Framhald á EFTA-EB-umræðum
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég veit ekki hvort skilja á þessi orð sem til mín er beint á þann veg að þess sé farið á leit að 1. þm. Suðurl. annist takmörkun á ræðutíma einstakra þingmanna í þeirri umræðu sem hér fer fram. Það mátti nánast skilja ummæli hæstv. forseta á þann veg. Ég vona að svo hafi ekki verið, vil hins ítreka að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hefur ekki komið fram áhugi á því að ljúka afgreiðslu fjárlaga og mikilvægra mála sem jafnan eru tengd fjárlögum. Þvert á móti liggur fyrir bein andstaða hæstv. ríkisstjórnar gegn því að gert verði samkomulag um lok þinghalds fyrir jólaleyfi þannig að af þeim sökum sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu að fresta umræðum um fjáraukalög og taka til við hina mikilvægu umræðu um Evrópubandalagið sem hæstv. utanrrh. hefur sannarlega lýst réttilega sem miklvægustu umræðu sem hér hefur farið fram á Alþingi Íslendinga um alllangan tíma.