Virðisaukaskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ýmis af þeim málum sem vikið hefur verið að við þessa 1. umr. eru þess eðlis að það er að ýmsu leyti æskilegra að ræða þau við 2. umr. þegar hv. fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að fara yfir ýmsa þætti málsins. Ég vil þó við þessa umræðu víkja örfáum orðum að nokkrum atriðum.
    Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Friðrik Sophusson um jöfnunargjald. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að gert er ráð fyrir því að það gjald verði áfram í gildi á næsta ári, a.m.k. einhvern hluta þess, þó ekki hafi verið ákveðið á þessu stigi hvernig með það verði farið. Eins og hv. þm. vék að hef ég áður lýst þeirri skoðun minni að það sé ekki óeðlilegt og geti verið að ýmsu leyti sterkt fyrir Íslendinga að hafa það jöfnunargjald með í farangrinum þegar rætt verður við Evrópubandalagið um gagnkvæma hagsmuni. Það er alveg ljóst að innan Evrópubandalagsins eru víðtækir styrkir til atvinnustarfsemi á svokölluðum jaðarsvæðum Evrópubandalagsins. Það eru þessi jaðarsvæði sem einna helst mynda samkeppnisgrundvöll við helstu útflutningsgreinar Íslendinga. Þess vegna er í reynd raunhæfara að bera Ísland saman við jaðarsvæði Evrópubandalagsins heldur en það markaðs- og efnahagskerfi sem ríkir á stærstu framleiðslusvæðum bandalagsins.
    Það er líka nokkuð ljóst að jöfnunargjaldið getur verið til hagsbóta íslenskri framleiðslu að ýmsu leyti. Ég veit að hv. þm. er mér e.t.v. ekki sammála um þessi atriði en þetta eru hins vegar mínar skoðanir og þær eru skoðanir fleiri innan hæstv. ríkisstjórnar og þess vegna hefur ríkisstjórnin kosið að halda þessu gjaldi við um einhvern tíma og sjá síðan til á næsta ári þegar viðræður eru farnar að skýrast betur við Evrópubandalagið.
    Það er hins vegar einhver misskilningur sem kom fram í ræðu hv. þm. að í fjmrn. sé verið að vinna að einhverri skrá um vörur sem undanþegnar verða
jöfnunargjaldi. Ég kannast ekki við slíka vinnu. E.t.v. er hér, eins og hv. þm. reyndar gat sér til sjálfur, verið að blanda saman hjá þeim sem þetta hafa sagt, þeirri vinnu sem nú fer fram við að undirbúa greiðslufrest í tolli á virðisaukaskatti á hráefnum til íslensks iðnaðar. Það er alveg sjálfsagt að kynna hv. nefnd þá vinnu á því stigi sem hún er nú varðandi þennan þátt, að veita greiðslufrest í tolli á virðisaukaskatti til hráefnaiðnaðar.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson vék líka að endurgreiðslu söluskatts. Það var mótuð sú stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar að þegar virðisaukaskatturinn tæki gildi væri gert hreint borð varðandi söluskatt. Það væri ekki um að ræða endurgreiðslur samkvæmt gömlu söluskattskerfi á nýju ári þegar virðisaukaskatturinn tæki gildi. Til að jafna þessa reikninga að nokkru leyti hefur ríkisstjórnin lagt til að í frv. til fjáraukalaga sem kemur til umræðu og afgreiðslu hér í Sþ. væntanlega á morgun, í síðasta lagi á miðvikudag, yrði varið 390 millj. kr. til viðbótar í endurgreiðslur á söluskatti til

útflutningsgreinanna á þeim vikum sem eftir eru af þessu ári. Það er þess vegna farin sú leið að bæta við endurgreiðsluupphæðinni í söluskatti sem ákveðin var í fjárlögum yfirstandandi árs, þessum 390 millj., og ganga þannig frá reikningunum um áramótin. Þessi aðferð var talin heppilegri til að geta haldið inn í nýtt kerfi án þess að eftirhreytur gamla kerfisins væru þar áfram við lýði. Auðvitað má hafa á þessu atriði aðrar skoðanir en hins vegar var það niðurstaða ríkisstjórnarinnar að þetta væri hið heppilegasta form.
