Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ítarleg umræða um málefni Íslands og Evrópubandalagsins og EFTA. Það hefur margt komið fram í þessum umræðum sem væri ástæða til að gera hér að umtalsefni. Ég mun ekki gera það í mínu máli en aðeins koma inn á nokkur atriði sem mér finnst miklu máli skipta í þessari umræðu. Við verðum að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem við sækjumst eftir í þessum viðræðum, hverju við viljum ná út úr þeim og hvað við viljum leggja af mörkum.
    Að því er varðar EFTA-ríkin í heild sinni er ljóst að með samningum við Efnahagsbandalagið munu þau fá aðgang að stærsta markaðssvæði heimsins. Þau munu fá aukna möguleika í samvinnu við evrópsk fyrirtæki og aðila með það í huga að auka hagkvæmni í rekstri og auka þar með þjóðartekjur og hagsæld sinna íbúa. Þessi ríki sækjast eftir möguleikum til að hafa áhrif á þróun í Evrópu, ekki síst þá þróun sem nú á sér stað. Þau sækjast jafnframt eftir því að fá aukinn aðgang að rannsóknar- og þróunarstarfsemi og um leið aðgang að ýmiss konar upplýsingum sem liggja fyrir innan Evrópubandalagsins. Á sama hátt hefur Evrópubandalagið áhuga fyrir því að tengjast EFTA-ríkjunum með áhrifameiri hætti, ekki síst vegna þess að EFTA-ríkin eru menningarlega, landfræðilega og jafnvel herfræðilega, ef nota má það ljóta orð, hluti af þessu svæði. Þannig að ef Efnahagsbandalagið stefnir að því að verða þriðja stóra aflið í heiminum er ljóst að EFTA-ríkin eru mikilvægur hluti af evrópsku áhrifasvæði. Það er jafnframt ljóst að kaupmáttur í EFTA-ríkjunum er með því hæsta sem gerist í heiminum og því eru EFTA-ríkin mikilvægt markaðssvæði fyrir Efnahagsbandalagsþjóðirnar. Það er líka ljóst að EFTA-ríkin hafa öruggara framboð af ýmsum náttúruauðlindum en Efnahagsbandalagsríkin. Má í því sambandi nefna fiskafurðir, timbur og olíu.
    Að því er Ísland varðar þá höfum við hér mikilvægra hagsmuna að gæta, ekki
síst að ná betri aðgangi að stærsta markaðssvæði í heiminum, geta haft áhrif á þá þróun sem á sér stað í Evrópu, fengið bættan aðgang að því rannsóknar- og þróunarstarfi sem þar fer fram en á það skortir mjög á Íslandi að við höfum nægilegt fjármagn til þeirra hluta. Mér hefur heyrst í þessum umræðum að menn séu almennt sammála um að Íslendingum sé það mikilvægt í fyrsta lagi að fá aðgang að þessum mörkuðum og tryggja fríverslun með okkar afurðir. Og í öðru lagi að taka þátt í þeirri þróun sem nú á sér stað í Evrópu og þeim möguleikum sem þar eru fyrir hendi fyrir okkar fólk og fyrirtæki og þjóðfélagið sem heild.
    Það hefur verið gert mjög að umtalsefni hér í þessum umræðum hvaða leiðir skuli fara til að ná fram þessum markmiðum, þ.e. ef menn eru þá sammála um að við skulum taka þátt í því sem nú á sér stað í Evrópu. Í fyrsta lagi hafa menn rætt um hvort ekki sé nauðsynlegt að vera virkur þátttakandi

í þeim viðræðum sem nú eiga sér stað milli EFTA og Efnahagsbandalagsins og almennt má segja að þingmenn hafi verið um það sammála. Ég tel að þessar viðræður séu afar mikilvægar, ekki síst fyrir okkur Íslendinga því að við vitum að það er á brattann að sækja að fá Efnahagsbandalagið til að viðurkenna fríverslun með fiskafurðir. Tilhneiging hefur verið til að líta á fiskiðnaðinn sem annars konar iðnað og líta á þær afurðir sem þar eru boðnar fram sem öðruvísi iðnaðarvörur en hinn hefðbundni iðnaður, eins og hann er oftast skilgreindur meðal iðnaðarríkjanna, framleiðir. Það er jafnframt ljóst að mikil styrkjapólitík er innan Efnahagsbandalagsins og margra okkar viðskiptaþjóða þar sem sjálfsagt þykir að veita miklu fé til uppbyggingar í sjávarútvegi með svipuðum hætti og víða gerist í landbúnaði. Mjög erfitt og nánast óhugsandi er fyrir Íslendinga að sætta sig við að slík stefna verði rekin í viðskiptum milli þjóða. Á sama tíma og menn hafa hugsað sér að brjóta niður tollmúra þá láti menn sig engu skipta þó að slík styrkjapólitík sé rekin áfram. Ég held að alveg ljóst sé að ekki er á færi okkar Íslendinga einna að fá viðurkennda slíka stefnu gagnvart Efnahagsbandalaginu. A.m.k. er mun ólíklegra að það muni vera á okkar færi einna en í samvinnu fleiri Evrópuþjóða, þ.e. í samvinnu EFTA-ríkjanna. Þess vegna var það mikilvægt að EFTA-ríkin skyldu fallast á þá kröfu okkar að setja fram þau sjónarmið og þau skilyrði í viðræðum við Efnahagsbandalagið að Efnahagsbandalagið féllist á þá stefnu EFTA-ríkjanna að fríverslun með fiskafurðir yrði viðurkennd.
