Virðisaukaskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Svo ég taki nú upp þráðinn þar sem hv. 1. þm. Reykv. sleppti þá finnst mér ekkert furðulegt að hæstv. fjmrh. skuli ekki geta verið í tveimur ræðustólum í einu. En mér þykir nokkuð furðulegt að verkslag skuli vera slíkt að hann skuli í raun vera að mæla fyrir tveim stórmálum, málum sem varða alla þegna þessa lands, á einum og sama tíma. Sú ráðstöfun sýnir ekkert annað en þá fyrirlitningu og þá lítilsvirðingu sem þessari samkundu er sýnd og þeim sem hér vinna. Enda segir mér svo hugur um að það að ekki aðeins hæstv. fjmrh. er fjarstaddur heldur og allir aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar og flestir hv. þm. sé einmitt dæmi um þá veiku stöðu sem þingið er í.
    Það eru líklega allir sér þess vel meðvitandi að hér er málum ekki ráðið. Hingað eru mál aðeins send formsins vegna en allt vald er í höndum framkvæmdarvaldsins. Það er helst þegar kemur að einhverjum minni málum sem þingmenn fá hugsanlega einhverju ráðið eða einhverju um breytt. Fjarvera hæstv. fjmrh. undirstrikar þetta með þeim hætti að það verður ekki hjá því komist að nefna þessa staðreynd. ( Forseti: Vegna orða hv. ræðumanns vill forseti taka fram að hann er tilbúinn að fresta þessari umræðu um sinn. Slíta þessum fundi sem nú er haldinn, boða nýjan fund að fimm mínútum liðnum og taka þar fyrir atkvæðagreiðslur í fjórum málum, ef heimilt verður, til þess að reyna að hafa hæstv. fjmrh. á þessum fundi þegar fram verður haldið umræðunni um virðisaukaskatt.) Virðulegur forseti. Ég þakka þetta boð en ég hef ekki farið fram á að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur og mun ekki gera það, ég lýsi einungis furðu minni á þessu verklagi. Ég ásaka ekki virðulegan forseta þessarar deildar en vil aðeins ítreka að ég held að þetta vinnulag sé einmitt til marks um stöðu þessa þings og valdajafnvægi framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Það sést einmitt líka með þeim hætti að jafnvel þegar stórmál eins og upptaka nýs skattkerfis, stórfelld kerfisbreyting er í
uppsiglingu, þá sjá ekki einu sinni hv. þm. ástæðu til að vera viðstaddir. Og það er ekki af leti eða ómennsku, held ég, sem það er, heldur að þeir vita líka ósköp vel að hér talar einn fulltrúi hvers þingflokks svona fyrir kurteisis sakir og forms sakir og til þess að skjalfest sé afstaða hans þingflokks í hverju máli, en að það sem hér verður sagt breyti engu í málinu.
    Að þessum orðum sögðum mun ég þá verða mjög stuttorð að sinni um innihald frv. en gera því þá betri skil á morgun í þeirri von að a.m.k. hæstv. fjmrh. verði þá viðstaddur. Ekki er ég svo bjartsýn að halda að það breyti en ég vil þó gjarnan að hann heyri eitthvað af máli mínu og afstöðu Kvennalistans í þessu máli.
    Það er líkt með þetta mál eins og mörg önnur mál hér á þinginu og er enn eitt dæmi auðvitað um þá sýndarmennsku sem raunverulega er í því fólgin að

vera yfirleitt að taka frv. hér inn á þingið --- og mundu menn sjálfsagt sleppa því ef það væri ekki bundið í lögum --- þeim er hrúgað hér inn á síðustu stundu, hverju stórmálinu á fætur öðru. Það er ekki ætlast til þess að þau fái umfjöllun, þau eiga bara að þeytast í gegn og fá þar stimplun. Virðisaukaskatturinn er engin undantekning. Hann er nú til 1. umr. hér í Nd. og aðeins nokkrir dagar eftir af þingi og skyldi maður þó ætla að slíkt stórmál tæki nokkra daga í umræðu. Slíkur er asinn að jafnvel þurfti að fá fyrir því leyfi, sem vissulega var gefið, að taka málið fyrir í fjh.- og viðskn. Nd. áður en það kom til 1. umr. í deildinni. Ég vil taka það fram að það var með fullu samþykki allra í nefndinni, enda býst ég við að allir hafi séð hag sinn í því að fá þá tækifæri til að kynnast málinu örlítið áður en það kæmi til deildarinnar.