    Hv. þm. vék einnig hér nokkuð að almennum greiðslufresti í virðisaukaskatti við tollafgreiðslu. Ég hef áður lýst þeim skoðunum mínum og þeim athugunum sem fram hafa farið. Ég hef ekki sannfærst um að það muni leiða til verðhækkana á almennum vörum í landinu að greiðslufrestur verði ekki veittur. Það er líka rétt að vekja athygli á því að með því að veita iðnaðinum greiðslufrest í tolli er auðvitað verið að styrkja innlenda framleiðslu að nokkru, samanborið við innflutning. Mér hefur skilist á mörgum hv. alþm. að mikilvægt væri í núverandi atvinnuástandi að styrkja íslenska framleiðslu, íslenskan iðnað. A.m.k. heyrir maður það oft í umræðum hér um iðnaðarmál á Alþingi, t.d. um skipaiðnað, svo að ég víki nú að umræðu sem hér varð nýlega.
    Þessi aðferð sem ég hef hér lýst er eitt af þeim tækjum sem menn geta haft til að veita iðnaðinum með óbeinum hætti ákveðinn stuðning fram yfir þær greinar sem fást við innflutning á sambærilegri framleiðsluvöru annars staðar frá. Það er svo auðvitað pólitískt mat hvort menn vilja hlúa að iðnaðinum frekar en innflutningsversluninni. Ég held að við séum hins vegar mörg í þessum sal sem kjósum að hlúa frekar í fyrstu umferð að iðnaðinum en innflutningsversluninni. Hins vegar er þessu máli ekkert lokið og því var lýst yfir í Ed. að unnið yrði áfram að athugun á því og skoðuð framkvæmd á víðtækari greiðslufresti en nú þegar hefur verið ákveðinn.
    Þá var einnig vikið nokkuð að virðisaukaskatti sveitarfélaga og eins og ég gat um hér í minni framsöguræðu hefur þegar verið ákveðið að eiga um það efni nána samvinnu við sveitarfélögin í landinu og kanna rækilega hvernig virðisaukaskatturinn kemur fram hjá sveitarfélögunum. Það er ekki einfalt mál
hvaða reglur eigi að setja í þeim efnum og er nauðsynlegt að skoða það betur, sérstaklega vegna þess að sveitarfélögin eru svo mismunandi að gerð, mismunandi hvað starfsemi þeirra snertir og það þarf bæði að gæta að jafnræði milli sveitarfélaganna annars vegar og atvinnulífsins í landinu hins vegar og svo innbyrðis milli ólíkra sveitarfélaga. Hins vegar er það eindreginn vilji núv. ríkisstjórnar að fara ekki að beita virðisaukaskattinum sem einhverju sérstöku tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð á kostnað sveitarfélaganna. Sú afstaða er alveg skýr.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson vék að ýmsum þáttum virðisaukaskattsins sem ég hef nú þegar gert að umræðuefni. Hann spurði einnig um það hvort ætlunin væri að samræma virðisaukaskatt hér á landi

virðisaukaskatti í Evrópubandalagsríkjum. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun í því máli. Hins vegar er ljóst að á næstu árum hlýtur að koma til víðtækrar samræmingar á skattlagningu, bæði neysluvöru og atvinnulífs, á þeim markaðssvæðum sem helst hafa samskipti sín á milli. Þar er alveg ljóst að Evrópubandalagið og EFTA-ríkin verða eitt helsta markaðssvæði Íslands og þess vegna óhjákvæmilegt að vinna á næstu árum að víðtækri samræmingu skattalaga hér á landi og í helstu viðskiptalöndum okkar. Hve hratt það verður gert getur enginn fullyrt. Það fer nokkuð eftir því hver þróunin verður í Evrópubandalaginu. Ýmsir hafa spáð því að þar yrði tekinn upp tveggja þrepa virðisaukaskattur fljótlega. Það hefur hins vegar ekki fengist niðurstaða í því máli á vettvangi Evrópubandalagsins, m.a. vegna þess að sú ákvörðun er mjög erfið fyrir mörg ríki innan þess.
    Ég vænti þess að þessi svör varpi nokkru ljósi á þau atriði sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Ég endurtek hins vegar það sem ég sagði í upphafi að við 2. umr. málsins gefst tækifæri til að víkja nánar að þessum þáttum þegar hv. fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til að skoða málið betur.