Virðisaukaskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég mun hafa sama háttinn á og hæstv. ráðherra að tala ekki mjög lengi um þetta mál hér við 1. umr., geyma mér það fremur til 2. umr. eftir að hv. nefnd hefur fengið tækifæri til að skoða málið. Svo vill til að ég á sæti í hv. fjh.- og viðskn. og fæ þess vegna tækifæri til að ræða við þá menn sem eðlilegt er að nefndin ræði við þegar svo umfangsmikið mál er til meðferðar.
    Í gildandi lögum um virðisaukaskatt, sem áttu að taka gildi á miðju þessu ári, er skatthlutfallið 22%, en á sínum tíma lagði þáv. fjmrh., sem nú er hæstv. utanrrh., megináherslu á að skatthlutfallið hækkaði ekki úr 22%. Hann er nú fjarri góðu gamni og virðist hafa sætt sig við að skatthlutfallið hækki í 24,5%. Á þeim tíma sem hæstv. utanrrh. var fjmrh. var reiknað út í fjmrn. að virðisaukaskatturinn þyrfti að vera 23,5% til þess að tekjur ríkissjóðs samsvöruðu söluskatti eins og hann er nú, 25%. Í fjárlagafrv. var það hins vegar upplýst að núv. hæstv. fjmrh. hafði í hyggju að hækka skatthlutfallið í 26% og ná þannig inn talsverðum tekjum af skattkerfisbreytingunni sem frestað hafði verið til næstu áramóta. Mér er auðvitað ljóst að ekki er hægt að bera nákvæmlega saman þá útreikninga sem gerðir voru í upphafi árs 1988 og það sem gert hefur verið núna í haust. En eftir að hafa skoðað útreikninga nokkuð vandlega tel ég að ekki sé nokkur vafi á því að kerfisbreytingin, þrátt fyrir þær breytingar sem hafa verið gerðar og þá í menningarlegum efnum og fleiri, gefi ríkissjóði viðbótartekjur en rýri ekki tekjur sjóðsins eins og haldið hefur verið fram.
    Ég vil til viðbótar segja það að lauslegir útreikningar, ekkert síður en þeir sem liggja fyrir hjá fjmrn., benda til þess að þessi upphæð gæti verið á annan milljarð og bætist sú upphæð við þann tekjuauka sem allir viðurkenna að
verði af tekjuskattshækkuninni. Þar er gert ráð fyrir að tekjuskattar hækki og útvegi ríkissjóði tekjur að upphæð 1400 millj. og er þá búið að taka tillit til þeirra greiðslna sem fara í gegnum barnabótakerfið og ganga þannig út til þeirra sem eru barnmargir og til einstæðra foreldra. Það er því alveg ljóst að þetta frv. er, eins og önnur þau frumvörp sem þjóðin er að kynnast þessa dagana, fyrst og fremst skattahækkunarfrv.
    Þá hefur verið gagnrýnt nokkuð hvernig að undirbúningi hefur verið staðið. Ástæða er til að rifja upp að á sínum tíma, þegar lögin voru samþykkt, var sagt frá því í nefndaráliti að vissir hlutir ættu að skoðast rækilega í nefnd. Hún mun hafa hist framan af en á síðustu vikum og mánuðum hefur heldur farið lítið fyrir samstarfi fjmrn. við þá nefnd sem sett var til þessa verkefnis í upphafi. Raunar hefur því verið haldið fram af æðimörgum að undirbúningur málsins sé allur í skötulíki. Nú, þegar kemur að þeim dögum að taka skuli þennan skatt upp, nálgast undirbúningurinn eins konar óðagot hæstv. fjmrh. og liðs hans.

    Það þarf að koma fram hér, og snertir þessi mál auðvitað bæði og þá ekki síst tekjuskattsmálið, að allra nýjustu spár Þjóðhagsstofnunar sem gefnar voru út í kvöld að ég hygg benda til þess að verðlag komi til með að hækka meira frá meðaltali þessa árs til meðaltals næsta árs og laun minna en áætlað var í síðustu þjóðhagsspá sem gefin var út sl. haust en fjárlagafrv. hvílir á þeim forsendum. Þetta er auðvitað óhagstæðara fyrir tekjuskattsgreiðendur eins og reyndar var vitað og við höfum þegar fjallað um, þau sem hafa tekið þátt í umræðum um það mál.