    Það verður ekki hjá því komist að víkja aðeins til baka og rifja upp sögu þessara laga sem nú er verið að leggja til brtt. við. Í fyrsta lagi verður að nefna að þessi lagasetning var mjög umdeild ráðstöfun. Menn greindi ekki á um að það væri ýmislegt sem þyrfti að athuga og ganga betur frá og því sáu nú stjórnvöld að sér og frestuðu gildistöku laganna en enn stöndum við þó í sömu sporum og segir mér svo hugur um að það hefði alveg eins verið hægt að taka þessi lög í gildi fyrr eins og til stóð vegna þess að fresturinn hefur ekki breytt nokkrum sköpuðum hlut. Jafnvanbúið kemur málið til framkvæmda og einungis tvær vikur nú til gildistöku og enn eru svo mörg mál óleyst, svo mörgum spurningum ósvarað að ekki einu sinni framkvæmdarvaldið getur svarað eða tryggt að það verði ekki hálfböksulegt þegar það kemst í framkvæmd.
    Það er í rauninni alveg með ólíkindum að jafnvel grundvallaratriði eins og álagningarhlutfallið sjálft skuli ekki hafa legið fyrir fyrr en núna fyrir 10 dögum eða svo. Ástæðan var sjálfsagt sú að þetta mikla mál var pólitískt þrætuepli og stjórnarsinnar virtust eiga í erfiðleikum með að koma sér saman um hve hátt stigið skyldi verða og er í rauninni kátbroslegt að eftir skuli standa að það þurfti í rauninni vantrauststillögu frá stjórnarandstöðunni til þess að stjórnin tæki sig nú saman í andlitinu, kæmi sér saman um skattstigið og opinberaði það alþjóð.
    Það er látið í veðri vaka að lækkun sé á skattstiginu. Þetta er jafnvel með
enn meiri endemum heldur en þegar verið er að halda því fram að hækkun tekjuskatts sé í rauninni lækkun því það er þó verið að reyna að gera það með einhverjum rökum en hér er farið með blekkingar einar. Í lögunum er kveðið á um 22% virðisaukaskatt og þó að einhverjum hafi dottið í hug í millitíðinni að líklega væri betra að hafa prósentustigið hærra og þó að söluskattur sé hærri, þá er það ekki það sama og að verið sé að lækka prósentustigið núna því að lögin hafa tekið gildi og þar var virðisaukaskattsstigið lögfest.
    Það liggur við að það mætti með sömu rökum halda því fram að ef einhverjum, t.d. hæstv. fjmrh.,

hefði nú dottið í hug að bera fram þau rök að líklega væri best að virðisaukaskatturinn yrði 59%, að með því að færa hann niður í 24,5% væri verið að lækka hann um helming. Og manni dettur raunar í hug að slíkur hefði sannfæringarkraftur hans verið hefði honum dottið þetta í hug að hann hefði e.t.v. trúað því sjálfur.
    Þó er kannski það versta í sögu þessa skatts það að inn í hann var laumað --- eða ekkert laumað, það fór ekki hljótt --- skatti á matvöru með því að leggja söluskatt á matvöru fyrir tveimur árum, hækka síðan söluskattsstigið á matvöru og festa það svo loks í sessi með þessari skattbreytingu. En þá hafði aðdragandinn verið svo langur, fólk hafði meðtekið þennan kross og borið hann í tvö ár og nú er eins og mjög fáum detti lengur í hug að hægt sé að leggja þennan kross af. Þetta er í rauninni mjög athyglisverð aðferð við það að koma vondu máli fram. Þegar málið í raun kemur til umfjöllunar, því það er í raun fyrst nú við gildistöku laganna sem það er endanlega staðfest að matarskattur skuli áfram vera í gildi, ætti að upphefja mikla baráttu gegn honum. En þá er þrotinn krafturinn hjá flestum og rétt eins og menn þakki fyrir að það skuli þó vera boðið upp á einhvers konar endurgreiðslur á nokkrum matvælategundum.
