Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég er mjög þakklátur hæstv. fjmrh. fyrir að gefa mér tilefni til að ræða hér aðeins um atvinnumálin. Það gerir að vísu nauðsynlegt þegar ég kem að seinni hluta ræðu minnar að hæstv. sjútvrh. verði þá viðstaddur umræðuna. Ég held að ég verði þá líka að óska eftir því að hæstv. viðskrh. verði viðstaddur umræðuna svo að við getum rætt aðeins um það ástand sem var hér á landi þegar síðasta ríkisstjórn féll frá. Er mér mjög kærkomið að svara áskorun hæstv. fjmrh. og rifja upp þá atburði sem gerðust á árunum 1987--1988 og þá atburði sem gerst hafa síðan. Ég hafði að vísu ekki búist við því þegar þessi umræða hófst að hún mundi gefa tilefni til þess en mér er það sönn ánægja að svara hæstv. fjmrh. en mun að sjálfsögðu líka ætlast til þess í leiðinni að ráðherrann taki virkan þátt í umræðunni og svari ýmsum skýrum fyrirspurnum sem ég beindi til hans á síðasta fundi deildarinnar þegar hér var rætt um virðisaukaskattinn og við komum þá inn á ýmis atriði sem sneru beint að atvinnurekstrinum í landinu. Ég skal síður en svo skorast undan því, herra forseti, að við rifjum þetta allt saman upp, förum út í þessi atriði og ég veit að hæstv. fjmrh. mun bregðast vel við.
    Í fréttatilkynningu sem hæstv. fjmrh. sendi dagblöðum og fréttastofum hinn 11. okt. 1989, --- ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að formaður fjh.- og viðskn. sé viðstaddur þennan kafla ræðu minnar og mun doka við þangað til hann kemur aftur í deildina.
    Hv. formaður fjh.- og viðskn. sagði í ræðu sinni hér áðan að Borgaraflokkurinn hefði gengið í þessa ríkisstjórn og sett þá mjög skýr mörk um það hversu há hin nýja skattheimta mætti verða sem tæki við á næsta ári. Mér skildist á formanni fjh.- og viðskn. að hann miðaði við að hlutfall skattheimtu til ríkisins á næsta ári yrði ekki hærra en á þessu. Eru það út af fyrir sig forsendur sem eru mjög skýrar og má segja að út frá hans sjónarmiði
séu þær ekki óeðlilegar. Nú vill svo til að í þeirri fréttatilkynningu sem hæstv. fjmrh. sendi fjölmiðlum hinn 11. okt. 1989 er talað um þá veigamiklu kerfisbreytingu sem felist í gildistöku virðisaukaskatts. Það er raunar gott að hæstv. viðskrh. skuli vera hér líka því að spurningin lýtur líka að afstöðu hans til skattheimtu yfir höfuð að tala og hér segir um það, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Veigamesta kerfisbreytingin felst í gildistöku virðisaukaskatts um næstu áramót. Gert er ráð fyrir einu skatthlutfalli á smásölustigi sem verður 26%. Til þess að ná fram verðlækkun á brýnustu matvörum verður skatturinn að hluta endurgreiddur á framleiðslustigi þannig að á mjólk, dilkakjöt, innlent grænmeti og fisk leggist ígildi 13% skatts.`` Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Virðisaukaskattur skilar svipuðum tekjum í ríkissjóð og söluskattur gerir á þessu ári.``
    Þetta voru þær upplýsingar sem við fengum í fjh.- og viðskn. og þetta voru þær opinberu upplýsingar

sem fjmrn. lét fjölmiðlum í té. Og á grundvelli þessara upplýsinga hæstv. fjmrh. hefur málflutningur hans verið. Nú hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að lækka virðisaukaskattinn úr 26% í 24,5%. Og nú hefur fjh.- og viðskn. fengið pappíra frá fjmrn. sem sýna fram á, og það er skoðun ráðuneytisins, að þessi 24,5% virðisaukaskattur gefi 500 millj. kr. minna í ríkissjóð en söluskatturinn núna. Það er með öðrum orðum yfirlýsing um að 26% virðisaukaskattur, eins og hann var lagður á, hefði skilað mun meiri tekjum en ríkisstjórnin gaf út þegar Alþingi byrjaði, mun meiri tekjum en sent var út til fjölmiðla á þeim herrans degi 11. okt. 1989. Nú getur það verið spurning mín til hæstv. viðskrh., sem er mjög vel að sér í útreikningi á þjóðhagsstærðum og hefur oft komið fram í máli hans að hann er mjög vel að sér: Ef hægt væri að sýna hæstv. viðskrh. fram á það að hinar nýju tölur fjmrn. um það sem virðisaukaskatturinn gefur af sér eru réttar, er þá hugsanlegt að hann muni fallast á að hætta við þá miklu hækkun sem nú er ákveðin á tekjuskattinum? Og má líka spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort tekjuöflunarmál ríkissjóðs hafi verið tekin til umræðu á nýjan leik í ríkisstjórninni eftir að í ljós kom að þeir útreikningar sem fjölmiðlar fengu í þingbyrjun og við fengum í fjh.