Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þegar ég hafði þau ummæli fyrir u.þ.b. ári síðan, sem vitnað hefur verið í hér, var mikið ófremdarástand í íslenskum efnahagsmálum. Það var ljóst að stöðvun atvinnulífsins blasti við að lokinni fimm ára stjórnarsetu Sjálfstfl. og eftir að hin harða peningahyggja hafði farið hér um bankakerfi og efnahagsskipan. ( Gripið fram í: Var hann einn í stjórninni?) Nei, en hann réð þessari stefnu og núv. formaður flokksins, Þorsteinn Pálsson, lýsti því yfir á miðjum stjórnarferli 1983--1987 að sú stefnubreyting væru mestu tímamót í íslenskri hagsögu síðan 1960. ( SalÞ: Hefur framsóknaráratugurinn gleymst eða hvað?) Nei, hann hefur ekki gleymst en ég vænti þess að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir vilji við kannast yfirlýsingu formanns Sjálfstfl. um mestu tímamót í íslenskri hagsögu síðan 1960. Og ekki voru þau eignuð Framsfl. í þeirri ræðu.
    Síðan ég lét þessi ummæli frá mér fara hafa orðið umtalsverðar breytingar í íslensku efnahagslífi. Ég ætla ekki að lengja mál mitt hér með því að rekja þær, þær eru kunnar. Það er viðurkennt nú af aðilum vinnumarkaðarins að gengisþróunin er komin á það stig að hún þarf ekki frekari breytinga við og þess vegna er verið að ræða hér kjarasamninga með gjörsamlega nýjum hætti vegna þess að allir aðilar vinnumarkaðarins eru þeirrar skoðunar að gengisþróunin sé komin á eðlilegt stig. Það hefur náðst hér gífurleg vaxtalækkun og annað jafnvægisástand í peningamarkaði og vöruskiptajöfnuður er hagstæður. Auk þess hefur á vettvangi samvinnuhreyfingarinnar sjálfrar verið gripið til margvíslegra aðgerða. Þekktust er sjálfsagt sú aðgerð að selja Samvinnubankann og draga mjög úr umsvifum samvinnuhreyfingarinnar á öðrum sviðum, vinna að sameiningu kaupfélaga og hagræða þar í rekstri með margvíslegum hætti. Ýmsar fleiri aðgerðir eru einnig á döfinni hvað það
snertir sem fela í sér að staða samvinnuhreyfingarinnar í dag er önnur en hún var fyrir ári síðan. Ég tel þess vegna að góðar horfur eigi að geta verið á því með samstilltara átaki forustumanna samvinnuhreyfingarinnar og landsstjórnarinnar að það takist að snúa þessari þróun við. Ég tel því ekki neina ástæðu til að breyta samþykkt þessa frv. út frá þeim forsendum sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék að hér áðan.