Framhald á EFTA-EB-umræðum
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti ræddi þetta mál á fundi með þingflokksformönnum í dag. Mikill meiri hluti manna var þeirrar skoðunar að erfitt væri að breyta prentaðri dagskrá. Hefði þessari umræðu getað lokið nú fyrir kvöldmatarhlé hefði verið sjálfsagt að gera tilraun til að ljúka þessari umræðu um viðræður EFTA og Efnahagsbandalags. Hitt vil ég benda hv. 1. þm. Suðurl. á að hér er um að ræða umræðu um skýrslu utanrrh. og því verður engin ályktun gerð, þannig að það er erfitt að sjá að það skipti öllu máli hvort umræðunni verði lokið á einhverjum ákveðnum degi eða ekki.
    Nú lítur svo út sem umræða um fjáraukalög dragist mjög og ég vil því upplýsa hv. þingheim um að kl. 7 verður gefið kvöldmatarhlé til kl. 9, en síðan vil ég biðja hv. þingheim að vera við því búinn að hér verði langur fundur fram eftir nóttu því að ætlun forseta er að ljúka umræðu um fjáraukalög í nótt eða í fyrramálið eða hvenær sem þurfa þykir. Enn er hér nokkur mælendaskrá og ég verð því að hryggja hv. 1. þm. Suðurl. með því að fyrst verður að ljúka umræðu um fjáraukalög en svo er forseta ljúft að semja við þingflokksformenn og hæstv. forseta Ed. og Nd. um að áframhald verði á umræðu um viðræður EFTA og Efnmahagsbandalagsins.