Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í þessu frv. er gert ráð fyrir margvíslegum breytingum á gildandi lögum og eru sumar þessar breytingar gerðar í beinu samhengi við það frv. um virðisaukaskatt sem einnig er til meðferðar hér á hv. Alþingi. Samhengi þessara tveggja frv. skýrist fyrst og fremst af því að með öðru þeirra, þ.e. frv. um virðisaukaskatt, er verið lækka hlutfall óbeinna skatta á Íslandi. En með þessu frv. er að sama skapi verið að breyta hlutfalli beinna skatta.
    Íslenska skattkerfið hefur nokkra sérstöðu meðal vestrænna ríkja vegna þess að við erum hér með óvenju hátt hlutfall óbeinna skatta, verðlagsskatta, en í flestum öðrum löndum er hlutfallið milli beinna og óbeinna skatta nokkurn veginn til helminga.
    Það hefur lengi verið skoðun erlendra og innlendra sérfræðinga um hagstjórn og efnahagsmál að nauðsynleg forsenda þess að stöðugleiki geti skapast í íslenska hagkerfinu sé að breyta þessu hlutfalli þannig að beinir skattar gegni meira hlutverki í tekjuöflunarkerfi íslenska ríkisins en hlutfall verðlagsskattanna, óbeinu skattanna, verði lækkað. Við þá breytingu verði
auðveldara að ná tökum á hagstjórninni og vega upp ýmsar hagsveiflur sem ella kynnu að setja hagkerfið úr skorðum.
    Heildaráhrif þeirra breytinga sem koma fram í þessu frv. og frv. um virðisaukaskatt eru í fyrsta lagi lækkun hlutfalls í virðisaukaskatti frá því sem það er í söluskatti sem leiðir til u.þ.b. 1% lækkunar á framfærslukostnaði heimilanna. Í öðru lagi veruleg lækkun eignarskatta sem fyrst og fremst snertir fólk með lágar tekjur sem verður undanþegið hærra þrepinu og í þriðja lagi breytingar á tekjusköttum sem hafa í för með sér léttari skattbyrði hjá barnafjölskyldum með lágar tekjur, einkum einstæðum foreldrum, en nokkra þyngingu hjá hátekjufólki.
    Tekjuskattar hjá tekjulágum barnafölskyldum lækka að meðaltali á milli áranna 1989 og 1990. Þetta kemur yfirleitt þannig út að endurgreiðsla ríkisins til einstæðra foreldra og tekjulágra hjóna með börn hækkar í krónutölu þar sem þessir aðilar greiða almennt ekki tekjuskatt. Hjá hjónum munar þetta upp undir 1% af tekjum þar sem skattbyrðin lækkar en hjá einstæðum foreldrum allt upp í 2% af tekjum.
    Eignarskattar einstaklinga lækka verulega á næsta ári, annars vegar lækkar háþrepið um helming, úr 1,5% eins og það er í dag niður í 0,75%. Jafnframt verður það tengt tekjum viðkomandi þannig að háþrepið fellur alveg niður hjá einstaklingum með 70.000 kr. eða minna í skattskyldar tekjur á mánuði og kemur það þá fyrst að fullu inn ef tekjurnar eru yfir 140.000 kr. á mánuði. Samsvarandi tala hjá hjónum eru tvöfaldar þessar upphæðir.
    Einnig eru í þessu frv. gerðar nokkrar breytingar á gildandi lögum um vaxtabætur vegna íbúðarkaupa sem ég mun koma að eftir smástund. Til viðbótar er einnig

að finna ýmsar breytingar á skattlagningu fjárfestinga einstaklinga í atvinnurekstri. Þessar breytingar fela í sér að rýmka gildandi heimildir til þess að auka eiginfjármyndun fyrirtækja. Þær breytingar, sem lagðar voru fram í frv. í upphaflegri gerð, voru í meðferð hv. Nd. klæddar í þann búning að þegar frv. birtist hér í hv. Ed. eru þessar heimildir orðnar enn rýmri en þær voru þegar frv. var lagt fram og tókst sú breyting með góðri samvinnu allra þingmanna í hv. Nd.