- og viðskn. voru rangir upp á, að mati ráðherrans, einhvers staðar af stærðargráðunni 2 milljarðar kr.? Ég skal ekki segja nákvæmlega, ég skal ekki segja hvort það vantar --- röng niðurstaða upp á 1,8 milljarða, 2 milljarða. Það má spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann hafi fengið nokkra skýrslu frá fjmrh. um þessa reikningsskekkju. Það liggur alveg ljóst fyrir að í þeim pappírum sem við fengum þegar þing var sett var sagt að 26% virðisaukaskattur mundi jafngilda söluskattsinnheimtunni á þessu ári. Og það liggur líka alveg ljóst fyrir að, eins og hæstv. fjmrh. talaði um að hann ætli að framkvæma þær heimildir sem eru í fjárlagafrv. varðandi greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli, varðandi undanþágur eða endurgreiðslur á virðisaukaskatti í sambandi við framkvæmdir og aðgerðir sveitarfélaganna, þá ber virðisaukaskatturinn meiri innheimtu af hálfu ríkissjóðs, meiri tekjur en hæstv. viðskrh. gat vænst á meðan hann var í ríkisstjórn með Sjálfstfl. og
beitti sér með lögfestingu laganna um virðisaukaskatt. Það kom aldrei upp á borðið hjá okkur að við ætluðum þessari kerfisbreytingu að skila meiri tekjum, aldrei upp á borðið til okkar. Nú er hins vegar komið í ljós að hæstv. fjmrh. ætlaði að ná 2--3 milljörðum aukreitis með skattkerfisbreytingunni vegna þess að hann er búinn að viðurkenna núna með þeim pappírum sem við höfum fengið upp á síðkastið að það eru ósannindi sem hann sagði í þingbyrjun við fjölmiðla. Það eru ósannindi sem hann sagði í þingbyrjun hér í þinginu. Og það eru ósannindi, þau skilaboð sem hann lét starfsfólk sitt bera inn á fundi í fjh.- og viðskn. Ed. Við getum auðvitað á hinn bóginn velt fyrir okkur, er pólitískt siðferði af þessu tagi ekki bara það sem við viljum, Íslendingar? Viljum við ekki bara hafa fjmrh. sem talar ósatt þegar

hann er spurður um hversu mikið skatturinn gefur af sér? Og viljum við ekki hafa hér á landi ríkisstjórn með ráðherrum sem er nákvæmlega sama hvort hæstv. fjmrh. segir satt eða ósatt? Hvað varðar hæstv. viðskrh. um það þó að upplýsingum fjmrh. til fjölmiðla skakki upp á 1 1 / 2 milljarð eða 2 milljarða? Hvað ragar það hann? Getur ekki formaður Alþfl. bara verið í útlöndum á meðan? Eða hæstv. forsrh., var hann ekki bara plataður? Hann er svo vanur því að vera plataður að honum er alveg hjartanlega sama. Ætli Borgaraflokkurinn hafi haft fyrir því að reikna nákvæmlega út hversu mikil skattheimtan verður? Það leyfi ég mér að efast um.
    Staðreyndin er auðvitað sú að við stöndum frammi fyrir ósannindum. Við stöndum frammi fyrir því að skattheimtan á næsta ári verður meiri en okkur er sagt að hún verði. Og við stöndum frammi fyrir því að formaður fjh.- og viðskn. segir hér í deildinni við okkur: Ástæðan fyrir því að við viljum leggja á nýja skatta er sú að ég vil halda sömu skattheimtu og á þessu ári. En hann er ekki með neina útreikninga sem neinn vill standa við að séu réttir. Ef ég mundi spyrja í fjh.- og viðskn. í fyrramálið og segja við formanninn: Ertu reiðubúinn að koma með sundurliðun? Viltu leggja drengskap þinn við að þú trúir því sem þarna stendur, að þetta sé sama skattheimtan? Skyldi hann koma með útreikninginn? Eða skyldi hann láta sér nægja að taka við pappírunum sem hann hefur fengið ofan úr ráðuneyti? Ætli það verði kannski ekki líka sagt að ég sé að væna embættismenn um að fara með rangt mál í haust? Ég var ekki að því vegna þess að það var uppsetning hæstv. fjmrh. sem var röng. Það var vegna þess að hæstv. fjmrh. tók ekki nettótöluna þegar hann var að sýna okkur þetta fyrst. Hann gleymdi uppsafnaða söluskattinum. --- Svo geispar hæstv. fjmrh. af því að honum finnst svolítið leiðinlegt að vera minntur á það að hann var að reyna að blekkja. ( Gripið fram í: Hvað segirðu?) Geispar blessaður maðurinn. ( Gripið fram í: Ekki þó golunni.) En það er eðlilegt. Ég vildi að hann gæti kokgleypt öll ósannindin sem hann hefur sagt okkur hér í deildinni. En þá má geispinn vera stór til þess að það takist.