    Ég kemst ekki hjá því, virðulegi forseti, að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra um örfá atriði sem snerta það frv. sem hér er til umræðu. Vil ég þá í fyrsta lagi nefna jöfnunargjaldið. Jöfnunargjald var sett á sínum tíma vegna söluskattskerfisins. Það var viðurkennt, ekki eingöngu af okkur Íslendingum, heldur jafnframt af þeim þjóðum sem við eigum helst viðskipti við og erum í bandalagi með, svo sem EFTA og Evrópubandalaginu, að Íslendingum væri heimilt að leggja jöfnunargjald á innfluttar vörur og standa þannig undir kostnaði við endurgreiðslu á svokölluðum uppsöfnuðum söluskatti, en það er sá söluskattur sem leggst ofan á söluskatt í framleiðslunni. Það var algerlega ljóst frá upphafi að þessi skattur, jöfnunargjaldið, hlyti að falla niður um leið og við samræmdum okkar löggjöf löggjöf annarra þjóða í virðisaukaskattsmálum.
    Nú bregður svo við að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að þetta gjald verði innheimt áfram og í frv. er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af því verði 500 millj. kr. Ég vil rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra, og hvet hann til þess að taka hér aftur til máls til þess að gera okkur ljósa grein fyrir þessu máli, að hæstv. ríkisstjórn gerði samning við Vinnuveitendasamband Íslands sl. vor. Í þeim samningi, sem dagsettur er 30. apríl og var gerður í tengslum við kjarasamninga, segir skýrt og skorinort: ,,Jöfnunargjald af innfluttum vörum verði hækkað tímabundið úr 3% í 5% og fellur niður þegar virðisaukaskattur kemur til framkvæmda.`` Þetta er orðrétt úr samkomulagi hæstv. ríkisstjórnar, sem hæstv. fjmrh. á aðild að, og Vinnuveitendasambands
Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna.
    Raunar er annað í því samkomulagi sem ekki hefur verið staðið við. Þá á ég við vörugjaldið. Í tengslum við breytinguna sem nú á sér stað um áramótin skuli gerðar breytingar á lögum um vörugjald. Ég ætla ekki að þreyta ráðherrann á spurningum um það atriði, en bráðnauðsynlegt er að hæstv. ráðherra tjái sig hér frekar um jöfnunargjaldið en hann hefur þegar gert. Mér er sagt að hæstv. ráðherra ætli sér að gefa út lista yfir þær vörur sem jöfnunargjald verður ekki heimt af. Þennan lista, ef þetta er rétt, verður auðvitað að sýna hv. nefnd áður en málinu lýkur, ef standa á þannig að málinu. Í öðru lagi er afar nauðsynlegt að hæstv. ráðherra segi frá því hvernig ferill jöfnunargjaldsins á að vera á næsta ári. Það er ljóst að 5% gjald gæti skilað ríkissjóði jafnvel milljarði í tekjur en með því að heimta aðeins um 500 millj.

hlýtur að vera gert ráð fyrir því að það fari stiglækkandi á næsta ári. Með einhverjum hætti verður að skýra það hvernig hæstv. ráðherra ætlar að standa að því að fella niður þennan skatt eins og boðið er í samningum okkar við aðra aðila. Allar skýringar hæstv. ráðherra á því að þetta sé skattur sem sé lagður á með samsvarandi markmið í huga og þegar aðrar þjóðir leggja á einhvers konar byggðaskatta er auðvitað út í hött því að hækkað vöruverð hér á landi styrkir auðvitað kaupmennina í Glasgow í samkeppni við kaupmennina á Íslandi. Niðurstaðan af þessum skatti er þveröfug við það sem hæstv. ráðherra hefur stundum haldið fram, að skatturinn sé lagður á til að styrkja okkur vegna þess hvað við búum hér nánast á mörkum hins byggilega heims. Hæstv. ráðherra verður að laga til rökin sem hann ætlar að nota ef heimta á þennan skatt áfram sem auðvitað er ekki eingöngu siðlaust heldur líka löglaust.