    Einnig er í þessu frv. að finna till. um breytingar varðandi skattalega með ferð spariskírteina ríkissjóðs og enn fremur breytingar varðandi skattfrelsi húsbréfa.
    Virðulegi forseti. Í greinargerð með frv. er að finna ýmis dæmi sem sýna hvernig þær breytingar, annars vegar á prósentu tekjuskattsins og hins vegar á persónuafslætti og barnabótum, koma út fyrir hina ýmsu tekjuhópa og þjóðfélagshópa. Ég ætla hins vegar ekki hér í þessari framsögu að fara að rekja þau dæmi ítarlega en þau sýna að mínum dómi það megineinkenni frv. að því er ætlað að virka til tekjujöfnunar frá því skattkerfi sem hefur verið gildandi á þessu ári. Tekjulágar fjölskyldur og barnafjölskyldur með miðlungstekjur munu þurfa að greiða lægra hlutfall af tekjum sínum í tekjuskatt á næsta ári en þær greiða í ár.
    Ég tel einnig fróðlegt að skoða áhrif þeirra breytinga sem gerðar voru í fyrra á tekjuskattinum og þeirra breytinga sem hér er lagt til að séu gerðar á skattbyrði hjóna með tvö börn og tekjur sem samsvara 120.000 kr. í dag, eða með öðrum orðum á skattbyrði lágtekjufjölskyldu. Árið 1988 var skattbyrði slíkrar fjölskyldu af tekjuskatti neikvæð um sem svarar 9,5% af meðaltekjum ársins. Fjölskyldan fékk greitt úr ríkissjóði sem samsvarar þessari upphæð. Árið 1989 var skattbyrði þessarar sömu fjölskyldu lækkuð um 0,6% af tekjum og greiðslan úr ríkissjóði hækkuð. Í þessu frv. er lagt til að skattbyrðin á árinu 1990 lækki enn þannig að þessi fjölskylda fái greitt úr ríkissjóði sem samsvarar um 10,7% af mánaðartekjum, en samsvarandi hlutfall var 9,5% árið
1988.
    Skattbyrði hefur þess vegna beinlínis lækkað um 1,2% af tekjum þrátt fyrir að skatthlutfallið hafi verið hækkað um 4,3%. Þessar tölur sýna þess vegna glöggt hvernig þær breytingar sem fela í sér hærra skatthlutfall í tekjuskatti en jafnframt hækkun persónuafsláttar og barnabóta geta leitt til aukinnar tekjujöfnunar og bætt kaupmátt lágtekjufólks.
    Sú breyting sem lögð er til á gildandi lögum um eignarskatt felur í sér, eins og ég gat um áðan, að hið sérstaka háeignaþrep er lækkað og tekjutenging er enn fremur tekin upp í eignarskattinum. Þar með verður ekki við lýði á næsta ári það einkenni skattsins sem einkum hefur verið gagnrýnt á yfirstandandi ári, að fjölskyldur eða einstaklingar sem búa í stóru húsnæði eða hafa miklar eignir en litlar tekjur beri hinn sérstaka háeignarskatt. Það þurfa að fara saman verulega háar tekjur og verulega miklar eignir til þess að slíkar fjölskyldur eða einstaklingar lendi í hinu sérstaka háa þrepi eignarskattsins.

    Í frv. er einnig að finna breytingar á vaxtabótum í húsnæðiskerfinu. En áður en ég kem að þeim breytingum finnst mér rétt að ítreka hér hvert er megineinkenni vaxtabótakerfisins og helstu frávik þess frá þeim tveimur kerfum sem nú eru í gangi.
    Í fyrsta lagi er hugsunin á bak við vaxtabótakerfið í meginatriðum sú sama og í vaxtaafsláttar- og húsnæðisbótakerfinu, þ.e. að létta undir með húsbyggjendum og íbúðarkaupendum með einhvers konar endurgreiðslu í gegnum skattkerfið.