    Við getum tekið fleira. Við getum t.d. rifjað upp það sem hæstv. fjmrh. sagði við okkur í sambandi við svo lítið mál eins og það, hvað skyldi það kosta fólk utan af landi í nýjum skatti að fljúga milli Akureyrar og Reykjavíkur ef virðisaukaskattur verður lagður á eldsneyti? Hæstv. fjmrh. sagði ósatt um 50%. Það er ekki hátt. Af því að þetta var lág tala. En hins vegar skiptir þetta allt máli. Og staðreyndin er sú að áhrifin verða mun meiri en hann vill kannast við.
    Þegar hv. 14. þm. Reykv. hafði spurt hæstv. fjmrh. um ummæli sem hann hafði hér á þinginu fyrir einu ári, vék hæstv. fjmrh. að því í svari sínu að ástandið í fyrirtækjunum hefði verið mjög alvarlegt og mjög vont á haustinu 1988 og mér skildist hann vilja telja að við sjálfstæðismenn hefðum ekki skilið eins vel við haustið 1988 og efni hafi staðið til. Þetta veldur því að óhjákvæmilegt er að rifja upp þá atburði sem urðu

á árunum 1987--1988. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. viðskrh. fyrir að hann ætli að vera hér inni og ég sé að hæstv. sjútvrh. er hér í hliðarsal þannig að ég veit að hann má heyra það sem ég segi, en óhjákvæmilegt verður að víkja nokkrum orðum að hæstv. sjútvrh. af þessu tilefni og athuga hvort hann fáist til að veita svör við ýmsum brennandi spurningum sem liggja á vörum þjóðarinnar til að fá að vita hvað gerðist á þessum tíma.
    Nú er það svo að fyrir síðustu kosningar vorið 1987 talaði formaður Alþfl. svo til okkar sjálfstæðismanna og ég hygg líka hæstv. viðskrh., sem þá var að vísu ekki ráðherra, að ómögulegt var að skilja þeirra ummæli öðruvísi en svo að þessir tveir menn vildu í grundvallaratriðum fallast á þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum haft í efnahagsmálum og atvinnumálum. Og það kom auðvitað skýrt fram í kosningunum þá að þeir töldu sér það helst til gildis að þeir mundu mjög vilja koma til móts við hagsmuni fyrirtækjanna í landinu í sambandi við breytta löggjöf um skattamál. Báðum þessum mönnum lá það orð mjög á tungu að við þyrftum að breyta skattalöggjöfinni hér á landi þannig að hún yrði sambærileg við það sem er í Vestur-Evrópu. Báðir töluðu þessir menn á þeim nótum að við yrðum að búa okkur undir hinn sameiginlega markað í Evrópubandalaginu og auðvitað var ánægjulegt eftir að þeir voru komnir með okkur í ríkisstjórn að finna að þeir vildu reyna að standa með okkur á móti Framsfl. í því að gera t.d. löggjöfina um tekju- og eignarskatt nútímalegri
en hún var. Og auðvitað var líka ánægjulegt að finna að þeir vildu lögfesta með okkur lög um virðisaukaskatt þó svo að við gerðum okkur grein fyrir því, bæði þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl., að ýmsum spurningum var ósvarað vorið 1988 sem óhjákvæmilegt var að íhuga betur. Það komu upp mörg álitamál og auðvitað vissum við að það mundi verða pólitískt erfitt að svara þeim spurningum öllum.
    Við gerðum okkur grein fyrir því, bæði þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl., að skattkerfisbreyting af þessu tagi yrði að fá mjög nákvæman undirbúning og þess vegna gladdi það mig þegar ég heyrði formann Alþfl. lýsa því yfir fyrir skömmu að það væri rétt að fresta framkvæmd virðisaukaskattsins, gildistökunni, vegna þess að hæstv. fjmrh. hefði látið það undir höfuð leggast að vanda undirbúninginn eins og rétt væri. Þetta var skoðun Alþfl. Og við sem höfum verið í fjh.- og viðskn. vitum að Alþfl. hafði rétt fyrir sér. Það er auðvitað mikill ábyrgðarhluti fyrir einn flokk að standa að skattkerfisbreytingu með þessum hætti og viðurkenna þó fyrir sjálfum sér að allur undirbúningur er í handaskolum. Láta fyrirtækin mæta ýmsu óvæntu sem þau hafa ekki búið sig undir. En Alþfl. lét sig hafa þetta, ekki vegna þess að þeir þingmenn Alþfl. hafi ekki vitað að þetta væri rangt, auðvitað sagði formaður Alþfl. að það ætti að fresta skattheimtunni af því hann vissi að það var rangt að fara út í hana óundirbúið, heldur af hinu að þingmenn Alþfl. vissu að ef þeir ekki samþykktu skattkerfisbreytinguna um

áramót stæðu þeir frammi fyrir nýjum kosningum nú á þessum vetri og það var það sem þeir treystu sér ekki til.