    En varðandi jöfnunargjaldið hlýtur maður þá að spyrja jafnframt: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera vegna endurgreiðslna á uppsöfnuðum söluskatti, vegna framleiðslu á þesu ári? Annars vegar er iðnaðurinn, en auðvitað á að nota hluta af þessu gjaldi til að greiða það sem þar á vantar. Í raun er ekkert í fjárlögunum sem bendir til þess að hæstv. ráðherra ætli að greiða útflutningsiðnaðinum þá fjármuni sem lögboðið er, þ.e. þá fjármuni sem hafa safnast upp vegna þess að skattur leggst á skatt. Hafi hæstv. ráðherra í hyggju að greiða það að einhverju marki af jöfnunargjaldinu verður það að koma fram í fjárlögum gjaldamegin og má ekki undir nokkrum kringumstæðum líta á það sem rétt bókhald af hálfu ríkisins ef sú endurgreiðsla er dregin frá jöfnunargjaldinu teknamegin í fjárlögum. Á þetta legg ég gífurlega mikla áherslu og kýs að spyrja hæstv. ráðherra hvernig farið verður að með þetta atriði.
    Þótt ekki gildi nákvæmlega það sama um sjávarútveginn og hæstv. ríkisstjórn hafi kannski frjálsari hendur um hvernig hún ætlar sér að endurgreiða svokallaðan uppsafnaðan söluskatt í sjávarútvegi, er þó ljóst að um áramótin munu vera til birgðir í landinu sem enn er eftir að greiða af uppsafnaðan söluskatt. Skv. upplýsingum sem liggja fyrir eru birgðir nú svo miklar að það vantar um 100 millj. í uppsafnaðan söluskatt og gera má ráð fyrir því að sú upphæð a.m.k. tvöfaldist fram að áramótum. Spurning mín til hæstv. ráðherra, sem ég tel eðlilegt að hann svari hér og nú við þessa 1. umr., er: Ætlar hæstv. ríkisstjórn að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt, annars vegar í iðnaði eins og lög bjóða, hins vegar í sjávarútvegi? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra eyða jöfnunargjaldinu eða hvað þýðir talan 500 millj. þegar ljóst er að 5% gefa talsvert hærri upphæð á heilu ári? Og loks: Er það rétt sem hefur heyrst að hæstv. ráðherra ætli að útbúa lista yfir vörur sem ekki eiga að bera jöfnunargjald? Sé svo þá er fyllsta ástæða til þess að spyrja um það atriði. Reyndar má vera að sá sem benti mér á þetta hafi í sínu máli ruglað saman þessu atriði og öðru sem snýr að gjaldfresti í tolli, en það breytir ekki því að hæstv.

ráðherra þarf skýrlega að segja hvernig farið verður með jöfnunargjaldið.
    Ég vík ná næst að gjaldfresti í tolli. Ég held það fari ekkert á milli mála að það er samdóma álit allra þeirra sem koma nálægt atvinnurekstri, hvort sem er í iðnaði eða verslun, sjávarútvegi eða landbúnaði, að allir sem standa í atvinnurekstri eru sammála því að gjaldfrestur í tolli á virðisaukaskatti er mjög mikilvægt mál og líklega mikilvægasta málið. Það er alveg ljóst að sú fjárbinding sem mun eiga sér stað ef heimta á virðisaukaskatt strax við tollafgreiðslu mun leiða til þess að gjaldþrotum mun fjölga mjög verulega strax á næsta ári og finnst þó ýmsum nóg það sem gerst hefur á þessu ári og því síðasta.
    Ég hef heyrt þá ræðu áður sem hæstv. ráðherra flutti hér áðan um að virðisaukaskatturinn sé til bóta fyrir verslunina. Ég hef hins vegar heyrt þá sem stunda verslun tala gegn því sjónarmiði á fundi sem hæstv. ráðherra var á og ég hygg að til að byrja með og einkum hjá þeim sem minni eru sé alveg ljóst að um verulega fjárbindingu er að ræða sem annaðhvort hlýtur að skila sér í hækkun vöruverðs eða þá skila sér vegna hækkaðra vaxta eða óhagkvæmari innkaupa í því að fyrirtæki sem nú eru við lýði fari á hausinn.
    Ég tel að hæstv. ráðherra eigi að standa við það sem forveri hans sagði
þegar lögunum var breytt á sínum tíma og tekið var inn ákvæði sem mig minnir að sé í 34. gr. laganna og felur í sér heimild fyrir hæstv. ráðherra til að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli. Þetta er það mál sem langflestir hamra á að sé stóra málið. Þótt mönnum beri ekki saman um hvað þetta þýði í verðhækkunum, þá telja þeir lágmarkið í hækkunum 0,5%. Það er fulltrúi ráðuneytisins sem spáir því en nefndar hafa verið tölur allt upp í 4% hækkun á vöruverði. Sé svo að í þessu máli sé ætlunin að gera mun á þeim sem fá gjaldfrestinn, sumir eigi að fá gjaldfrest en aðrir ekki, þá er alveg bráðnauðsynlegt að þegar við þessa umræðu, áður en málið fer til nefndar í síðari deild, liggi slíkar upplýsingar fyrir. Það kann að hafa afgerandi þýðingu fyrir það hver afstaða manna verði til málsins.
