Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Þetta mun vera í sjöunda sinn sem skýrslan um könnunarviðræður EFTA og Evrópubandalagsins kemur til umræðu. Umræðan hófst sem kunnugt er 23. nóv. og var svo fram haldið 24., 27. og 29. þess mánaðar og svo 4. og 7. og nú loks 19. des. Átján þingmenn hafa hér flutt 25 ræður um málið. Auk þess hefur 33 sinnum verið rætt um þingsköp vegna umræðunnar eða í tengslum við hana. Ræðutíminn um málið sjálft áður en þessi fundur hófst var orðinn 14 klst. og 17 mín. og þar af höfðu þingmenn stjórnarandstöðunnar talað í u.þ.b. 9 klst. og 20 mín. Það má áætla að þingskapaumræðan hafi verið um ein og hálf til tvær stundir og þar af hefur stjórnarandstaðan líklega talað í eina til eina og hálfa stund. Á þessum fundi hefur þegar bæst við ræðutímann um ein og hálf stund. Það verður því ekki annað sagt en að þessi skýrsla hafi þegar hlotið óvenjulega ítarlega umfjöllun og reyndar hefur margt gagnlegt komið fram við þessa umræðu. Ég tek fram að hér eru enn margir á mælendaskrá og þess að vænta að enn komi nýjar upplýsingar og sjónarmið fram.
    Ég kveð mér hér einkum hljóðs til þess að skýra frá þeim fundum sem utanrrh. hefur tekið þátt í fyrir Íslands hönd og fyrir hönd Fríverslunarsamtaka Evrópu á þeim tíma sem liðinn er frá því að umræðan fór hér síðast fram. Ég minni á að forsrh. kynnti í þessum umræðum, 29. nóv. sl., bókun sem gerð hafði verið í ríkisstjórninni þess efnis að utanrrh. mundi áfram taka þátt í undirbúnings- og samningaviðræðum þessara aðila sem byggðar verða á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með töldum þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett. Utanrrh. stjórnaði ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu í Genf 11. og 12. þ.m. Þingmenn hafa fengið yfirlýsingu þess fundar í heild í hendur en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherrarnir gerðu ráð fyrir því að sameiginlegur ráðherrafundur EFTA og Evrópubandalagsins í Brussel 19. des. [þ.e. í dag] mundi lýsa yfir skýrum
pólitískum vilja um að hefja samningaviðræður um víðtækan samning um evrópskt efnahagssvæði snemma árs 1990. Fram að þeim tíma yrðu haldnar undirbúningsviðræður. Stefnt skyldi að því að meginlínur samningsins skýrðust um mitt ár 1990 og samningaviðræðum lyki fyrir árslok. Ráðherrar lýstu því yfir sem markmiði sínu að samningur um evrópska efnahagssvæðið mundi ganga í gildi samhliða innri markaði Evrópubandalagsins. Þeir gerðu ráð fyrir því að samningaviðræður mundu leiða til kerfisbundnara samstarfs með sameiginlegri ákvarðanatöku og stjórnarstofnunum til þess að sjá fyrir sameiginlegri mótun og gerð reglna um evrópska efnahagssvæðið í framtíðinni. Þeir lýstu því yfir að samningurinn gæti þá og því aðeins orðið pólitískt viðunandi og lagalega skilvirkur að komið væri á fót raunverulegu sameiginlegu kerfi við töku ákvarðana, bæði varðandi efni og form. Fyrirhugað umfang

samningsins mundi réttlæta slíkt kerfi. Þeir gerðu ráð fyrir því að samningur mundi gera kleift að ná fyllsta mögulega árangri varðandi óhindruð vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutninga og atvinnu- og búseturéttindi innan evrópska efnahagssvæðisins sem heildar. Jafnhliða yrði samstarf aukið um jaðarverkefni svonefnd, t.d. menntamál, umhverfismál, rannsóknir og þróun og hina félagslegu vídd samstarfsins.
    Í þessu sambandi samþykktu ráðherrar að viðeigandi reglur Evrópubandalagsins sem þegar hefðu verið mótaðar og sem skilgreina skal í samvinnu við Evrópubandalagið skuli felldar inn í samning á einn eða annan hátt. Hann yrði síðan sameiginlegur lagagrundvöllur. Tillit yrði tekið til undantekninga sem réttlættar væru með hliðsjón af grundvallarhagsmunum og gert yrði ráð fyrir sérstakri tilhögun á aðlögunartíma. Ráðherrar minntu einnig á að báðir aðilar hefðu bent á að til væru svið þar sem EFTA-ríkin hefðu ítarlegri reglur en Evrópubandalagið. Afleiðingar þess yrði að fjalla um í síðari samningaviðræðum. Varðandi þetta lögðu EFTA-ráðherrarnir áherslu á að í framtíðarsamstarfi á sviði heilbrigðismála, vöruöryggis, neytendamála eða umhverfismála yrði að leggja strangari kröfur til grundvallar en gert hefði verið innan Evrópubandalagsins.