    Það sorglega í málinu er þetta: Eftir að Alþfl. hafði, eftir samningaþóf á bak við okkur sjálfstæðismenn, slitið síðustu ríkisstjórn á bak við okkur, án þess að láta okkur vita að Alþfl. var að undirbúa nýja ríkisstjórn meðan hann sat með okkur í ríkisstjórn, sem er auðvitað siðlaust eins og upplýst var í Alþýðublaðinu, þá verðum við núna að horfa upp á það að Alþfl. munaði ekkert um það í leiðinni að taka til baka margar þær leiðréttingar á skattalögunum sem hann hafði samþykkt með okkur vorið 1988, fara mörg ár aftur í tímann. Og það sem kannski veldur því að þeirra niðurlæging er enn meiri en ella er að í tengslum við síðustu kjarasamninga skrifaði ríkisstjórnin Vinnuveitendasambandinu bréf þar sem gefin voru margvísleg fyrirheit um skattalagabreytingar og líka fyrirheit um að athuga eitt og annað. M.a. var gefið fyrirheit um að hverfa aftur til þeirrar breytingar sem við samþykktum vorið 1988 um tekjuskattinn, að tekjuskatturinn og eignarskatturinn yrðu í samræmi við það sem við áður höfðum samþykkt. Og okkur skildist það, vorið 1989 var það, á ummælum hæstv. viðskrh., eða iðnrh. var hann víst þegar hann talaði þau orð, að þá þegar væru uppi viðræður við vinnuveitendur um hvernig ætti að standa að breytingum á tekjuskattslöggjöfinni nú fyrir þessi áramót. Þetta var allt í fullum gangi. Síðan hefur hann upplýst það, hæstv. fjmrh., að engar slíkar viðræður hafi átt sér stað. Þegar við ræddum um fjárlögin við 1. umr. upplýsti hann að alls ekki stæði til að vinnuveitendur fengju neitt um það að vita hvernig ríkisstjórnin mundi haga sínum skattalagabreytingum heldur yrðu vinnuveitendur að standa frammi fyrir gerðum hlut. --- Það er verst að hæstv. fjmrh. er svo upptekinn með forseta sameinaðs Alþingis að hann heyrir ekki orð mín, hann gæti þá leiðrétt ef ég fer rangt með. Ég get rifjað þetta upp þegar hann kemur aftur.
    Fulltrúar Alþfl. standa nú frammi fyrir því, eða stóðu síðast þegar ég vissi, að engar efnislegar viðræður hafa farið fram um þetta atriði. Ef ég man rétt þá sagði hæstv. iðnrh. að vísu hér í deildinni að svo mikið væri um að vera núna í skattamálunum að þetta yrði að takast til athugunar síðari hluta þessa vetrar. Þá væri auðvitað fróðlegt að fá svar við því hvort búið sé að ákveða að hefja þetta samráð sem lofað var á sl. vori.
    Alþfl. vill telja sig mikinn verkalýðsflokk. Við upplifðum það hér á föstudaginn að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í Alþfl. greiddu atkvæði á móti því að virðisaukaskattur yrði í tveim þrepum. Auðvitað vakti það athygli en var um leið staðfesting á því að áhrif verkalýðshreyfingarinnar í Alþfl. eru þverrandi. Og auðvitað vitum við að það er laukrétt sem fram hefur komið bæði beint og óbeint í margvíslegum blaðaviðtölum og greinum sem verkalýðshreyfingin hefur skrifað, forustumenn í verkalýðshreyfingunni, að þeir líta ekki hýru auga þær

hækkanir sem hafa orðið nú í þessum mánuði, jólamánuðinum og telja að óhjákvæmilegt sé að svara þessum hækkunum með leiðréttingu í kjarasamningum. Ég veit að sá maður sem nú situr í forsetastóli getur staðfest að forustumenn launþegahreyfingarinnar eru ekkert sérstaklega lukkulegir þessa dagana. Þeir gera sér líka grein fyrir því sem hefur komið fram að sú hækkun á tekjuskattinum sem boðuð hefur verið er mun meiri en fjmrh. vill viðurkenna. Þessi 2% hækkun er auðvitað kjaraskerðing sem er mjög veruleg þegar um leið er höfð hliðsjón af því að eins og framkvæmd virðisaukaskattsins verður eru allar horfur á að verðhækkunartilefni í byrjun næsta mánaðar verði mun meiri en áður hafði verið talið. Þetta kom m.a. mjög skýrt fram þegar við ræddum við hagdeild fjmrh. í fjh.- og viðskn. og spurðum hana að því hvaða áhrif hún teldi það hafa á verðlag í landinu að ekki stendur
til að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli. Það er auðvitað broslegt að lesa í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. í sambandi við virðisaukaskattinn að hann hyggist athuga hvort ekki sé rétt að slíkur greiðslufrestur í tolli komi smátt og smátt og einhvern tímann síðar. Auðvitað benti framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands á að of seint er að veita greiðslufrestinn þegar hið nýja kerfi er búið að jafna sig. Sú mikla fjárbinding sem verður af virðisaukaskattinum kemur strax nú um áramótin, áður en endurgreiðslurnar fara að skila sér aftur úr ríkissjóði, sem ekki verður fyrr en í aprílmánuði, má ég segja.