    Næst langar mig, virðulegur forseti, til að víkja að máli sem hefur líka þýðingu og ekki smáa en það er að verulegt niðurgreiðslufé virðist vanta í fjárlagafrv. Bæði Ríkisendurskoðun og eins fjmrn. hafa viðurkennt að vöntunin sé um það bil 550 millj. kr. Menn geta þá spurt: Hvað hefur það með þetta mál að gera? Jú, það hefur með þetta mál að gera vegna þess að það er gert ráð fyrir því að endurgreiða eigi hluta af söluskatti á heildsölustigi eða til þeirra sem versla með vörurnar á heildsölustigi í ákveðnum vöruflokkum, þar á meðal í vöruflokkum sem nú eru niðurgreiddir. Endurgreiðslan er frádráttartala af innheimtum virðisaukaskatti en það hefur auðvitað mikla þýðingu hver niðurgreiðslan verður. Það er samdóma álit ráðuneytismanna og annarra að ef áfram vantar þessar 550 millj. megi gera ráð fyrir því að það leiði til 7--9% hækkana á þessum tegundum, þ.e. dilkakjöti og mjólk. Með öðrum orðum: Langsamlega

stærsti hluti þeirrar lækkunar sem verður vegna áforma um að endurgreiða söluskatt á þessum vörum verður aftur tekinn vegna þess að það vantar svo mikla peninga í niðurgreiðslufjármuni ríkissjóðs. Ég hef heyrt ávæning af því að hæstv. ríkisstjórn ætli að laga þetta lítils háttar með því að setja kannski 100--200 milljónir í þessa niðurgreiðsluhít en það dugir ekki til.
    Það er alveg ljóst að áform hæstv. ríkisstjórnar eins og þau birtast í fjárlagafrv. leiða til þess að vöruverð á þessum niðurgreiddu vörum mun hækka verulega þannig að endurgreiðslan skilar sér ekki nema að mjög litlum hluta. Því til viðbótar hafa þeir sem eru í samkeppni við þessar greinar sínar áhyggjur, t.d. þeir sem stunda svína- og kjúklingarækt. Þeir spyrja eðlilega til hvaða ráða eigi að grípa til þess að tryggja það að sú niðurgreiðsla sem þeir fengu á sínum tíma verði ekki af þeim tekin í tímans rás vegna þess að niðurgreiðslurnar eru bundnar í krónutölu. Þetta er auðvitað réttmæt spurning sem verður að leggja fyrir hæstv. fjmrh. þegar við næstu umræðu málsins.
    Þá kem ég að mjög mikilvægum þætti sem eru sveitarfélögin. Ég skal nú fara hraðar yfir. Þar liggur það fyrir að gangi frv. fram eins og það stendur nú munu sveitarfélögin í landinu þurfa að borga líklega um 900 millj. kr. umfram það sem þau borga í dag í söluskatt af framkvæmdum og rekstri.
    Í dag fengu þingmenn senda frá Sambandi ísl. sveitarfélaga hugmynd að texta sem mundi vera strax til bóta og það er full ástæða til þess að vekja athygli á þeirri tillögu. Í tillögunni sem er dags. 18. des., þ.e. í dag, segir svo, með leyfi forseta:
    Við 2. gr. frv. bætist ein málsgrein, sem verði 5. mgr., svohljóðandi:
    ,,Undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. innskatti, er þó lögskyld starfsemi sveitarfélaga sem ekki er rekin í samkeppni við starfsemi á almennum markaði, svo sem bygging og rekstur grunnskóla og dagheimila, gatna- og holræsagerð og viðhald þeirra mannvirkja og unglingavinna.``
    Með öðrum orðum: Það er ætlun hæstv. ríkisstjórnar að skattleggja holræsagerð þannig að ríkissjóður kemur til með að fitna eftir því sem Reykvíkingar leiða úrganginn úr sér lengra hér út á flóann, þess meira fær ríkissjóður í sinn hlut. Þetta er orðinn tekjustofn fyrir ríkissjóð að leggja gjöld á slíkar framkvæmdir. Og það sama gildir um skóla og dagvistarheimili sem við hér, fjárveitingavaldið, knýjum sveitarfélögin með lögum til að taka að sér. Við krefjumst þess að sveitarfélögin standi fyrir þessari lögboðnu starfsemi og gerum hana síðan að tekjustofni fyrir ríkissjóð.