    Það er margt sem væri vert að gera að umtalsefni, bæði ýmist ranglæti sem felst í þessu frv. og hvað margt er óljóst hvað varðar framkvæmd. Ber þar flest að sama brunni að ónógur undirbúningur veldur. Og svo slæmur er hann að reglugerðirnar hrynja nú út úr ráðuneytinu hver á fætur annarri og fæstir hafa haft ráðrúm til þess að kynna sér framkvæmd skattsins. Verður fróðlegt að fylgjast með eftir áramótin hvernig bæði skattyfirvöldum og fyrirtækjum gengur að glíma við þennan skatt. Margir hafa auðvitað þegar lýst áhyggjum sínum, hreinlega viðurkennt að þeir viti ekki um fjölmörg áhrif og framkvæmd og aðrir kvarta undan kunnáttuleysi, þeir hafi ekki haft ráðrúm til þess að setja sig inn í hvernig hann skyldi framkvæmdur.
    Flest rök, sem höfð voru uppi fyrir gildistöku virðisaukaskatts, eru fallin um sjálf sig. Ein rök voru þau að þetta væri skattur sem yrði án undanþága og því svo auðveldur í framkvæmd. Veruleikinn er nú sá að við stöndum hér með frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Ekki ætla ég að lasta allar þær undanþágur sem þar eru veittar, síður en svo, en þessar fjölmörgu breytingar bera þess þó merki að ýmislegt var athugavert í upphafi. Það kann oft að vera erfitt að finna mörk í undanþágum, þ.e. hvað liggi innan skilgreiningar og hvað utan í hverjum undanþáguflokki, en enn erfiðara er auðvitað að finna eitthvert réttlæti í því hvað á að undanþiggja.
    Það er vel að hér er lagt til að nú verði bækur á íslensku, hvort sem þær eru þýddar eða frumsamdar, undanþegnar virðisaukaskatti, en sú undanþága á þó ekki að taka gildi fyrr en 16. nóv. á næsta ári. Maður á að vísu bágt með að skilja rökin fyrir því að ein undanþága skuli vera með þessum hætti þar sem öðru er ætlað að taka gildi 1. jan. nk. En fyrst á annað

borð er verið að flytja þessa undanþágu til þá er þessi dagsetning þó þess eðlis eða á þeim tíma að hún kemur sér mjög illa fyrir námsfólk. Það er einmitt það fólk sem getur ekki geymt bókakaupin þangað til í jólabókaflóðinu. Það verða þegar liðnar tíu vikur af skólaári og ekki auðvelt að gera sér í hugarlund að nemendur geti dregið bókakaup þar til eftir 16. nóv. Það er þá með þessa ráðstöfun eins og svo margar aðrar að auðvitað bitnar þetta verst á þeim námsmönnum sem minnst hafa fjárráðin og kemur í þeirra hlut að bíða með bókakaup fram yfir 16. nóv. Kvennalistakonur í Ed. fluttu brtt. við þessa ráðstöfun og mun hún eflaust endurflutt hér í Nd.
    Ég ætla ekki að fara að endurtaka hér ýmislegt sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um og rakti sig í gegnum. Ég mun fara nánar í það á morgun. Ég get þó tekið undir margt af því sem hann sagði, t.d. í sambandi við vandkvæði í byggingariðnaði, bæði hvað varðar greiningu á því hvað telst til viðhalds og hvað telst til endurbóta og eins hvað þær endurbætur þurfa að kosta mikið fé til þess að endurgreiðsla fáist. Eins er greinilegt af því sem viðmælendur nefnda hafa sagt að margt virðist benda til þess að ýmislegt í starfsemi í byggingariðnaði ýtist inn á svartan markað umfram það sem verið hefur --- og hefur nú mörgum þótt nóg um --- einmitt í byggingariðnaði.
    Varðandi hlut sveitarfélaganna og að virðisaukaskattur verði lagður á þá opinberu þjónustu sem sveitarfélög veita íbúum sínum, þá virtist mér hæstv. ráðherra hafa hér uppi einhver orð um að þau mál yrðu könnuð nánar og eftir upplýsingum að dæma virðist ekki vanþörf á. Það er oft haft á orði að við séum ekki nógu sjálfstæð í lagasetningu og þýðum þau gjarnan úr öðrum málum en svo
mun einmitt hafa verið í því landi sem helst virðist leitað til, Danmörku, að sveitarfélög þar lentu í þeim vanda sem sveitarfélög hér benda nú á að fram undan sé. Það liðu þó nokkur ár áður en ríkisvaldið þar tók við sér og færði til betri vegar. Vonandi er að við náum að girða fyrir sömu mistök í tíma.