    Ég held að óhjákvæmilegt sé að horfa til þess að framkvæmdin á virðisaukaskattinum er ekki eins og þingmenn Alþfl. vildu þegar við vorum að berjast fyrir lögfestingu skattsins á sínum tíma. Ég held að það sé alveg deginum ljósara. Hæstv. viðskrh. getur ekki hrósað sér af því að sjónarmið Alþfl. hafi verið ráðandi varðandi þetta atriði. Nú er sami maðurinn hæstv. iðnrh. og hæstv. viðskrh. Af þessu gefna tilefni, að formaður fjh.- og viðskn. hefur sett það fram sem skilyrði fyrir því að hann vilji styðja þetta frv. að skatthlutfallið á næsta ári verði ekki hærra en á þessu ári, og af því gefna tilefni að hæstv. fjmrh. var hér áðan að tala um að atvinnuvegirnir stæðu vel og allir hlutir væru nú í jafnvægi, væri kannski forvitnilegt að fá að vita hvernig hæstv. viðskrh. lítur á þetta mál, hvort hann telji æskilegt að greiðslufrestur verði veittur á virðisaukaskatti í tolli. Það hefði e.t.v. verið réttara, herra forseti, að ræða þetta mál undir virðisaukaskatti, en ráðherrar hafa nú einu sinni þann sið að vera bara í deildinni stundum.
    Ég vil líka vekja athygli á því í þessu samhengi að eins og framkvæmdin er ákveðin á næsta ári mun gjaldfresturinn á virðisaukaskattinum einungis nema tveimur mánuðum í sambandi við olíuna. Olíufélögin verða látin greiða fullan virðisaukaskatt af birgðum tveim mánuðum eftir að olían berst til landsins. Vildi ég gjarnan spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sammála þessari framkvæmd og hvort þessi ákvörðun hafi verið tekin í samráði við hann. Finnst honum

nægilegt að veita einungis tveggja mánaða gjaldfrest á virðisaukaskatti í tolli? Eða er þetta kannski bara smámál? Skiptir þetta kannski engu máli? Er algert aukaatriði hvernig skattar og tollar ríkisins eru tímasettir? Skiptir það bara máli þegar ríkissjóður flýtir sér að taka skattana fyrr, er það bara það sem skiptir máli, ekki hitt hvenær fyrirtækin og fólkið í landinu borga skattana? Það skiptir náttúrlega engu máli.
    Nú hlýt ég eins og komið er ræðu minni, herra forseti, og ræða mín er að sjálfsögu athugasemd við það sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan. Nú hef ég umborið það að hann sé ekki við um hríð í deildinni. Nú óska ég eftir því að hlé verði gert á fundinum á meðan hæstv. fjmrh. lýkur sínum fundarhöldum annars staðar í húsinu. ( Gripið fram í: Fundarhlé.) Óska eftir því, ég held að ekki sé nokkur leið að komast hjá því. Ég féllst á að hæstv. fjmrh. viki sér frá smátíma. Já, herra forseti, ég held að það sé óhjákvæmilegt að gera hlé á fundinum, það er ekki hægt að haga sér með þessum hætti. Ég held að þetta gangi ekki, það er alveg lágmark að hæstv. fjmrh. sé hér við. ( Forseti: Ég vil aðeins upplýsa það að hæstv. fjmrh. var á fundi með forseta sameinaðs þings, sem mér þykir nú eðlilegt að menn uni við. En ég hef gert ráðstafanir til að hann komi hingað nú þegar þannig að ég tel alveg ástæðulaust að fresta fundi á meðan.) Ég sé að aðalforseti er kominn í deildina og vil láta þess getið að mér finnst eðlilegt ef hæstv. ráðherrar þurfa að eiga fundi annars staðar í húsinu að þá sé gert fundarhlé á meðan. Ég get á hinn bóginn ekki fallist á að þingmenn eigi að standa hér uppi í ræðustól og ætlast sé til af þeim að þeir bíði hér eftir því að hæstv. ráðherrar séu viðlátnir. Mér finnst að það verði að gæta þess. Ég hef sýnt hér ákveðna biðlund ( Forseti: Fjmrh. er mættur.) og tel að þegar maður hefur gert það þá sé eðlilegt að taka tillit til þess. Það hefur verið talað um að reyna að ná hér ákveðnu samkomulagi um þinghald og ég vona að það takist. En hitt held ég að sé alveg ljóst að það verður að vera einhver gagnkvæm kurteisi að þessu leyti sem ég er nú að lýsa.