    Við getum að sjálfsögðu ekki á þessu stigi fullyrt um það hver verður niðurstaða þess máls frekar en annarra mála í því sambandi. Við verðum að vænta þess að Efnahagsbandalagið fallist á slíka stefnu og það hlýtur að vera okkar krafa. Ef Efnahagsbandalagið vill hins vegar alls ekki fallast á slíka stefnubreytingu í samskiptum við EFTA-ríkin er ekki hægt að sætta sig við að Efnahagsbandalagsríkin haldi áfram að styrkja sinn sjávarútveg og iðnað með þeim hætti sem gert er í dag án þess að þau ríki sem standa í slíkum viðskiptum hafi einhverja möguleika því til varnar. Þess vegna er mikilvægt að halda því til haga að ef ekki er fallist á fríverslun með fisk, jafnvel þótt fallist sé á að fella niður tolla en ekki styrki, þá hlýtur það að vera krafa Íslendinga að hafa möguleika til þess að stjórna útflutningi á óunnu hráefni
með þeim hætti sem gert er í dag og jafnvel í enn frekari mæli. Þess vegna eru viðræðurnar milli EFTA og Efnahagsbandalagsins afar mikilvægar fyrir okkur Íslendinga í þessu tilliti. Ég er ósammála því sjónarmiði sem stundum kemur fram að þetta atriði skipti nánast engu máli í viðræðunum milli EFTA og Efnahagsbandalagsins. Þetta er svo mikilvægt atriði fyrir okkur Íslendinga að það hlýtur að styrkja mjög stöðu okkar að aðrar þjóðir hafa verið tilbúnar til að taka þessi mál upp með okkur. Jafnframt skiptir það máli í samskiptum okkar við þjóðir innan EFTA-ríkjanna, svo sem Norðmenn.
    Í þessum umræðum hér á Alþingi hefur jafnframt

verið talað mikið um tvíhliða viðræður. Nokkuð hefur verið á reiki hjá einstökum aðilum hér í umræðunni hvað átt sé við með tvíhliða viðræðum. Sumir hafa lagt áherslu á að með tvíhliða viðræðum væri fyrst og fremst verið að tala um viðræður við einstaka forustumenn Efnahagsbandalagsríkjanna en ekki við framkvæmdastjórnina í Brussel. Aðrir hafa lagt mikið upp úr því að farið yrði í svokallaðar formlegar tvíhliða viðræður og einnig hefur verið rætt um að nauðsynlegt sé að taka upp tvíhliða samningaviðræður.
    Núverandi ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á tvíhliða viðræður við Efnahagsbandalagið og einstakar aðildarþjóðir þess að undanförnu og mun halda því áfram. Þessar tvíhliða viðræður hafa verið með þeim hætti að einstakir ráðherrar, einkum forsrh. og utanrrh., hafa rætt þessi mál við forustumenn þjóða Efnahagsbandalagsins og jafnframt hafa átt sér stað tvíhliða viðræður við Efnahagsbandalagið. Ég hef sem sjútvrh. átt viðræður við einstaka sjávarútvegsráðherra Efnahagsbandalagsþjóðanna og jafnframt við framkvæmdastjórnina í Brussel. Við væntum þess að fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar sem fer með sjávarútvegsmál muni koma hingað til lands á næstunni. Jafnframt hefur viðskrh. átt viðræður við Henning Christophersen um málefni okkar. Allar þessar viðræður hafa verið mikilvægar. Menn geta út af fyrir sig fundið ýmis nöfn á þessar viðræður. Það má kalla þær formlegar eða óformlegar eftir því hvaða skilning menn leggja í það hugtak. En að sjálfsögðu er ljóst að viðræður sem eiga sér stað í opinberum heimsóknum milli þjóðanna, þ.e. í opinberum heimsóknum milli Efnahagsbandalagsins og Íslands eru formlegar í skilningi þess orðs. Jafnframt eiga sér stað ýmiss konar óformlegar viðræður þegar menn hittast á ýmsum stöðum og við ýmis tækifæri og nauðsynlegt er að mínu mati að halda slíkum viðræðum áfram eftir því sem nokkur kostur er. En það sem er að sjálfsögðu aðalatriði málsins og við þurfum að spyrja okkur þess: Eru menn tilbúnir að óska eftir formlegum tvíhliða samningaviðræðum milli Íslands og Efnahagsbandalagsins?