    Hvað varðar skuldajöfnun þá er það réttlætismál að reynt verði að leiðrétta þann þátt frv. nú í meðförum þingsins. Það er auðvitað óþolandi að ríkið skuli geta tekið sér þann rétt umfram aðra að ganga að fyrirtækjum og krefja um gjald jafnvel þegar svo stendur á að ríkið skuldar því sama fyrirtæki hugsanlega meira heldur en krafa ríkisvaldsins hljóðar upp á. Kvennalistinn flutti sömuleiðis brtt. við þessa grein frv. í Ed. og mun hún endurflutt hér.
    Mig langar að taka hér eitt lítið dæmi um hvernig starfsgreinar eða jafnvel greinar í menntakerfinu geta dottið niður á milli stóla þegar til skilgreiningar kemur á því hvaða flokki einhver tiltekin grein tilheyrir. Það er þetta furðulega fyrirbæri sem allt í einu stendur eitt eftir, sem eru dansskólar. Í lögunum eru skólar undanskildir virðisaukaskatti, skólar og menntastofnanir. Síðan hefur verið bætt inn í t.d. ökuskólum og undir þetta flokkast m.a. tónlistarskólar, en ekki þykja dansskólar verðugir þess að lenda inni. Þegar kom að íþróttunum þá gegndi sama máli.

Almenningsíþróttir voru undanskildar. Síðan kom í ljós að mönnum hafði yfirsést að almenningur stundaði íþróttir mikið í heilsuræktarstöðvum. Þá var þeim kippt inn. En ekki taldist dansinn íþrótt svo ekki komst dansskólinn inn. Nú standa því danskennarar og aðrir sem að skólunum standa fullkomlega ráðalausir, vita ekki almennilega hvort þeir eiga að kalla sig listgrein eða íþrótt, gætu eflaust flokkast undir hvort tveggja en flokkast sem hvorugt og eru eins og hverjir aðrir munaðarleysingjar utan garðs. Þeim hefur vissulega verið bent á að þeir gætu gengið í Íþróttasamband Íslands. Jafnframt virðast þeir hafa fengið einhverjar upplýsingar um það að þeim mundi veitt inganga. En er það von að þeir spyrji: Af hverju ættum við að ganga í Íþróttasamband Íslands fyrirvaralaust? Af hverju er ekki hægt að viðurkenna dansinn á sínum eigin forsendum án þess að þvinga þá inn í einhver heildarsamtök sem þeir höfðu kannski aldrei hugleitt að ganga í?
    Ég spurði reyndar fulltrúa danskennara þegar hann mætti til viðtals í fjh.- og viðskn. Nd. hvort honum væri kunnugt um hve mörg börn á skólaaldri stunduðu nám í þessum skólum. Hann hafði þau svör ekki á reiðum höndum en það fer ekki á milli mála að þau skipta eflaust nokkrum þúsundum þegar allt er talið. Þetta er ekki ómerkilegri tómstundaiðja en ýmislegt annað sem börn leggja fyrir sig í tómstundum og sjálfsagt er hún mörgum gagnleg og holl. Oft var því t.d. haldið á lofti í sambandi við áfengisneyslu að það væri um að gera að unglingar, og þá aðallega unglingspiltar, lærðu að dansa því það gerði samskipti kynjanna á unglingsaldri auðveldari og því þyrftu menn síður að drekka í sig kjark til þess að nálgast hitt kynið. Nú veit ég ekki hvort þetta eru gjaldgeng rök lengur en það breytir því ekki að þessi iðja er engum óholl. Vona ég að þessir skólar verði ekki skildir eftir einir, næstum allra skóla, út undan og látnir gjalda virðisaukaskatts.