    Ég var að tala um það, hæstv. fjmrh., að mig minnti að það hefði verið við 1. umr. fjárlaga sem ég spurðist fyrir um hvort einhverjar viðræður væru hafnar milli fjmrn. og vinnuveitenda vegna þess loforðs sem hæstv. forsrh. gaf á sl. vori um að slíkar viðræður færu fram. Og ég var að rifja það upp að hæstv. fjmrh. hefði sagt við þær umræður að vinnuveitendur yrðu að standa frammi fyrir því sem ríkisstjórnin ákvæði. Er þetta ekki rétt munað? ( Fjmrh.: Nokkurn veginn.) Nokkurn veginn rétt munað, það er ljómandi. Og ég var að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann væri ánægður yfir þessu og fyndist þetta vera rétt afstaða hjá hæstv. fjmrh. Nú er mér ekki kunnugt um hvort hann sér ástæðu til að skýra sitt mál í því, en minnist þess á hinn bóginn að sl. vor talaði hann um að slíkar viðræður væru hafnar af hálfu iðnrn. við iðnrekendur sem mér skildist á hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárlaga að væru umræður

sem ekki skiptu máli í þessu sambandi og í þessu samhengi.
    Þannig stóðu sakir, hæstv. fjmrh., svo ég víki nú tali mínu að atvinnulífinu, að haustið 1987 féll verð á íslenskum sjávarafurðum á erlendum
mörkuðum. Þá stóðum við frammi fyrir því að kjarasamningar voru lausir um áramót og ýmsir héldu á þeim tíma, ekki aðeins vinnuveitendur heldur ýmsir úr verkalýðshreyfingunni, að það gæti e.t.v. tekist að ná nýjum hóflegum kjarasamningum þá um haustið og sú ákvörðun var tekin af þeim sökum að freista þess að samningar tækjust án þess að ráðist yrði í efnahagsaðgerðir sem m.a. fælust í því að gengi krónunnar yrði breytt og krónan yrði felld. Síðan gerðist það um áramót að m.a. bandaríkjadollar lækkaði mjög í verði og þegar kom fram í febrúarmánuð var ljóst að óhjákvæmilegt var að fella gengið verulega til að koma til móts við atvinnurekendur og greiða fyrir kjarasamningum. Það kom síðan í ljós síðari hluta þess vetrar að mikil upplausn var í verkalýðshreyfingunni og fjölmargir kjarasamningar, sem þó náðist að skrifa undir, voru síðan felldir í almennri atkvæðagreiðslu.
    Í janúar á þessu ári fór hæstv. utanrrh. þáv., Steingrímur Steinþórsson, endanlega í stjórnarandstöðu. ( Forseti: Hermannsson.) Steingrímur Hermannsson, og ég held mér sé óhætt að fullyrða þáv. viðskrh., Jón Sigurðsson, hafi farið í baklás þegar við þingmenn Sjálfstfl. vildum ekki fallast á það að Útvegsbankinn yrði hálfvegis gefinn Sambandi ísl. samvinnufélaga. Þetta hafði auðvitað afgerandi áhrif á það samkomulag sem við höfðum fram að þeim tíma átt við Alþfl. og þeim þótti þetta svo sárt, alþýðuflokksmönnum, að þeir gátu ekki á heilum sér tekið upp frá því. Samt tókst nú að knýja þá til að samþykkja gengisfellingu í febrúarmánuði, en þáv. utanrrh. hafði kynnst mannkynssögu Grimbergs meðan hann var á ferðalagi erlendis og lært þessa setningu ,,Róm brennur``, en kunni ekki að nota hana í réttu samhengi. Síðan fengum við erfiða kjarasamninga um vorið og vorið 1988 vildum við sjálfstæðismenn grípa til mjög alvarlegra ráðstafana í efnahags- og atvinnumálum. Þá var Framsfl. nýbúinn að halda undarlegt flokksþing og kratar sömuleiðis og mikil spenna var í þjóðlífinu. Að síðustu náðist samkomulag um gengisbreytingu sem þó var ónóg. Menn tóku eftir því að hæstv. viðskrh. tók það sérstaklega fram í tengslum við þessa gengisfellingu vorið 1988 að hún hefði það sérstaklega sér til ágætis að engar hliðarráðstafanir fylgdu gengisbreytingunni. (Gripið fram í.) Ég var sannfærður um það á þessum vordögum vegna þess upphlaups sem efnt var til í þessum samstarfsflokkum Sjálfstfl. daginn áður en formaður Sjálfstfl. átti að ganga á fund forseta Bandaríkjanna að öll heilindi hefðu gufað upp í þessari ríkisstjórn. Þetta átti eftir að reyna á síðar um sumarið. Það var síðan upplýst í Pressunni, blaði Alþýðublaðsins, að fundahöld hefðu orðið í ágústmánuði milli Alþfl., Alþb. og Framsfl. um að mynda nýja ríkisstjórn á meðan ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sat. Þetta hefur síðan verið staðfest í ræðu

núv. hæstv. forsrh. og enginn vafi er á því að einn þessara þriggja manna sem tóku þátt í þessum viðræðum á sæti fyrir hönd Alþb. í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Þetta er auðvitað nýtt siðferði í íslenskri pólitík og lýsir karakter sem ég vildi ekki bera sjálfur.