    Ég get upplýst það hér að gengið hefur verið úr skugga um það nú síðast í dag með skeytasendingum til Danmerkur að í Danmörku er slíkur skattur ekki lagður á sveitarfélögin. Sveitarfélögin eru undanþegin virðisaukaskatti. Það liggur fyrir.
    Þess vegna fagna ég yfirlýsingu hæstv. ráðherra þegar hann ýjaði að því í sinni ræðu að þetta mál þyrfti að leysa en ég tel nauðsynlegt að þetta mál

verði leyst áður en frv. er afgreitt frá Alþingi því að ég hef enga trú á lausnum eftir að þetta frv. er orðið að lögum og bendi á að árum saman, a.m.k. í áratug, jafnvel í einn og hálfan áratug gekk hvorki né rak í Danmörku í þessum efnum og ég hygg að einasta ástæðan fyrir því að þetta fór ekki inn í íslensku lögin á sínum tíma hafi verið sú að þegar --- ja, ég leyfi mér að segja virðisaukaskattslögin íslensku voru þýdd úr dönsku lögunum, sem er nú kannski ekki alveg sanngjarnt að segja en ég hygg að þau hafi svona að mestu
leyti verið þýdd úr dönskum lögum eins og við gerum nú æðioft þegar embættismenn starfa að slíkri lagasmíð, þá hafi slíkt ákvæði ekki verið komið inn í dönsku lögin því að þetta ákvæði kom ekki inn í dönsku lögin fyrr en árið 1985.
    Þetta bið ég hæstv. stjórnarsinna um að átta sig á og athuga því að það skiptir auðvitað sveitarfélögin mjög miklu máli að sú kerfisbreyting sem nú á sér stað leiði ekki til þess að sveitarfélögin, sem samkvæmt lögum þurfa að stunda ákveðna starfsemi, séu gerð að féþúfu fyrir ríkissjóð.
    Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að nefna það hér að varðandi byggingar og endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna byggingarframkvæmda hefur verið bent á það að kannski sé eðlilegt að slík endurgreiðsla eigi sér stað á tveggja mánaða fresti, á sama tíma og virðisaukaskatturinn er innheimtur. Það er til samræmis og nákvæmlega sömu rök sem gilda um þetta eins og þegar hæstv. fjmrh. kom hér í ræðustól fyrir nokkrum dögum síðan og skýrði út fyrir okkur að það væri bráðnauðsynlegt að hafa gjalddaga launaskattsins fleiri til samræmis við staðgreiðsluna. Þess vegna hlýtur að mega með sömu rökum segja að það sé eðlilegt að endurgreiðsla virðisaukaskattsins í byggingarstarfseminni fari fram á sömu tímabilum og skatturinn er heimtur inn af ríkissjóði.
    Ég hef jafnframt efasemdir um 7% regluna í frv. og tel að þar sé ekki tekið tillit til þess að fasteignamatsverð er ákaflega misjafnt eftir því hvar á landinu við erum. Ég hef líka efasemdir um það að rétt sé að setja það skilyrði að þessi 7% --- og þá á ég við að endurbætur á húsum og viðhald þurfi að vera 7% af fasteignaverði --- þurfi að vera bundin almanaksárinu. Það skiptir mun meira máli að heildarendurnýjun húsnæðisins nemi ákveðinni krónutölu en hvaða hraði er viðhafður til þess að koma þeim framkvæmdum í kring eins og ætla má að þurfi að gerast ef lögin verða samþykkt óbreytt.
    Það er, virðulegur forseti, nokkuð sérkennilegt að skoða að það er mikill áhugi á því, og hefur komið fram í frv., að herða refsiviðurlögin og tvöfalda þau, dagsektir, á sama tíma og við vitum að það verða miklu fleiri greiðendur sem eiga eftir að greiða virðisaukaskattinn miðað við þann fjölda sem greiddi söluskattinn. Hefði manni fundist að það þyrfti einhverja aðlögun fyrir þann stóra hóp sem lendir án efa í miklum erfiðleikum við að telja fram til þessa skatts, ekki síst vegna þess að hæstv. fjmrh. og starfsfólk hans hefur verið með seinni skipunum að

koma frá sér ýmsum reglugerðum sem þetta fólk þarf að búa við.