    Varðandi lagaleg viðfangsefni gerðu ráðherrar ráð fyrir að komið yrði á fót sjálfstæðu, skilvirku og áreiðanlegu kerfi til eftirlits með framkvæmd reglna um evrópska efnahagssvæðið sem og sameiginlegum úrskurðaraðila til að setja niður deilumál og tryggja samræmda túlkun þessara reglna.``
    Hér lýkur, virðulegi forseti, tilvitnun minni í samþykkt eða ályktun fundar EFTA-ráherranna 11. og 12. des. en sá fundur var, eins og kunnugt er, haldinn til að undirbúa sameiginlegan ráðherrafund EFTA og Evrópubandalagsins sem hófst í morgun. Þeim fundi er nú í þann veginn að ljúka og má telja næsta víst að samkomulag hafi þar tekist um að hefja undirbúningsviðræðurnar sem leiði til eiginlegra samningaviðræðna. Þess er að vænta að ræða utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrir hönd Íslands og EFTA á þessum fundi og ályktun fundarins berist á næstu klukkustundum og verður þá að sjálfsögðu þegar send utanrmn. og þingmönnum í Evrópustefnunefnd þingsins.
    EFTA- og Evrópubandalagsráðherrarnir munu væntanlega lýsa því yfir að þeir
stefni að samstarfsfyrirkomulagi sem m.a. tryggi sér í lagi að fullnægja efnislega eftirfarandi markmiðum:
    1. Að koma á óhindruðum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsviðskiptum og atvinnu- og búseturéttindum, samkvæmt reglum sem aðilar mundu skilgreina sameiginlega á grundvelli viðeigandi og þegar mótaðra reglna Evrópubandalagsins. Undanþágur sem réttlættar eru með hliðsjón af grundvallarhagsmunum einstakra þjóða, svo og tilhögun á aðlögunartíma, gætu orðið samningsatriði. Tryggja bæri jöfn samkeppnisskilyrði.
    2. Að efla og breikka samstarf á öðrum sviðum

sem falla að samstarfsvettvangi Evrópubandalagsins, svo sem rannsóknir og þróun, umhverfismál, menntamál, vinnuskilyrði og félagsmál, neytendamál, aðgerðir til stuðnings smáum og miðlungsstórum fyrirtækjum og ferðamál.
    3. Að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða innan þessara ríkjabandalaga.
    Þá telja þeir, þ.e. ráðherrarnir, að í samskiptarammanum sem svo er nefndur ætti m.a. að tryggja aðilum hans fullt sjálfsforræði við töku ákvarðana. Þetta er mikilvæg yfirlýsing.
    Í samræmi við þessa grundvallarreglu ættu samningaviðræðurnar að leiða til þess að séð verði fyrir, og hér tel ég upp nokkur atriði:
    Í fyrsta lagi aðferðum sem tryggja á skilvirkan hátt að sjónarmið beggja aðila séu tekin til greina til þess að auðvelda samhljóða niðurstöður við ákvarðanir sem varða evrópska efnahagssvæðið.
    Í öðru lagi viðeigandi samstarfsform sem tryggðu bein réttaráhrif sameiginlegrar löggjafar, umsjón með framkvæmd hennar sem og réttarlegt eftirlit. Með samningaviðræðum milli Evrópubandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna sem eins viðræðuaðila hins vegar mun að því stefnt að ná fram alhliða samningum sem næðu til efnisatriða og lagalegra og stofnanalegra hliða sem ég hef hér getið um.
    Ráðherrarnir munu væntanlega enn fremur benda á að pólitískar viðræður komi til greina m.a. beinlínis milli allra hlutaðeigandi ráðherra aðildarríkjanna.
    Það sem ég hef hér farið með er útdráttur úr því sem ég lít á sem meginefni þeirrar yfirlýsingar sem vænta má að okkur berist senn. Ég tek fram að hún er ekki endanleg en ég taldi rétt og eðlilegt, reyndar nauðsynlegt, að skýra þinginu frá því sem er í vændum.
    Þegar hefur komið fram af ríkisstjórnarinnar hálfu að í viðræðunum sem fram undan eru verði fylgt eftir sameiginlegri kröfu EFTA-ríkjanna um fríverslun með fiskafurðir innan hins væntanlega evrópska efnahagssvæðis.
    Þá vil ég líka við þetta tækifæri taka skýrt fram að um leið verður lögð aukin áhersla á tvíhliða viðræður Íslendinga við Evrópubandalagið og aðildarríki þess sem hafa að markmiði að tryggja tollfrjálsan aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsins og að tryggja stöðu íslensks sjávarútvegs að öðru leyti. En sjútvrh. fjallaði einmitt nokkuð um þetta mál í ræðu sinni hér áðan.
    Þá hefur því verið ítrekað lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að náið samráð verði haft við utanrmn. Alþingis á öllum stigum þessa máls og þeirra viðræðna sem nú fara í hönd.
    Virðulegi forseti. Fram undan eru einhverjar mikilvægustu viðræður og ákvarðanir um samskipti Íslands við umheiminn sem á dagskrá hafa verið á lýðveldistímanum. Það er mikilvægt að sem víðtækust samstaða geti tekist um stefnuna í Evrópumálinu. Þetta mál á án alls efa eftir að koma á dagskrá þingsins síðar í vetur. Þessi umræða hefur þegar skilað mikilvægum árangri.