    Það er alveg rétt að þá um sumarið hallaði undan fæti hjá atvinnulífinu vegna þess að Alþfl. stóð á móti því að ráðast í hvers konar aðgerðir til styrktar útflutningsatvinnuvegunum. Og ég veit ekki hvort hæstv. sjútvrh. --- er hann nokkurs staðar hér, hæstv. sjútvrh., ég vildi gjarnan fá hann hér í salinn.
    Nú stendur svo á, hæstv. sjútvrh., að fjmrh. sá sem situr við hans hlið lýsti því yfir hér áðan að atvinnuvegirnir hafi verið mjög illa farnir haustið 1988. Er það svo, hæstv. sjútvrh., að sjávarútvegurinn hafi ekki átt neinn talsmann í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar? Má vera að sakir hafi staðið þannig að sá maður sem þá gegndi því embætti að heita sjútvrh. hafi kært sig kollóttan um hvernig sjávarútvegurinn yrði leikinn. Hvað gerði hæstv. sjútvrh. á þessum tíma? Finnst hæstv. sjútvrh. að það sé bara málefni okkar sem studdum hann í þetta embætti, sjútvrh., mál mitt, mál þingmanna Sjálfstfl.? Hvaða stefna var í sjávarútvegsmálum hér á landi á árunum 1987--1988? Það væri náttúrlega fróðlegt að fá um það upplýsingar. Auðvitað liggur það fyrir að ráðherrar Alþfl. stóðu gegn því sumarið 1988 að gengi krónunnar yrði fellt. Það liggur fyrir. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. sé líka kunnugt að við sjálfstæðismenn vildum ganga lengra fyrir sjávarútveginn þá um haustið en aðrir flokkar. Hvernig væri að hæstv. sjútvrh. segði sína skoðun á þessu máli? Það væri fróðlegt að fá hana fram.
    Það væri líka fróðlegt að fá fram hjá hæstv. sjútvrh. hvort hann telur að þær aðgerðir sem gripið var til haustið 1988 af þeirri ríkisstjórn sem kennd var við Steingrím Hermannsson hafi verið nægar. Það kom fram í fjh.- og viðskn. þegar formaður stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina var spurður að hallinn á sjávarútvegsfyrirtækjum síðasta ársfjórðung 1988 hafi verið mun meiri en menn hafi gert sér grein fyrir. Og það kom fram í máli þessa manns að við því megi búast að ýmis af þessum fyrirtækjum þurfi að leita aftur til sjóðsins. Mér hefur t.d. verið sagt að mjög gróið fyrirtæki á Austurlandi, ég veit ekki sönnur á því, í sjávarútvegi hafi aftur þurft að leita til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina nú á þessu hausti. Ég held að það sé voðalega erfitt að hafa gegnt embætti sjútvrh. jafnlengi og hæstv.
ráðherra og hafa ekki þrek til þess að útskýra sjálfur fyrir þingheimi og þjóðinni hvernig haldið var á þessum málum. Eða ætlast hæstv. ráðherra til að við, sem studdum hann í þetta embætti, tökum því þegjandi þegar hann lætur sig engu skipta þótt þeir menn sem vildu styðja hann verði einir fyrir ásökunum út af því hvernig hann hélt á málefnum sjávarútvegsins? Er hæstv. sjútvrh. sama um það hvernig sessunautur hans talar í þessum efnum? Það má vera að hann láti sér það í léttu rúmi liggja.

    En ég vil segja meira um þetta mál en bara þetta, herra forseti. Ég vil líka ræða aðeins um stöðu sjávarútvegsins í dag af því að hæstv. fjmrh. vék að því og spyrja hæstv. sjútvrh. líka um það efni. Stendur á þingmönnum Sjálfstfl. eða Sjálfstfl. að marka framtíðarstefnu um stjórn fiskveiða? Höfum við beðið um frest á því máli? Hverjir vilja láta þau mál danka í þeirri nefnd sem er að fjalla nú um framtíðarstefnuna í stjórn fiskveiða? Eru það sjálfstæðismenn? Koma sjálfstæðismenn illa undirbúnir að þessu leyti á þá fundi? Eða má það vera að einhverjir aðrir stjórnmálaflokkar séu ekki reiðubúnir til að ræða þá hluti? Bíða, bíða, bíða, bíða, danka, danka, danka, danka. Ætli það geti verið að flokkur hæstv. fjmrh. sé ekki reiðubúinn að tala efnislega um stjórn fiskveiða á næstu árum? Og skyldi vera að flokkur utanrrh. sé heldur ekki reiðubúinn til þess að tala til frambúðar um stjórn fiskveiða? Og má það vera að Samband ísl. samvinnufélaga sé búið að marka sér sérstöðu í þeim málum sem gengur þvert á þá stefnu sem hæstv. sjútvrh. lét fylgja? Við skulum vel tala um atvinnumálin, hæstv. fjmrh., og ég skal tala við þig um þau. Við skulum tala um þau. Það er vandalaust.