    Ég tel að við séum ekki í stakk búnir, og ekki sé rétt að fara þess á leit við Efnahagsbandalagið við þær aðstæður sem nú ríkja að taka upp tvíhliða samningaviðræður milli Íslands og Efnahagsbandalagsins. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Sú fyrsta er að nú eiga sér stað viðræður milli EFTA-ríkjanna og Efnahagsbandalagsins sem munu væntanlega leiða til þess að samningaviðræður verða teknar upp. Við þurfum að sjálfsögðu að undirbúa okkur sem best fyrir þær samningaviðræður sem munu væntanlega fara fram á næsta ári og hugsanlega ljúka í lok næsta árs. Þá munu EFTA-þjóðirnar og Efnahagsbandalagsþjóðirnar þurfa að taka afstöðu til þess sem þar kemur fram.
    Það er jafnframt ljóst að það sem hefur staðið í vegi fyrir samningum milli Íslands annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar er sjávarútvegsstefna bandalagsins. Ítarleg grein hefur verið gerð fyrir sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins, bæði í ræðum

og riti og ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um hana. Hins vegar er ljóst að Evrópubandalagið hefur uppi kröfur um aðild eða aðgang að fiskveiðiauðlind í stað aðgangs sjávarafurða að þeirra mörkuðum. Þetta er stefna sem Íslendingar eru allir sammála um að ekki komi til greina að fallast á og ég tel vera mikla möguleika til þess með samningum að fá sérstöðu Íslendinga viðurkennda að þessu leyti. Það er jafnframt ljóst í mínum huga að ef farið yrði út í samningaviðræður á þessu stigi þá er líklegt að sjávarútvegshagsmunir Evrópubandalagsins yrðu þar mjög uppi á borðinu hvort sem þær samningaviðræður yrðu undir forustu sjávarútvegsskrifstofu Efnahagsbandalagsins eða utanríkisskrifstofunnar. En í þeim viðræðum sem við höfum átt í gegnum tíðina við Evrópubandalagið hefur sjávarútvegsskrifstofan þar verið fyrst og fremst í forsvari, enda eru sjávarútvegsmál á hennar forræði, bæði að því er varðar nýtingu auðlinda og jafnframt, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, ákvarðanir að því er varðar tolla á sjávarafurðum. Þetta innra skipulag Evrópubandalagsins er mönnum hér kunnugt og ætti ekki að þurfa að fara fleiri orðum um það. Ég er þeirrar skoðunar að á einhverju stigi þessa máls muni koma til tvíhliða viðræðna milli Íslands og Evrópubandalagsins, þ.e. tvíhliða samningaviðræðna, en það sé of snemmt á þessu stigi að skilgreina það mál. Það verður bæði að koma betur í ljós hvað muni hugsanlega koma upp á borð í þeim viðræðum og jafnframt þarf að koma betur í ljós hver verður niðurstaða í viðræðum milli EFTA og Evrópubandalagsins að því er varðar fríverslun með fisk.