    Þá mun ég aðeins í lokin snúa mér að skatti á matvælum. Matvæli eiga að búa við sama skattþrep og öll önnur vara og þjónusta. Þó á að endurgreiða að hluta af nokkrum tegundum matvæla, þ.e. mjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti. Það hlýtur að vera miklu óöruggari aðferð að ætla að gera þetta í formi endurgreiðslu, og þá á ég við óöruggari fyrir neytendur, að lækka verð matvæla með endurgreiðslum í stað þess að lögfesta það með skattþrepinu sjálfu. Það er miklu hægara um vik fyrir stjórnvöld að möndla fram og til baka með endurgreiðslur og hvernig að þeim skuli staðið, fela sig á bak við hugsanlega aðrar verðhækkanir eða breytingar sem kunna að verða og þannig kannski verður útkoman sú að í raun verður lækkunin engin. Auk þess er harla lítið vit að finna í því hvers vegna einungis þessir fjórir flokkar, þ.e. mjólk, dilkakjöt, neyslufiskur og innlent grænmeti, eigi að vera inni í þessu endurgreiðslukerfi. Það tekur sem sagt ekki yfir alla íslenska matvælaframleiðslu og stórmismunar þannig kjötframleiðslu á Íslandi. Hvorki framleiðendur svínakjöts né kjúklingakjöts njóta góðs af þessum

endurgreiðslum, eða réttara sagt neytendur þessara matvæla. Og þegar heyrast raddir um að þetta verði til þess að ýta undir þá sem halda því á lofti að betra og hagkvæmara sé á allan hátt að flytja inn landbúnaðarafurðir. Það skyldi þó aldrei vera að fyrsta glufan opnaðist þarna.
    Í öðru lagi er ekki hægt að sjá að neitt hollustumat liggi til grundvallar endurgreiðslum því varla ætlar nokkur að halda því fram að kjöt sé endilega hollara en korn. Eða ávextir séu ekki nokkuð sem við teljum hollt og nauðsynlegt, a.m.k. öllum börnum. Þannig að hvorugt sjónarmiðið er í gildi, hvorki að styðja við íslenska framleiðslu né hollustustýring. Er nú skemmst að minnast að einungis eru nokkrir mánuðir síðan hér á Alþingi var samþykkt hollustuneyslustefna þar sem var tíundað nokkuð nákvæmlega hvernig hægt væri að stýra neyslu og hvaða neysla væri æskileg. Þess sér engin merki í þessu frv. að þarna hafi sömu aðilar verið að verki. Væntanlega er þá sú
neyslustefna orðin plaggið eitt og fer eflaust í glatkistuna til minningar um góðan ásetning sem enga gjörir stoð. (Gripið fram í.) Ég tók það fram áðan að ég sætti mig fullkomlega við það að ráðherrar væru fjarverandi, eðli málsins samkvæmt.
    Þess er varla að finna nokkurt fordæmi í nágrannaríkjum okkar að þetta allt fari saman, þ.e. svona hátt virðisaukaskattsþrep og að aðeins sé eitt þrep og matvæli beri ekki mun lægri skatt en aðrar vörur. Einstaka lönd hafa þó skotið sér upp fyrir okkur með hæstu þrepin en hafa þá ævinlega lægri þrep fyrir matvörur eða nánast undantekningarlaust. Það væri hægt að rekja hér mörg dæmi um þetta. Eina dæmið um hið gagnstæða á Norðurlöndum er Danmörk, en þar er sama skattprósenta á matvælum og á annarri vöru og þjónustu en er þó heldur lægri en áformað er hér, þ.e. 22 stig. Jafnvel það sem við höfum viljað kalla örgustu íhaldsríki hafa séð ástæðu til þess að undanþiggja matvæli frá skattlagningu. Svo fráleitt þykir að skattleggja nauðþurftir fólks.
    Það er auðvitað margumtalað hversu miklu þyngra skattlagning á neysluvörur eins og mat vegur hjá láglaunafólki og hjá stórum barnafjölskyldum því þar má gera ráð fyrir að meginhluti tekna fari einmitt til matarkaupa, ekki síst eins og verðlagi er háttað á Íslandi. Því hefur raunar verið borið við aftur og aftur og hefur mér verið fullkomlega um megn að skilja þau rök að hátt vöruverð á Íslandi stæði ekki í neinu sambandi við hátt söluskattsstig. Menn hafa brostið á með langar ræður til útskýringar en ég verð að viðurkenna að sama er hvernig menn útskýra, mér er lífsins ómögulegt að skilja að það hafi ekki áhrif á verð að ofan á verð vörunnar sé settur 25% söluskattur. Kannski næ ég einhvern tímann svo miklum þroska og svo mikilli kunnáttu að ég skilji það.