    Auðvitað er staðreyndin sú, herra forseti, að ef hér væri heilbrigð stjórn í landinu og hefði verið, þá hefði umburðarlyndi verkalýðshreyfingarinnar verið svo mikið að ástæða er til að ætla að unnt yrði að koma hér á því jafnvægi í landinu sem dygði til þess að atvinnuöryggi væri sæmilegt og lítil verðbólga. En því miður eru sakir ekki þannig. Það hefur verið upplýst að lífskjör hafa versnað mjög mikið á þessu ári og ég hef tekið eftir því að hæstv. fjmrh. talar um það sérstaklega og telur það sér til mikils gildis að honum skuli hafa tekist að skerða launakjörin í landinu. En á hinn bóginn væri kannski fróðlegt að fá að vita hvort hæstv. fjmrh. telur að það óöryggi sem nú er á vinnumarkaði muni minnka eða aukast við þá miklu skattheimtu sem hér er í landinu. Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar.
    Nú þýðir ekki fyrir mig, herra forseti, að bera efnislegar spurningar, ekki einu sinni um skattamál fram við hæstv. fjmrh. af því að hann lítur ekki svo á að hann hafi þingskyldum að gegna, enda ekki þingmaður sjálfur. Það er auðvitað mjög dapurlegt þegar stjórn þingsins er með þeim hætti að ráðherrar komast upp með slík vinnubrögð, mjög dapurlegt. Ég veit að þó ég mundi leggja þinglega fsp. fram sem mundi knýja ráðherrann til að svara þannig, þá yrði samt sem áður reynt í sameinuðu þingi að draga á langinn að ég fengi svarið eins og gert er í sambandi við þær fyrirspurnir sem nú liggja fyrir í sameinuðu þingi og stendur upp á hæstv. fjmrh. að svara. En ég held að ég verði samt að spyrja hann. Og ég held að hann verði, hvað sem öðru líður, að svara þessari spurningu. Hann er búinn að leiðrétta að hann hafi reiknað vitlaust um hálfan milljarð, um tvo milljarða í sambandi við virðisaukaskattinn. Hann er búinn að viðurkenna það með skjali til fjölmiðla sem afhent var 11. okt. --- Herra forseti, ég var að hafa orð á því að

það væri ein spurning sem ég krefðist þess að hæstv. fjmrh. svaraði hvað sem öðru liði. Ég vil vekja athygli á því. Það gefur auðvitað hæstv. ráðherra tilefni til að hefja umræður um annað. Þetta er náttúrlega ekki stjórn á fundinum og þetta gengur ekki. Þetta var auðvitað alveg siðlaust, algerlega siðlaust, ekki aðeins af hæstv. fjmrh. heldur líka sjútvrh. Og það er lágmark þegar þingmaður snýr sér til fjmrh. og segir að það sé a.m.k. ein lágmarksspurning sem ætlast sé til að hann svari, að hann hlusti rétt á meðan, sé ekki alltaf í leikaraskap, sé ekki alltaf að stilla sér upp, taki alvarlega á því sem honum er trúað fyrir.
    Það er viðurkennt í plöggum sem við höfum fengið í fjh.- og viðskn. í sambandi við virðisaukaskattinn að reiknað var vitlaust um tvo milljarða a.m.k. Það stendur hér í þessu plaggi að 26% virðisaukaskattur gefi jafnmikið af sér og 25% söluskattur. Nú hefur verið ákveðið að lækka virðisaukaskattinn um 1,5%. Og enn segir ráðherrann að þetta gefi svipað af sér. Þýðir þetta þá ekki að hægt sé að lækka aðra skatta í staðinn? Eða hvað? Spurning mín er: Ætlar hæstv. fjmrh. að ná í þessa tvo milljarða hvort sem er? Ef svo er að hann ætlar að ná í þessa tvo milljarða hvort sem er er það yfirlýsing um að þetta hér var blekkingarplagg, sett fram í því skyni að glepja stuðningsmenn sína í stjórnarliðinu til að fallast á skattheimtu sem var 2 milljörðum meiri en þeir vildu fallast á. Það er um þetta sem nauðsynlegt er að fá yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh. vegna þess að formaður fjh.- og viðskn. lýsti því yfir í umræðum um þetta sérstaka mál hér að hann hefði fallist á óbreytta skattheimtu. Og það er þessu sem hæstv. fjmrh. verður að svara og við höfum nægan tíma, herra forseti, til að knýja svarið fram á þessum dögum sem eftir
lifa til jóla.