Vísitala byggingarkostnaðar
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um vísitölu byggingarkostnaðar nr. 42 30. mars 1987.
    Frv. er flutt af fjh.- og viðskn. að beiðni Hagstofu Íslands. Frv. er tvær greinar. Fyrri greinin er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir ákvæði til bráðabirgða í lögunum komi nýtt ákvæði svohljóðandi:
     Ákvæði til bráðabirgða II.
    Eftir upptöku virðisaukaskatts hinn 1. jan. 1990 skal Hagstofa Íslands við útreikning vísitölu byggingarkostnaðar frá og með janúar 1990 taka tillit til endurgreiðslna virðisaukaskatts af byggingu íbúðarhúsnæðis vegna vinnu á byggingarstað, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 59/1988, með áorðnum breytingum, þannig að endurgreiddur virðisaukaskattur sé dreginn frá byggingarkostnaði reiknuðum með fullum virðisaukaskatti.``
    Og 2. gr. er gildistökugrein.
    Til nánari útskýringar kemur eftirfarandi fram í grg. nefndarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Frv. þetta er að beiðni hagstofustjóra til að taka af vafa um útreikning og notkun vísitölu byggingarkostnaðar eftir upptöku virðisaukaskatts og endurgreiðslu hans til íbúðarbyggjenda vegna vinnu á byggingarstað.
    Í frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt er gert ráð fyrir að byggjendum íbúðarhúsnæðis verði endurgreiddur útlagður virðisaukaskattur af vinnu manna á byggingarstað. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti, og vera verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu. Þetta ákvæði er samið í samráði við Hagstofuna og telur hún að til þess að endurgreiddur virðisaukaskattur verði dreginn frá byggingarkostnaði við útreikning vísitölu byggingarkostnaðar þurfi eftirfarandi skilyrðum að vera fullnægt:
    1. að endurgreiðslan verði ekki skilyrt við annað en að um sé að ræða íbúðarbyggingu og vinnu manna á byggingarstað samkvæmt framlögðum reikningum,
    2. að ekki líði lengri tími en þrír mánuðir milli endurgreiðslna,
    3. að þær verði verðtryggðar.
    Enda þótt skilyrðum til þessa frádráttar sé þannig fullnægt er að dómi Hagstofunnar engu síður æskilegt að sett verði um þetta lagafyrirmæli til að taka af vafa og eyða óvissu í þessum efnum. Samkvæmt gildandi lögum um vísitölu byggingarkostnaðar er Hagstofunni falið að ákveða hvernig útreikningi vísitölunnar er háttað en því fylgja jafnframt ríkar skyldur til að sjá til þess að útreikningur vísitölunnar sé eins vandaður og afdráttarlaus og frekast er unnt. Af þeim ástæðum þykir rétt að kveða sérstaklega á í lögum um ofangreindan frádrátt virðisaukaskatts til þess að taka af allan vafa í þessu efni. Þá skiptir ekki minna máli að vísitölunni er óspart beitt við verðtryggingu, ekki síst í verksamningum, og að hún hefur þriðjungsvægi

í lánskjaravísitölu. Mikilvægt er því að ekki skapist óvissa um þessa notkun vísitölunnar og er ákvæðum þessa frv. ekki síst ætlað að koma í veg fyrir það.
    Þess skal að lokum getið að Hagstofan hyggst haga útreikningi sínum á vísitölu byggingarkostnaðar í fyrsta sinn eftir upptöku virðisaukaskatts þannig að frádráttarliðir verði tilgreindir sérstaklega. Þannig á að koma fram hvernig vísitalan breytist með fullum virðisaukaskatti annars vegar og eftir frádrátt endurgreidds virðisaukaskatts hins vegar.``
    Þetta er úr grg. frv. en eins og fram kemur þar er hér aðeins og aðallega um tæknilega útfærslu að ræða en ekki beinar efnisbreytingar frá því sem verið hefur og þetta er til þess að auðvelda Hagstofunni störf sín við útreikning byggingarkostnaðar og hvernig farið skuli með endurgreiðslu í virðisaukaskatti.