    Í raun má segja að flestar forsendur fyrir upptöku virðisaukaskatts séu brostnar. Ég hef þegar rætt um undirbúning og framkvæmd. Flest þau rök sem vógu þyngst þegar verið var að troða virðisaukaskattinum í gegnum þingið eru brostin. Þau áttu að vera

undanþágulaus. Hér liggur fyrir frv. um fjölmargar undanþágur og eins og ég tók fram áðan, ég er ekki að segja að þær séu af hinu illa, en ein forsenda lagasetningarinnar er greinilega veikari en hún var. Það átti að vera eitt skattþrep, það var algjört frumskilyrði. Þetta atriði hangir náttúrlega enn þá á nástrái því að menn reyna að bjarga andlitinu með því að fara bil beggja, þ.e. að lækka nokkrar tegundir matvæla með endurgreiðslum en geta þá jafnframt sagt: Það er aðeins eitt stig.
    Hæstv. fjmrh. fyrrv. átti sér uppáhaldsorðtak. Hann kom varla svo hér í stól að hann segði ekki ,,einfalt, skilvirkt og réttlátt``. Og þau þrjú voru helstu rökin fyrir ekki bara þessum skatti heldur og flestum öðrum, en voru sjálfsagt oftar notuð í sambandi við þennan en aðra.
    Um einfaldleikann er þetta að segja: Allir, sem komið hafa til viðtals við fjh.- og viðskn. bæði efri og neðri deildar, hafa lokið upp einum munni um að framkvæmdin sé mjög flókin. Svo flókin og óljós að menn hafa varla haft tök á að kynna sér hana og kvíða framkvæmdinni og það er augljóst að þetta krefst aukins mannafla, bæði hjá skattyfirvöldum og fyrirtækjum, svo að lítið fer nú fyrir slagorðinu ,,einfalt``.
    Það sama gildir um ,,skilvirkni``. Það virðist ekki sannað að virðisaukaskattur sé skilvirkari en söluskattur. Reynsla annarra landa bendir alls ekki til að svo sé. Fjölmargir hér innan lands hafa orðið til þess að benda á að virðisaukaskattur muni ýta fleirum en nú er út á svartamarkaðsviðskipti. Hann átti að vera réttlátur. Það er hann ekki því skattur á lífsnauðsynjar fólks getur aldrei talist réttlæti og síst til jöfnuðar fallinn.
    Ég sagði í upphafi að á ferli þessa skatts og við undirbúning hans hafi viðnám veikst svo að flestir hafa gefist upp í baráttunni fyrir að fá því óréttlæti aflétt að skattur skuli lagður á matvæli.
    Kvennalistinn hefur aldrei hvikað í þessari afstöðu, hvorki afstöðu sinni til virðisaukaskattsins sjálfs, sem við sáum ekki og sjáum ekki enn að sé nauðsyn að taka upp. Við höfum heldur aldrei hvikað í þeirri afstöðu að matarskatturinn sé óþurftarverk og beinlínis mannfjandsamlegur. Stjórn sem stendur að slíku á ekkert gott skilið, hvorki í orði né á borði.
    Þessi stjórn hefur reynst mjög ötul við að rýra kjör fólksins í landinu og kennir sig þó við félagshyggju og jöfnuð. Til helstu afreka hennar má telja að skattar hafa hækkað, kaupmáttur lækkað, matarskattur festur í sessi, persónuafsláttur og barnabætur hafa verðrýrnað, svo eitthvað sé talið af afrekum þessarar alþýðustjórnar. Og ofan á allt saman á nú að taka þá áhættu að gera víðtæka kerfisbreytingu í skattheimtu. Enginn veit enn afleiðingar þess, margir bera ugg í brjósti og segja að hann muni hækka almennt vöruverð og kostnað og er þá verr af stað farið en heima setið. Því verður eiginlega að snúa orðum Steins Steinarrs sem hann sagði af allt öðru tilefni fyrir mörgum árum upp á hæstv. fjmrh., snúa sér til hans og segja: ,,Hæstv. ráðherra, ekki meir, ekki

meir.``