hæstv. fjmrh. hér og vitnað í 14 mánuði þá allt í einu breytir hann því í 18. Þetta er mjög gott dæmi um ósannsögli sem ég vona að fjölmiðlamenn kynni sér því þetta er svo augljóst. ( Gripið fram í: ... sagði átján.)
    Hvað sem því líður, hvort sem hann sagði 12, 14 eða 18 mánuði, er það ekki meginatriðið, heldur hitt að þennan skatt á að greiða á næsta ári. Og þá erum við komnir í 18 mánuði hvort sem er. Þá vaknar spurningin: Geta hv. þingmenn samþykkt hér að skattleggja aðila sem verður örugglega orðinn gjaldþrota á næsta ári ef eitthvað er að marka orð hæstv. fjmrh.? Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh.: Hver er staða Sambands ísl. samvinnufélaga í dag? Er hún það
örugg, það sterk, að höfuðstóllinn verði jákvæður á næsta ári þannig að hægt sé að skattleggja hann þó ekki sé nema um þetta 1,5% skv. þessu frv.? Hver er staða kaupfélaganna? Er hægt að skattleggja kaupfélög sem eru gjaldþrota? Hver á að greiða það? Á sama tíma sem verið er að fjalla um þetta frv. hér hefur nefnd sem ríkisstjórnin sjálf skipaði til að kanna stöðu verslunar í strjálbýli skilað frá sér áliti. Og hvað segir það álit, hv. þm.? Jú, það segir það einfaldlega að styrkja þurfi verslun í strjálbýlinu. Þetta frv. er náttúrlega gjörsamlega út í hött fyrir utan að það jaðrar við að vera lögbrot að ætla sér að skattleggja fyrirtæki sem svona er statt fyrir.
    Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. upplýsi þingmenn áður en þeir greiða atkvæði um þetta frv. hvort eitthvað hafi breyst hjá

samvinnuhreyfingunni, Sambandinu og kaupfélögunum sem réttlæti það að þingmenn greiði atkvæði með þessari skattlagningu.