    Í öðru lagi er þó sá grundvallarmunur á þessum kerfum að í vaxtabótakerfinu er jafnframt leitast við að koma til móts við almenn jöfnunarsjónarmið með því að fjárhæð vaxtabóta skerðist í hlutfalli við hækkandi tekjur. Jafnframt fá einstaklingar sem eiga miklar eignir skertar vaxtabætur eða jafnvel engar. Þetta þýðir að fjárhæð vaxtabóta er mjög misjöfn allt eftir vaxtabyrði, tekjum og eignum viðkomandi. Húsnæðisbætur eru hins vegar ákveðnar sem sama krónutala til alla.
    Í þriðja lagi er greiðsla vaxtabóta ekki takmörkuð við tiltekinn árafjölda eins og húsnæðisbótakerfið og vaxtaafsláttarkerfið. Einstaklingar fá því þá réttarbót með þessum breytingum að þeir geta komið til álita um greiðslur vaxtabóta hvenær sem er svo framarlega sem þeir uppfylla önnur skilyrði vaxtabótakerfisins.
    Í fjórða lagi er greiðsla vaxtabóta ekki takmörkuð við þá einstaklinga sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti líkt og gildir um húsnæðisbætur. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru þrenns konar. Veigamesta breytingin snýr að hækkun á eignarmörkum. Upplýsingar úr skattframtölum ársins 1989 benda til þess að nokkrar breytingar hafi orðið á eignastöðu framteljenda frá árinu áður en gildandi lög um vaxtabætur tóku mið af skattframtölum áranna 1987 og 1988. Þannig er meðaleign fjölskyldu nokkru hærri í dag en gert hafði verið ráð fyrir þegar eignarmörk laganna voru sett. Þá virðist líka hafa dregið talsvert úr mun á eignastöðu einstaklinga og einstæðra foreldra annars vegar og hjóna hins vegar á undanförnum árum. Í ljósi þessara nýju upplýsinga er lagt til að þau eignarmörk sem áður voru sett verði hækkuð um 30% að raungildi hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum og um 6--7% hjá hjónum. Það er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á því sem valdið hefur misskilningi í umræðunum um vaxtabætur og það er sú regla að miða við sömu eignarmörk hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum. Ástæðan er sú að samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum er eignarstaða, þ.e. skuldlaus eign, einstæðra foreldra mjög svipuð og hjá einstaklingum, jafnvel heldur lægri. Önnur breytingin á gildandi lögum um vaxtabætur snýr að skilgreiningu á eignarviðmiðuninni við ákvörðun vaxtabóta en það er eignarskattsstofn framteljenda. Þetta þýðir að skattfrjálsar eignir, verðbréf og fleira, skerða ekki rétt til vaxtabóta. Þar eru húsbréf og ríkisskuldabréf meðtalin.
    Með þessu frv. er hins vegar stefnt að víðari skilgreiningu á eignarviðmiðuninni við ákvörðun vaxtabóta þannig að hún nái til allra framtalsskyldra

eigna að frátöldum skuldum. Með því yrði aðstoðin við íbúðarkaupendur gerð markvissari, þ.e. þeir njóti hennar fremur sem helst þurfa á að halda.
    Þriðja breytingin gerir ráð fyrir hækkun á hlutfalli tekjuskerðingar úr 5% í 6%.
    Fjórða breytingin felst í því að sett er þak á þau vaxtagjöld sem geta komið til álita við ákvörðun vaxtabóta. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að tekjuháir einstaklingar með óeðlilega mikil vaxtagjöld hagnist meira á vaxtabótakerfinu en hinir tekjulágu.
    Í fylgiskjölum með frv. eru rakin nokkur dæmi sem sýna hvernig þetta kerfi kemur út.
    Virðulegi forseti. Í frv. er einnig að finna nokkrar aðrar breytingar sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér með tilliti til þess tíma sem við höfum hér til umráða. Hv. alþm. geta séð rökstuðninginn fyrir þeim breytingum sem enn er
að finna í frv. í þeirri framsöguræðu sem flutt var í hv. Nd. Ég vona að mér verði fyrirgefið þó ég vísi til þeirrar framsöguræðu hér í þessari hv. deild en geri það vegna tímaskorts. Ég hef hins vegar hér í minni framsögu vikið að þeim helstu atriðum sem einkum skipta máli í því frv. sem ég mæli hér fyrir.
    Ég legg svo til, virðulegur forseti, að að lokinni 1. umr. verði þessu frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.