Fjáraukalög 1989
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. til laga um fjáraukalög fyrir árið 1989. Og vissulega er það rétt sem hæstv. fjmrh. sagði að þetta hefur ekki verið gert áður, að ræða fjáraukalög þess árs sem er að líða áður en að áramótum er komið. Það eru vissulega ástæður fyrir því og þær með þeim hætti að þessar umræður eiga fyllilega rétt á sér, og margt af því sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan eru athugasemdir sem Alþingi ætti að taka eftir því að eins og hann ræddi með hvaða hætti fjárveitingavaldið á að fylgjast með voru það margar ágætar hugmyndir sem hann kom með hér áðan. Hann sagði hins vegar að það hefði viðgengist um áratuga skeið óráðsía og annað eftir því í sambandi við þessa hluti og hristi ég höfuðið til að mótmæla því. Ég kannaðist ekki við að þessir hlutir hefðu ekki verið í nokkuð góðu lagi fyrir einum áratug síðan miðað við þá hluti og miðað við það hvernig að þessum málum var þá staðið, hvað snerti ríkisbókhald, hvað snerti Ríkisendurskoðun og hvað snerti endurskoðun þá sem Alþingi hafði og hefur með að gera.
    Hæstv. fjmrh. hélt hér ræðu og lét gamminn geisa eins og stundum áður. En það kemur stundum fyrir þennan ágæta ráðherra að fara svo hratt yfir að hann gleymir að hafa réttar staðreyndir með og gleymir að líta á ýmislegt sem hann þarf að horfa á þegar hann er að gera grein fyrir sínum málum. Hann var að ræða um það með hvaða hætti hefði verið staðið að framlagningu fjáraukalaga hér á Alþingi og einmitt í sambandi við það orðaði hæstv. menntmrh. það ,,um áratuga skeið``. Ég tók þar með eftir því að hæstv. fjmrh. hafði tekist a.m.k. að villa um fyrir hæstv. menntmrh. Hann hafði tekið hann trúanlegan miðað við það sem hann hafði sagt svo að mér datt í hug að það væri þá ekki úr vegi að ég kæmi upp og færi yfir þetta með hæstv. fjmrh. til þess að hann a.m.k. vissi hvernig hlutirnir hefðu verið að gerast og það hvarflaði ekki að mér að hann gerði sér ekki grein fyrir hvaða fjáraukalög hann hefði verið að flytja hér á
Alþingi. Sjálfur hafði ég, þegar hann kom hér fyrst með frv. til laga um ríkisreikning og frv. til fjáraukalaga, talað hér úr þessum ræðustól og lýst ánægju minni yfir því að þannig skyldi til þessa verks gengið. Og ég segi það hér að það sem við erum hér að ræða, efnislega, þ.e. fjáraukalög fyrir þetta ár, er af hinu góða. Það er hins vegar aldrei af hinu góða ef ekki er farið rétt með þegar verið er að ræða um svo þýðingarmikla hluti sem fjárlög eða fjáraukalög og gera upp dæmið. Ég ætla því að leyfa mér að rifja upp og hverfa hálfan, jafnvel hálfan annan áratug aftur í tímann og benda á að á þinginu 1977--1978 flutti þáv. fjmrh. fjáraukalög bæði fyrir árið 1975 og 1976, einfaldlega vegna þess að þegar hann tók við hafði verið dráttur á framlagningu fjáraukalaga, á framlagningu ríkisreiknings og sá fjmrh. vildi ekki viðhafa þessi vinnubrögð og frv. til fjáraukalaga og ríkisreiknings voru því lögð fram á næsta þingi eftir

fjárlagaárið. Þetta var þá ekki hægt fyrr, einfaldlega vegna þeirra starfsaðferða sem giltu og unnið var eftir sem er búið að gerbreyta frá þeim tíma.
    Ef við höldum svo áfram og víkjum að fjáraukalögum fyrir árið 1977 þá hverfur sá ráðherra úr ráðherrastól á miðju ári 1978. Og í byrjun maí 1979, þ.e. á þinginu 1978--1979, næsta þingi á eftir, eru fjáraukalög lögð fram, þá tilbúin. En hvað gerist svo? Nýr fjmrh. er tekinn við. Þessi sem var 1974--1978 var úr Sjálfstfl., og mér virtist svona í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan að hann væri að tileinka hana fyrrv. fjármálaráðherrum Sjálfstfl. ( Fjmrh.: Á þessum áratug.) Á þessum áratug. Þá skulum við halda okkur við hann. ( Gripið fram í: Það kom skýrt fram.) Við skulum lofa hæstv. ráðherra að gefa nánari skýringar á því sem hann sagði áðan og binda okkur þá bara við það, en ég tel mig hafa gert grein fyrir því með hvaða hætti að þessum málum var staðið af hálfu fyrrv. fjármálaráðherra Sjálfstfl. á síðasta áratug, þannig að það mál er þá gert upp.