    Í þessum umræðum hér hefur í allmiklum mæli komið fram að ágreiningur væri
um þessi mál milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og hinna ýmsu hagsmunaaðila í sjávarútvegi hins vegar og nokkuð vitnað í þá skýrslu sem tekin var saman fyrir íslenskan sjávarútveg og Evrópubandalagið sem er að ýmsu leyti mjög fróðleg. Aðalatriði þeirrar skýrslu er það sem kemur fram í lokaorðum hennar sem ég vildi leyfa mér að vitna til, með leyfi hæstv. forseta, en þar stendur:
    ,,Ljóst er að Íslendingar þurfa að leita eftir viðbótarsamningi við fríverslunarsamninginn við Evrópubandalagið ef tollar bandalagsins eiga ekki að hafa varanleg áhrif á lífsafkomu á Íslandi, atvinnu- og byggðaþróun. Neyta þarf allra ráða til þess að tryggja hagsmuni okkar, bæði í væntanlegum viðræðum við EFTA og Evrópubandalagið og í tvíhliða viðræðum Íslendinga og bandalagsins.``
    Þetta er í stuttu máli það sem verið er að gera og enginn ágreiningur þar um við hina ýmsu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það er hins vegar ljóst að þar eru mismunandi sjónarmið og mismunandi áherslur innan dyra eins og víða annars staðar. En í þeim viðræðum sem ég hef átt við þessa aðila, bæði allmarga saman og einstaka aðila þessa hóps og nú síðast við formann hópsins í gær, verð ég ekki var við að þar sé ágreiningur á ferðinni. Það má vera að

mat á stöðunni sé eitthvað mismunandi en miðað við þá þróun sem nú á sér stað, eins og fram hefur komið í fréttum, að stefnt sé að því að viðræðum milli EFTA og Efnahagsbandalagsins verði jafnvel lokið á næsta ári, er orðið ljóst að sá tímarammi sem verið er að tala um er allmiklu styttri en menn höfðu gert sér í hugarlund hér fyrir nokkrum vikum eða mánuðum. Þá óttuðust ýmsir að þessar viðræður mundu taka mjög mörg ár og þar af leiðandi hefðu aðilar ekki efni á, eins og sagt var, að bíða með formlegar tvíhliða samningaviðræður milli Íslands og Efnahagsbandalagsins. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að við verðum að rækja þetta hvort tveggja, bæði viðræðurnar milli EFTA og Evrópubandalagsins og jafnframt hinar tvíhliða viðræður, en ég endurtek þá skoðun mína að ástæður eru ekki til þess á þessu stigi að óska eftir formlegum samningaviðræðum milli Efnahagsbandalagsins og Íslendinga. Haldið verður áfram með þær tvíhliða viðræður sem hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar á næstunni með ýmsum hætti. Má þar t.d. nefna að hæstv. viðskrh. mun fara til Brussel í janúarmánuði og við væntum þess að Manuel Marin muni koma til Íslands fljótlega á næsta ári.
    Þá hefur jafnframt verið ákveðinn fundur danska og íslenska sjávarútvegsráðherrans í upphafi næsta árs. Við höfum boðið írska sjávarútvegsráðherranum í opinbera heimsókn til Íslands en hann mun fara með forustu í þessum málaflokki hjá Efnahagsbandalagsríkjunum á næsta ári, fyrri helming næsta árs. Allt eru þetta samskipti sem við verðum að rækta sem best og ég tel að mikill skilningur sé fyrir okkar sérstöðu hjá mörgum þessara aðila. Hvort sá skilningur mun að lokum leiða til þess að um breytta afstöðu verði að ræða hjá framkvæmdastjórninni í Brussel skal ég ekki fullyrða á þessu stigi, en menn mega ekki gleyma því að framkvæmdastjórnin í Brussel fer með þessi mál með formlegum hætti jafnvel þótt það sé vitað að hinar einstöku aðildarþjóðir geti haft mikil áhrif á stefnuna sem rekin er af framkvæmdastjórninni í Brussel.
    Virðulegi forseti. Ég hafði heitið því í upphafi þessara umræðna að stytta mjög mál mitt. Ég hefði haft mikla ástæðu til að gera ýmislegt af því sem hér hefur komið fram að umræðuefni. Ég trúi því að þær viðræður sem nú fara fram muni leiða til samningaviðræðna milli Efnahagsbandalagsríkjanna annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar. Ég trúi því að við Íslendingar munum geta náð þar samningum sem séu okkur hagstæðir. Og ég er sannfærður um að það sé rangt að sitja hjá í þessum viðræðum. Við eigum að taka þátt í þeim af fullum krafti, en það er einnig mjög líklegt, eins og ég hef áður komið að, að á einhverju stigi muni koma til tvíhliða samningaviðræðna milli okkar og Efnahagsbandalagsins. Það er of snemmt að fullyrða um það í dag hvenær þær verða eða þá nákvæmlega hvað muni verða uppi á borðinu í þeim samningaviðræðum, en þær tvíhliða viðræður sem þurfa að fara fram á næstunni þurfa að leiða það

betur i ljós hvað þar muni verða fyrst og fremst til umræðu. Við eigum ekki að fallast á að krafan um beinan aðgang að okkar fiskveiðilögsögu í stað aðgangs að mörkuðum Efnahagsbandalagsins verði til umræðu í slíkum samningaviðræðum. Við þurfum að tryggja áður en til þeirra kemur að það sé alveg ljóst að slík krafa verði ekki sett fram af hálfu Efnahagsbandalagsins þegar til samningaviðræðna kemur.