    Það hefði verið, virðulegur forseti, ástæða til þess að fara hér í nokkur atriði, eins og hvort ræsting sé skattskyld eða ekki, t.d. á hótelum, spurninguna um það hvort hæstv. ráðherra telji kartöflur vera grænmeti en samkvæmt öðrum lögum er gerður munur á garðávöxtum og grænmeti og teljast þá kartöflur til garðávaxta. En nú vill svo til að í þessum lögum teygja skattasérfræðingar og lögfræðingar ríkisskattstjóra sig svo langt að telja kartöflur vera grænmeti og bætist þá við vinnu lögfræðinganna sem þurfa í framtíðinni að segja til um það hvað sé grænmeti og hvað séu garðávextir og hvort kartöflur séu í þessum lögum grænmeti en í öðrum lögum garðávextir.
    Það hefði líka verið ástæða til þess að fjalla hér um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til sérfræðinga og benda kannski rækilega á það --- og það er ágætt að hæstv. dómsmrh. hlusti á það --- að þeir einu sem koma til með að greiða virðisaukaskatt af lögfræðiþjónustu eru fólkið sem hefur lent í einhvers konar erfiðleikum. Fyrirtækin geta varpað af sér skattinum og hið opinbera. Það eru einungis einstaklingarnir sem hafa lent í erfiðleikum, fjárhagserfiðleikum eða einhverjum öðrum, sem munu verða endanlegir greiðendur þessa virðisaukaskatts. Þess vegna er ákaflega eðlilegt að eftir því sé gengið hvort hæstv. ríkisstjórn, þar á meðal hæstv. dómsmrh., ætli sér að gera eitthvað viðlíka og gert hefur verið í öðrum löndum til þess að koma til móts við það fólk sem verst fer út úr virðisaukaskattinum, en það er einmitt þetta fólk því aðrir sitja ekki uppi með skattinn.
    Að síðustu, virðulegur forseti, ætla ég hér í þessari stuttu ræðu að minnast á eitt atriði og það varðar skuldajöfnun. Hæstv. ráðherra hefur í stíl við sín tök á ríkisfjármálunum bent á að nú verði þessi skattur, virðisaukaskatturinn, ekki greiddur út nema til þeirra sem eru skuldlausir hjá ríkissjóði. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að skatturinn sé greiddur út til allra. Ef þeir hins vegar skulda ríkissjóði þá hlýtur það jafnframt að vera krafa að kröfur á ríkissjóð eða ríkisstofnanir geti líka komið til móts við hinar kröfurnar og þannig sé skuldajafnað að fullu. Það er óverjandi að ríkissjóður hafi þau forréttindi í þessu þjóðfélagi að hann geti ávallt með vald á bak við sig gengið að fólki og fyrirtækjum, jafnvel þeim sem eiga stórfé hjá ríkissjóði. Það er þess vegna krafa, ekki bara hjá mér sem þessi orð tala hér heldur hjá fjölmörgum öðrum, að sama verði látið yfir alla ganga og ef ríkissjóður eða stofnanir ríkisins skulda viðkomandi fyrirtækjum þá beri jafnframt að taka tillit til þess. Það væri óverjandi að neita að borga út virðisaukaskattinn til fyrirtækja sem skulda ríkissjóði ef þau sömu fyrirtæki eiga síðan inni stórupphæðir hjá ríkinu. En slíkt getur hent og í raun hefur það hent mörg
fyrirtæki að eiga inni hjá ríkinu, skulda opinber gjöld á hæstu vöxtum en fá ekki vaxtagreiðslur hjá

ríkisstofnunum og slíkt er ekki hægt að þola til lengdar.
    Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um það að hæstv. ráðherra er að mæla fyrir frv. í hv. Ed. og kannski mun verða einhver bið á því að hann geti svarað þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans. En ég vænti þess að hann geti gert það annaðhvort síðar í þessari umræðu eða látið starfsmönnum sínum þessi svör í té og komið þeim til hv. nefndar sem tekur til starfa í fyrramálið. Ef hann má eigi heyra mín orð þá vildi ég a.m.k. fara þess á leit við flokksbróður hans sem situr í hv. nefnd að ganga eftir því að þessar upplýsingar bærust til nefndarinnar beint. Því að þótt hæstv. ráðherra sé töframaður mikill, þá hef ég skilning á því að hann getur ekki staðið í tveimur ræðustólum í einu.