    Árið 1978 gerist framsóknarmaður fjmrh. Hann var að vísu í stuttan tíma, til 1979, og þá tók við alþýðuflokksmaður, maður sem í dag skipar stöðu formanns fjvn. Hann sat að vísu ekki nema í örfáa mánuði, eins og mér heyrðist hæstv. fjmrh. vilja orða það um þann sem á eftir kom. En fjáraukalög fyrir árið 1978 eru lögð fram á Alþingi í marsmánuði 1982. Hver skyldi þá hafa verið orðinn fjmrh.? --- Ja, nú segir hæstv. fjmrh. ekki neitt. ( Gripið fram í: Hann veit það ekki.) Hann veit það. Ég er alveg klár á því. Hann er prófessor í stjórnmálafræði. Það er enginn vafi á því. En af því að fjmrh. vill ekki nefna það, þá var hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds fjmrh. og ekki trúi ég að hæstv. fjmrh. vilji segja að hann sé sjálfstæðismaður. Og svo kemur: Hversu mörg fjáraukalagafrv. flutti þessi hæstv. fjmrh. sem sat í ríkisstjórn 1980--1983 og með honum einmitt hæstv. menntmrh. sem hér talaði áðan en að vísu ekki ráðherra í þeirri stöðu þá? Það er ekkert fjáraukalagafrv. flutt af þessum hæstv. fjmrh. og þá spyr ég: Getur það verið að hann hafi ekki viljað sýna eitthvað? Getur það verið að hann hafi viljað leyna einhverju? Það svarar hver fyrir sig. En fjáraukalagafrv. fyrir árið 1979, árið sem hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gegndu embætti
fjármálaráðherra, er flutt 1988. Hvað var fjmrh. 1980--1983 að gera? Ekki trúi ég því að hann hafi verið að reyna að fela eitthvað sem þessir hæstv. fyrrv. ráðherrar höfðu verið að gera. Það hvarflar ekki að mér.
    Og þá kem ég að því frv. sem hæstv. núv. fjmrh. flutti líka. Hann flutti fjáraukalög fyrir árið 1979, en það var á síðasta áratug sem þau fjárlög höfðu verið í gildi. Hann flytur hér frv. til fjáraukalaga fyrir árin 1981, 1982, 1983, 1984, 1985 og 1986. Fjáraukalög fyrir sex ár. Og hvernig skiptist þetta? Alþýðubandalagsfjármálaráðherra í þrjú ár og sjálfstæðisfjármálaráðherra í þrjú ár. Þá höfum við nú þessar upplýsingar allar hér á borðinu.

    Ég er ekki með þessu, hæstv. fjmrh., að mæla þessu bót. ( Fjmrh.: Það lyktar nú af því.) Það lyktar ekkert af því og því til staðfestingar, eins og ég sagði hér áðan, vék ég að því að þegar hæstv. fjmrh. lagði þessa hluti hér fram, lagði fram þessi frv. og frv. um ríkisreikningana, reyndi ég einmitt að mæla með því að hlutirnir gerðust, yrðu afgreiddir hér eins fljótt og mögulegt væri. Það er þess vegna að mínum dómi ekki ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að koma hér upp nú, þegar verið er að gagnrýna þá fjármálastjórn sem er hjá núv. ríkisstjórn, m.a. með því sem þetta fjáraukalagafrv. sem við fjöllum um hefur í efnisinnihaldi, að reyna að breiða yfir það allt saman og koma upp og segja: Ja, hvernig var þetta í fyrra og hittiðfyrra? Hvernig hefur þetta verið hjá sjálfstæðismönnum í 70 ár? Og hann var meira að segja um tíma steinhissa á því að hv. 2. þm. Norðurl. v. hefði ekki látið í sér heyra fyrir 70 árum í sambandi við þessi mál.
    Ég held að það hvernig að þessu hefur verið staðið sé út af fyrir sig lærdómur fyrir okkur. Við höfum verið að vinna þessi mál betur, en ég vil benda á hverjir það voru sem ekki treystu sér til þess, hvorki að skila ríkisreikningi hér á næsta þingi eftir fjárlagaárið né fjáraukalögum, og hef ég þá í huga fjáraukalög fyrir sex ár, þar af þrjú alþýðubandalagsár, þrjú þau fyrri, 1981, 1982 og 1983.
    Fjárlagagerð er eitt þýðingarmesta verkefni sem alþingismenn hafa með að gera. Það hefur því miður oft viljað brenna við að fjármálaráðherrar hafa ekki viljað virða samþykktir Alþingis og fjárveitingar því átt sér stað utan við ramma þess. Ég er þeirrar skoðunar að það að veita fjárveitingar til annars en verkefna sem þegar er búið að ákveða, vegna vanreiknings eða einhvers þess sem upp hefur komið frá því að fjárlög voru samþykkt, geti fjmrh. ekki gert öðruvísi en að hafa til þess samstarf við fjvn. og með fullri vitund og vitneskju og vilja hennar til þess að mæla með slíkri fjárveitingu þegar til kasta Alþingis kemur. Þetta var sú regla sem gilti og þetta er sú regla sem á að gilda. Ég er þeirrar skoðunar að þær hugmyndir sem mér er kunnugt um að fjallað er um af hálfu fjvn. til þess að ná betri tökum á þessum málum séu af hinu góða og Alþingi á að standa með fjvn. í þeim efnum. Ég tel líka að það sé af hinu góða að við erum þó að fjalla um þessa hluti núna enda þótt sumt af þessu sé með þeim hætti að þingmenn geti ekki fallist á það.
    Ég vildi, virðulegi forseti, láta þetta koma fram hér vegna þeirra ummæla sem hæstv. fjmrh. viðhafði hér áðan og ég varð var við að hæstv. menntmrh. hafði tekið sem heilagan sannleik. Þá sýndist mér eðlilegt og rétt að sem einn úr hópi fyrrv. fjármálaráðherra Sjálfstfl. kæmi ég þessum upplýsingum á framfæri við þingheim hér og nú þannig að menn héldu ekki þessari umræðu áfram, grundvallað á því sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan og var ekki staðreyndunum samkvæmt.